142. löggjafarþing — 24. fundur,  5. júlí 2013.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins.

[01:16]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frumvarp um Ríkisútvarpið varð að lögum á Alþingi skömmu fyrir þingkosningarnar síðastliðið vor með stuðningi allra þingflokka hér í salnum nema Sjálfstæðisflokksins. Það mikilvægasta við það frumvarp var að þar voru stigin mikilvæg skref til þess að treysta bæði faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins.

Af hverju skiptir það máli? Af því að þetta er sá fjölmiðill í landinu sem almenningur treystir hvað best til þess að flytja áreiðanlegar, hlutlægar fréttir af því sem er að gerast í þjóðmálaumræðunni og standa vörð um lýðræðishlutverkið í landinu. Það skýtur því skökku við að eitt af fyrstu málum nýrrar ríkisstjórnar sé að flytja frumvarp sem víkur frá þessu verki og kemur á beinni pólitískri stjórn þingflokka á yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Það vekur sérstaka athygli að sá ríkisstjórnarmeirihluti sem fékk rétt ríflega 50% atkvæða hyggist nú festa í lög að hann fái 2/3 stjórnarmanna. Þetta grefur undan trausti (Forseti hringir.) almennings á að ný ríkisstjórn muni virða faglegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins. (Forseti hringir.) Það er grafalvarlegur hlutur. (BirgJ: Heyr, heyr.)