142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:33]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra góðar óskir til okkar þingmanna og býð alþingismenn jafnframt velkomna til framhaldsfunda Alþingis, 142. löggjafarþings. Samkvæmt starfsáætlun er gert ráð fyrir þingfundum í þrjá daga í þessari viku og síðan jafn mörgum í þeirri næstu. Eins og þingmönnum er kunnugt varð það niðurstaða þingflokkanna eftir að þing kom saman að loknum alþingiskosningum að efna til þingfunda nú í september með þessu sniði. Nýtt þing hefst svo þriðjudaginn 1. október. Þá verður fjárlagafrumvarp lagt fram svo sem kveðið er á um í 42. gr. stjórnarskrárinnar en í fyrsta sinn mun nú reyna á nýtt ákvæði þingskapa um að samhliða fjárlagafrumvarpi verði lögð fram frumvörp um breytingar á lögum sem útgjöld og tekjur fjárlagafrumvarpsins byggjast á.

Gera má ráð fyrir að þinghaldið nú í september muni litast af pólitískri umræðu, ekki síst þeirri sem hæst ber nú á vettvangi dagsins. Hæstv. forsætisráðherra gerir á eftir grein fyrir störfum ríkisstjórnarinnar og fara fram umræður í framhaldi af því. Á fimmtudaginn verða sömuleiðis umræður um munnlega skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um Evrópumál. Auk hefðbundinna þingmála verða á dagskrá þingsins sérstakar umræður sem þingmenn hafa óskað eftir, óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra og umræður um störf þingsins auk annarra hefðbundinna þingstarfa.