142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrslu hans og vil lýsa sérstakri ánægju með þann tón sem hann sló í ræðu sinni um mikilvægi samstöðu og samvinnu á þeim viðsjárverðu tímum sem við lifum. Ég vil hins vegar óhjákvæmilega minna á það í upphafi máls míns að við höfum fengið frekar lítið að sjá af þeirri samvinnu og samstöðu á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstjórnar. Ég vil þó undanskilja tvo ráðherra, hæstv. heilbrigðisráðherra sem óskað hefur eftir tilnefningu stjórnarandstöðunnar í hóp um greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðiskerfinu og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem lýst hefur vilja til þess að vinna áfram á þeim grunni sem unninn hefur verið á síðustu árum í stefnumótun á sviði húsnæðismála og óskað eftir aðkomu stjórnarandstöðunnar að því verki. Það er fagnaðarefni að svo sé unnið. Við viljum gjarnan vinna með þeim hætti. Við leggjum því á þessu stutta þingi fram tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til lausnar því alvarlega ástandi sem upp er komið á leigumarkaði og þolir ekki bið eftir heildarendurskoðun húsnæðisstefnu.

En það er stærra sem ekki er sátt um og ekki er boðið upp á sátt eða samstarf um. Ekki hefur verið leitað samstarfs við stjórnarandstöðuna um vinnu við skuldamál þrátt fyrir beiðni okkar þar um og horfir þar mjög öfugu við það sem tíðkaðist í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem þverpólitískt samstarf var um alla þætti úrvinnslu í skuldamálum heimilanna. Ekkert um ríkisfjármál og er það annað en boðið var upp á í upphafi síðasta kjörtímabils þegar fulltrúum stjórnarandstöðu var boðið að borðinu í Karphúsinu við undirbúning áætlunar um ríkisfjármál og undirbúning kjarasamninga. Og ekkert höfum við heyrt um afnám hafta annað en skens og sprok úr Stjórnarráðinu.

Síðan sjáum við í fjölmiðlum að ætlunin er að rjúfa sáttina sem þegar hefur verið byggð. Ætlunin er að rjúfa sáttina um rammaáætlun. Ætlunin er að rjúfa sáttina sem var óumdeild á vettvangi faghópanna um að verja Þjórsárver. Það eru skilaboðin sem við heyrum. Það á að brjóta upp þá sátt sem unnið hefur verið að áratugum saman til að tryggja samstöðu á Íslandi um vernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Virðulegi forseti. Ég sagði að við lifðum viðsjárverða tíma og þeir eru það ekki síst vegna þess að við búum við heimatilbúinn vanda. Í upphafi síðasta kjörtímabils tókumst við á við erfiðleika sem voru skapaðir af ytri aðstæðum. Núna hefur ríkisstjórnin verið dugleg að skapa sér vandamálin. Hún hefur verið dugleg með yfirlýsingum sínum og framgöngu að auka á vandann. Þar er hægt að nefna margt. Við sjáum lækkun lánshæfismats landsins vegna þess að ekki hefur verið útfært hvernig er hægt með ábyrgum hætti að efna kosningaloforð jafnt í skuldamálum heimila sem á sviði ríkisfjármála.

Við sjáum að Seðlabankinn heldur að sér höndum við lækkun vaxta af nákvæmlega sömu ástæðu. Við sjáum að væntingavísitala hrapar. Við sjáum að aðilar vinnumarkaðarins treysta sér ekki til að gera langtímakjarasamninga vegna þess að þeir vita ekki hvert ríkisstjórnin ætlar að fara. Bólur myndast á mörkuðum og þær munu auðvitað springa eins og allar aðrar bólur og einhverjir sitja eftir með sárt ennið í boði núverandi ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Hin ranga forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem birtist á sumarþinginu hefur haldið áfram að birtast okkur með skýrari og skýrari hætti á síðustu mánuðum. Lækkun veiðigjalda og afturköllun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, ákvörðunin um að halda ekki áfram með auðlegðarskatt eru allt hlutir sem verða að skoðast í samhengi við aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Markmið hennar er að hlaða undir þá sem mest hafa fyrir og svo mjög bregður að þessu að auðmenn eru farnir að skrifa í Morgunblaðið og afþakka frekari atbeina ríkisstjórnarinnar til að lækka skatta þeirra og óska eftir því að hún fari frekar að einbeita sér að því að leysa þau velferðarverkefni sem við blasa hvarvetna.

Þessi mynd birtist á sama tíma og við sjáum vandann á Landspítalanum. Við sjáum vandann hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna þar sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið gerður afturreka með illa ígrundaðar tillögur en virðist samt ætla að reyna að halda þeim til streitu til að unnt sé að niðurgreiða eftirgjöf handa þeim sem mest hafa milli handanna. Og lífeyrisþegar bíða enn eftir efndum á loforðunum sem þeim voru veitt fyrir kosningar.

Eins og þessi ranga forgangsröðun væri ekki nóg þá blasir síðan við algjört ráðleysi í ríkisfjármálum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gefist upp á því verkefni að forgangsraða í ríkisrekstri. Hann hefur endurvakið áratugagamla úrelta aðferðafræði við aðhald í ríkisrekstri sem felst í flötum niðurskurði upp á 1,5%.

Við vissum sem var á síðasta ári að komið var að þolmörkum í heilbrigðisþjónustunni og skárum ekkert niður þar. Við höfum heyrt þingmenn Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga tala um ástandið í löggæslunni, við höfum heyrt hæstv. heilbrigðisráðherra tala um nauðsynina á því að auka framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Við höfum heyrt frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins lofa úrlausn fyrir lífeyrisþega. Hvernig á að vera hægt að mæta 1,5% hagræðingarkröfu við slíkar aðstæður? Er einhver hér inni sem telur að löggæslan sé aflögufær að þessu leyti? Eða að heilbrigðiskerfið sé aflögufært? Ó, nei. Ráðleysið er algjört. Hæstv. fjármálaráðherra hefur hins vegar útvistað forgangsröðun í ríkisrekstri til fjögurra manna vitringakvartetts sem hefur fengið það verkefni að koma með tillögur til ríkisstjórnarinnar. Þar heyrum við aftur mörgum ólíkum hugmyndum fleytt eins og til að athuga hver viðbrögðin verði við þeim svo hægt verði að draga þær til baka ef þær vekja of mikla samfélagslega óánægju.

Við höfum heyrt hugmyndir um niðurskurð í Kvikmyndasjóði og núna síðast heyrðum við frá einum hv. þingmanni að eftirlitsiðnaðurinn væri stóra vandamálið. Eins og sé ekki búið að hlaða nóg undir forréttindastéttirnar í landinu, þá eru það sem sagt skilaboð þessarar ríkisstjórnar að nú beri að veikja Samkeppniseftirlitið til að tryggja að kolkrabbar, gamlir og nýir, geti setið einir að hlut landsmanna og að meðalstór fyrirtæki muni enga leið eiga til þess að keppa við forréttindahópana.

Með sama hætti á að veikja Fjármálaeftirlitið. Erum við ekki öll hér í þessum sal sammála um það hversu illa hafi gengið að láta bankana ganga fram til að mæta hagsmunum skuldugra heimila? Við getum rétt ímyndað okkur hvernig hefði gengið ef Fjármálaeftirlitið hefði þó ekki verið að reka á eftir þeim. Skatteftirlitið virðist ekki vera ofarlega á forgangslistanum hjá ríkisstjórninni ef marka má orðaskipti hv. þm. Karls Garðarssonar og hæstv. fjármálaráðherra hér í sumar.

Virðulegi forseti. Þegar kemur að Evrópumálum blasir sama ráðleysið við. Klunnalegar tilraunir hæstv. utanríkisráðherra til þess að spilla samningsferlinu runnu þó í strand í sumar og mikið til fyrir tilverknað hæstv. forseta þingsins, sem ég vil þakka sérstaklega fyrir að hafa staðið vörð um þingræðið, þegar ráðherrann lét sér detta í hug að hægt væri að ganga gegn skýrri ályktun Alþingis um stefnumörkun í utanríkismálum. Það er virðingarvert að forseti þingsins skyldi ganga fram með þeim hætti og ég þakka honum fyrir það. (Gripið fram í.)

Með nákvæmlega sama hætti finnur maður enduróma um allt samfélag kröfuna um að þjóðin fái að koma að endanlegri ákvörðun í þessu máli. Að það verði þannig, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga stjórnarflokkanna beggja í aðdraganda kosninga, að engin óafturkræf skref verði tekin í þessu efni nema þjóðin fái að koma þar að. Það er óþarfi að loka dyrum ef til þess rekur engar nauðir. Land í óvissri stöðu þarf á því að halda að eiga alla kosti opna.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi er staða Íslands alvarleg. Við horfum á Ísland í höftum. Við horfum á glötuð tækifæri. Almennt er nú spáð 1% vexti. Atvinnusköpun er engin meðal fólks með starfsmenntun. Atvinnuleysið minnkar hjá ófaglærðu fólki. Við blasir ógnin um þá framtíðarsýn að Ísland verði verstöð hráefnisútflutnings. Ísland verði ekki staðurinn þar sem fjölbreytt störf verði til, þar sem verðmikil störf verði til, þar sem þekkingarstörf verði til. Það vantar algjörlega sóknarstefnuna í þessa ríkisstjórn. Við vitum hvaða viðhorf hún hefur gagnvart atvinnusókn og fjölbreyttri atvinnusókn. Nú eru IPA-styrkir í uppnámi sem gáfu fyrirheit um fjölbreytta atvinnuþróun vítt og breitt um landið. Skilaboð ríkisstjórnarinnar til landsbyggðarinnar eru: Ykkar bíður einhæft atvinnulíf og fáir kostir. Á sama tíma sjáum við tækifæri sem hægt væri að nýta. Við sjáum fréttir af því að Mjólkursamsalan njóti arðs af því að framleiða í öðrum löndum, á Norðurlöndunum, skyr til neyslu vegna þess að þar er bullandi eftirspurn eftir íslensku skyri. En vegna þess að við erum bundin höftum, höfum ekki aðgang að hinum evrópska markaði sem við hefðum með aðild að Evrópusambandinu þá flytjum við þessi störf úr landinu. Íslenskt skyr: Made in Sweden.

Af hverju fá ekki íslenskar hendur að vinna þessi störf? Af hverju fá ekki íslenskir bændur að vinna þessa mjólk? Með nákvæmlega sama hætti eru vaxtarmöguleikum sjávarútvegs veruleg takmörk sett vegna þess að markaðsaðgangur okkar í dag fullnægir ekki útflutningsþörfum sjávarútvegsins eins og þær hafa þróast á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Við þurfum sóknarstefnu þar sem alvörutækifæri eru nýtt, þar sem við sækjum fram vegna þess að okkar sterkustu fyrirtæki vaxa ekki hér í höftum og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar hafa gert haftaafnám flóknara og erfiðara viðfangs en þurft hefði að vera. Ísland er land tækifæranna, við þurfum ekki ríkisstjórn sem eyðir öllu afli sínu í að þjóna fámennri forréttindastétt. Við þurfum ríkisstjórn sem treystir sér til að nýta tækifærin, opna þjóðinni nýja útflutningsmarkaði og leggja allt kapp á að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og almenna hagsæld.