störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið flutt um störf ríkisstjórnarinnar þar sem farið var yfir verkefni sem unnið hefur verið að í einstökum ráðuneytum, aðgerðir sem til bæði skamms tíma og langs tíma eru líklegar til þess að hjálpa okkur að brjótast út úr þeirri stöðu sem við búum við í dag.
Ég tek eftir því að það á sér stað tiltölulega lítil umræða í upphafi umræðunnar um stöðu ríkissjóðs. Hér er látið sem svo að við höfum úr öllu því að spila sem til þurfi til að gera betur á flestum sviðum samfélagsins. Því miður er það ekki svo. Viðskilnaður fyrri ríkisstjórnar er ekki sá sem stefnt var að. Það er ekki svo. Þó að fjárlög hafi verið samþykkt með um það bil 3 milljarða halla stefnir í rúmlega 30 milljarða halla á yfirstandandi ári. Hér er hefur verið klifað á því aftur og aftur að ríkisstjórnin sem tók við í vor hafi byrjað á því að skemma tekjustofna ríkisins. Heyr á endemi. Fjárfestingaráætlun, að hún hafi verið vel fjármögnuð. Það er ekki svo, því miður. Tökum það dæmi eitt og sér þar sem átti að byggja á tekjum sem áttu að koma einhvern tímann í framtíðinni sem aldrei skiluðu sér á síðasta kjörtímabili, eignasölu sem var óraunhæf og aldrei gekk eftir, arði sem aldrei kom. En það var auðvitað létt verk að setja saman áætlunina og ráðstafa henni inn á kjörtímabilið sem nú er rétt nýhafið og koma svo hér og segja: Hvers vegna er ekki staðið við það sem við höfum tiltölulega nýlega ákveðið?
Veiðigjaldið, hvert hefur veiðigjaldið verið undanfarin ár? Er veiðigjaldið sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið fyrir næsta ár langt frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði ákveðið? Ég hvet þingmenn til að líta á svar sem ég hef dreift á þinginu við fyrirspurn tveggja þingmanna um nákvæmlega það efni. Fyrri ríkisstjórn tók ekki nema rétt um 10 milljarða á ári síðastliðin tvö ár. Það er nákvæmlega sama talan og nýja ríkisstjórnin er að taka í veiðigjald — en menn höfðu uppi áform um að fara miklu hærra. Vissulega hafði fyrrverandi fjármálaráðherra áform um að fara upp í 25 milljarða á sínum tíma en var rekinn til baka með það hér í þinginu. Á næsta ári átti vissulega að fara upp fyrir 16 milljarða en það gerði ríkisstjórnin hins vegar aldrei. Hún skildi þannig við það mál að lögin voru óframkvæmanleg svo að á næsta ári eru nákvæmlega sömu veiðigjöld tekin af þessari ríkisstjórn og hafa verið tekin síðustu tvö árin. Það er ágætt að hafa það í huga þegar menn tala um að nýja ríkisstjórnin sé að kasta frá sér tekjustofnunum. Staðreynd málsins er sú að útgerðin í landinu hefur líklega aldrei greitt hærri gjöld og skatta til samfélagsins en einmitt í dag. Aldrei áður.
Það er grundvallaratriði að gera sér grein fyrir því ef menn vilja fara út í fyrstu ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Eitt mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar er að eyða pólitískri óvissu um með hvaða hætti við ætlum að standa að stjórn fiskveiða til framtíðar, pólitískri óvissu um hvernig stjórnvöld hyggjast styðja við áform um iðnaðaruppbyggingu í landinu, sama á hvaða sviði það er. Sannarlega eru tækifærin, eins og hér hefur aðeins verið komið inn á, til þess að byggja upp iðnað á nýjum sviðum, sviðum sem tengjast tækni nútímans og þess sem mun gerast í framtíðinni og fyrirsjáanlegt er. Ég nefni sem dæmi að gagnamagnið um strengina sem liggja til Íslands frá einstökum viðskiptamönnum hefur náð því að fara yfir heildarnotkun allra Íslendinga. Einn viðskiptavinur í gagnaveri flytur meira gagnamagn um strenginn til Íslands en allt Ísland að öðru leyti sem sýnir okkur hvaða tækifæri geta legið til dæmis í þeim iðnaði. Ríkisstjórnin mun sannarlega styðja við uppbyggingu á því sviði eins og öllum öðrum sviðum þar sem við getum ýtt undir þekkingariðnaðinn, nýtingu tækninnar og eflingu menntunar á þeim sviðum sem atvinnulífið mun kalla eftir á komandi árum.
Allt verður þetta að haldast í hendur við þá stöðu sem við horfum upp á í opinberum fjármálum. Staða sveitarfélaganna hefur verið tiltölulega veik. Þau keppast nú við að greiða skuldir sínar og hafa lítið fjárfest undanfarin ár. Ríkið hefur óskaplega lítið fjárfest og fyrri ríkisstjórn ákvað að draga fyrst og fremst úr fjárfestingunni til þess að verja samneysluna. Hér hafa menn sagt að ekki verði meira skorið niður. Við getum tekið undir það. Á sumum sviðum erum við komin alveg inn að beini. Í heilbrigðisþjónustu hyggst ný ríkisstjórn reyna að sækja fram, verja grunnstoðirnar. Það blasir við okkur öllum og við þurfum ekkert að skipta okkur upp í flokka til að geta tekið umræðuna um hvernig við viljum gera betur í heilbrigðismálunum. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar að hægt sé að gera kerfisbreytingar til að ná betri nýtingu á skattfé borgaranna. Það skiptir máli hvernig við notum þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum úr að spila. Nú þegar hefur í framsögu forsætisráðherra verið vísað í fjölmörg dæmi um mál, ekki bara á heilbrigðissviðinu heldur í fleiri ráðuneytum, þar sem ný ríkisstjórn hyggst, með því að gera kerfisbreytingar, ná fram meira hagræði og betri þjónustu til lengri tíma þannig að við getum betur mætt væntingum fólksins í landinu og byggt betra samfélag með þeim fjármunum sem við höfum úr að spila sem eru, eins og ég segi, takmarkaðir.
Aftur að stöðu ríkissjóðs. Mér sýnist blasa við um 30 milljarða halli á þessu ári. Sú er staðan, að hluta til vegna ákvarðana sem teknar hafa verið eftir að fjárlög voru samþykkt og við höfum fengið í fangið og þurfum sumar hverjar að taka til endurskoðunar, að hluta til vegna þess að hagvöxturinn hefur verið veikari en við vonuðumst til. Ég held að enginn hafi það sem sérstakt markmið að sjá hagvöxtinn hér lágan en hann hefur verið lágur, eftirspurn í samfélaginu er óskaplega takmörkuð. Það er sama hvort við horfum til einkaaðila eða atvinnulífsins, eftirspurnin hefur verið óskaplega lítil. Fjárfesting á fyrstu sex mánuðum ársins 2013 dróst saman um 13% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2012. 13% samdráttur að raungildi í fjárfestingum.
Það er samdráttur sem bætist við annan samdrátt sem hefur verið undanfarin ár. Fjárfestingarstigið í landinu er algerlega óviðunandi. Þess vegna er það eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar að grípa til aðgerða sem geta laðað fram nýja fjárfestingu í atvinnulífinu, fjárfestingu sem mun skila verðmætari störfum, aukinni framleiðni og færa okkur framar í samkeppnishæfni borið saman við aðrar þjóðir.
Þar er af mörgu að taka. Það mun þurfa aukna fjárfestingu í grunnatvinnugreinunum. Ég verð að segja að það eru mér alltaf mikil vonbrigði þegar þingmenn koma hér upp og tala til gömlu atvinnugreinanna eins og þær séu eitthvað sem við getum verið án, gömlu rótgrónu atvinnugreinanna sem við höfum byggt Ísland upp á og skila okkur mestri verðmætasköpun einmitt í dag.
Ég tel að við eigum að byggja nýjar greinar á þeim stoðum og sannarlega verður svigrúm fyrir nýja tækni og ný svið. Sumt af því er nokkuð sem ég get ekki einu sinni látið mér detta í hug að geti orðið til á Íslandi en unga kynslóðin mun finna út úr því hvernig ný tækni og nýir heimar, t.d. á tölvuöld, geta fært okkur ný tækifæri hingað heim til Íslands.
Það þarf ekki að gerast með því að við hverfum frá verðmætasköpun í hefðbundnum greinum, þvert á móti. Þetta styður allt hvert annað. Það er lykillinn að því að við getum lokað fjárlagagatinu og byrjað uppgreiðslu skulda. Það sem slær mann þegar maður sökkvir sér ofan í tölur um fjármál ríkisins er hversu hár vaxtakostnaðurinn er orðinn og hann mun ekkert minnka fyrr en við erum farin að skila afgangi á fjárlögum. Menn geta talað sig hása hér úr þessum stól um það hvernig við eigum að verja meira fé til hinna ýmsu samfélagssviða, allt frá skólum yfir í heilbrigðiskerfi og allt þar á milli, inn í samkeppnissjóði af hverju tagi, en það breytir því ekki að meðan við tökum fyrir því lán og erum ekki með neitt plan í gangi um það hvernig við lokum fjárlagagatinu og byrjum síðan í framhaldinu að greiða niður skuldir munum við á endanum rekast á vegg og þá munu menn upplifa það sem í daglegu tali er kallað hrun. Það er það sem gerist.
Þetta ætlum við að fyrirbyggja. Við ætlum á sama tíma að vinna að því að loka fjárlagagatinu, lækka skuldabyrði ríkisins og þar með vaxtakostnað þess, örva fjárfestingu og byggja þannig undir getu okkar til að gera betur á þeim sviðum sem ég held að við séum langflest sammála um, þvert á alla flokka, að við þurfum að styrkja. Á heilbrigðissviðinu, í almannatryggingum, í stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki, í því að gera Ísland að frambærilegum ef ekki hreinlega frábærum fjárfestingarkosti fyrir erlenda aðila.
Við vitum að það eru hindranir á veginum en við getum vel ráðist á þær. Höftin hafa verið nefnd til sögunnar og svo sannarlega eru þau hrikalegt efnahagslegt vandamál. Ég vil meina að gjaldeyrishöftin séu líklega stærsta einstaka efnahagsvandamál okkar um þessar mundir en ég tel að það sé leysanlegt vandamál. Það er leysanlegt, ekki síst vegna þess að það eru svo miklir hagsmunir í húfi hjá öllum þeim sem málið varðar, hjá þeim sem eiga eignir í þrotabúum, hjá þeim sem eiga aflandskrónur í landinu, hjá þeim sem eiga kröfur á íslensk fyrirtæki sem fyrirsjáanlega munu lenda í vanda með að útvega gjaldeyri til greiðslu þeirra skuldbindinga og hjá samfélaginu öllu til þess að tryggja að við byggjum upp nýja framtíðarsýn fyrir landið þannig að hægt verði að afnema höftin án þess að um leið myndist innlendur þrýstingur þegar við erum búin að leysa öll hin verkefnin.
Hagsmunirnir eru svo miklir og ég leyfi mér að beina orðum mínum til kröfuhafa í þrotabú hinna föllnu banka. Þar eru hagsmunir upp á á þriðja þúsund milljarða. Menn geta rétt gert sér í hugarlund hversu miklir fjárhagslegir hagsmunir eru undir því komnir að farsællega leystist úr þannig að hægt sé að veita aðgang að eignunum í þeim mæli sem raunhæft er þegar tekið hefur verið tillit til greiðslujafnaðar Íslendinga til framtíðar án þess að krónan lendi í frjálsu falli.
Ég tek undir með þeim sem hafa nefnt kjarasamninga í umræðunni sem eru gríðarlega mikilvægt mál í heildarsamhengi efnahagsmálanna. Kjarasamningarnir sem fram undan eru, bæði á almenna markaðnum og opinbera markaðnum, geta gegnt lykilhlutverki í því að styðja við þann efnahagslega bata sem við viljum öll sjá. Við viljum að sjálfsögðu sjá meiri stöðugleika, við viljum sjá hægan en ákveðinn vöxt, vöxt sem er sjálfbær og er studdur af raunhæfri verðmætasköpun í landinu. Þegar menn taka út of miklar kjarabætur á skömmum tíma munu þeir að öllum líkindum þurfa að skila þeim aftur fyrr en varir. Kannski er það einmitt það sem gerðist hér í aðdraganda þess að íslensku bankarnir féllu.
Við höfum tekið út of mikil verðmæti af reikningi framtíðarinnar. Hér hafa eftirlitsstofnanir komið til umræðu og því er haldið fram að ný ríkisstjórn hyggist ráðast sérstaklega gegn þeim. Ég hef tekið eftir því í umræðu í fjölmiðlum undanfarna daga. Það er af og frá að til standi að kippa stoðunum undan mikilvægum eftirlitsstofnunum í landinu. Það er af og frá.
Hins vegar er það svo að margar eftirlitsstofnanir voru styrktar verulega, beinlínis í þeim tilgangi að taka á þeim atburðum sem áttu sér stað hér haustið 2008. Þær þurfti að styrkja til þess bæði að rannsaka mál og endurskoða verklag og ferla, lög og reglur — tímabundið. Nú er árið 2013, nú hljótum við öll að vera sammála um að við þurfum að fara að vinna okkur í átt að því að finna nýtt jafnvægi í því hver umsvif eftirlitsstofnananna eiga að vera til framtíðar. Það er ekki umræða sem snýst um að kippa stoðunum undan eftirlitsstofnunum í landinu. Það er umræða sem snýst um hvar við finnum hið nýja jafnvægi í þeim efnum. Ég get ekki ímyndað mér ef menn horfa á forsendurnar sem lágu því til grundvallar að margar af þeim voru styrktar verulega á árinu 2009 og áfram, beinlínis til að takast á við þann vanda sem þá var nýrisinn, að þeir ætli að halda því fram að við þurfum að halda úti þeirri miklu starfsemi sem verið hefur undanfarin ár.
Reyndar mun það hafa lítil áhrif á afkomu ríkissjóðs hvort eð er vegna þess að flestar þessar stofnanir eru bornar uppi af sérstökum gjöldum, t.d. sem greidd eru af fjármálafyrirtækjum í landinu.
Virðulegi forseti. Ég tel að í upphafi umræðunnar hafi verið komið inn á velflest verkefni sem ríkisstjórnin hefur nú þegar sett af stað, en eðli málsins samkvæmt get ég ekki farið út í nein smáatriði þess máls sem ég hyggst mæla fyrir í upphafi nýs mánaðar. Ég get ekki rakið fjárlagafrumvarpið í neinum smáatriðum eða þær meginlínur í ríkisfjármálastefnunni sem ég hyggst kynna þar, en í stjórnarsáttmálanum, í fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar og í þeirri umræðu sem fer fram hér í dag og margir ráðherrar eiga eftir að taka þátt í tel ég að menn muni komast vel á snoðir um hvert ríkisstjórnin hyggst stefna.