142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir skýrsluna. Ég vil líka segja að mér finnst eðlilegt og ég sýni því fullan skilning að ríkisstjórn taki sér einhvern tíma eftir kosningar til þess að reyna að marka aðgerðir sínar og reyni að móta stefnuna skýrar. Við í Bjartri framtíð vorum sammála því og studdum það að ríkisstjórnin fengi meiri tíma til þess að klára fjárlagafrumvarpið og leggja það fram með tekjuöflunarfrumvörpum og fengi tíma til 1. október til að gera það. Ég verð hins vegar að vera alveg hreinskilinn með það að eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. forsætisráðherra hafa grunsemdir mínar um dálítið víðtækt úrræðaleysi vaxið til muna.

Mér fannst skýrslan bera þannig yfirbragð að hæstv. forsætisráðherra væri í raun og veru að segja að starfshóparnir sem við ákváðum meðal annars hér inni að stofna í byrjun sumars hefðu hafið störf og búið væri að manna þá. Og síðan voru þeir starfshópar raktir. Engin frekari tíðindi fannst mér vera í skýrslu hæstv. forsætisráðherra. Það er bara búið að manna starfshópana. Gott og vel. Ég held að þetta sé hugsanlega og mjög líklega í síðasta skipti sem hægt er að halda svona ræðu. Nú verðum við í þessum sal og fólkið úti í þjóðfélaginu að fara að fá skýrari línur. Við verðum að fara að sjá á spilin. Hver verða úrræðin? Hvað á að gera? Það eru hvarvetna mjög stór viðfangsefni í íslensku samfélagi eftir allt sem á undan er gengið. Ég ætla að rekja þau aðeins.

Heilbrigðismálin. Við í Bjartri framtíð fögnum því að fara eigi inn í heilbrigðismálin og reyna að stokka þau upp, endurskipuleggja. Við þurfum að byggja upp heilsugæslu sem ódýrari úrræði. Við þurfum að beina fólki úr dýrum úrræðum í ódýrari. Við þurfum að byggja upp hjúkrunarrými til að losna við fólk úr legurýmum á sjúkrahúsi, sem er dýrt. Það styðjum við. Hins vegar var ekki neitt um það í skýrslu hæstv. forsætisráðherra að núna ríkir neyðarástand á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það er neyðarástand á lyflækningasviði. Deildarlæknar ráða sig ekki til starfa. Þetta er ein hryllilegasta birtingarmynd atgervisflótta í samfélaginu. Þetta er fólk sem starfar í alþjóðlegu starfsumhverfi og það ræður sig einfaldlega ekki inn á sjúkrahúsin á Íslandi. Það fer annað. Það eiga að vera starfandi 25 deildarlæknar en þeir verða að öllum líkindum sjö og ef deildarlæknar fást ekki til starfa á lyflækningasviði þá vex álagið á sérfræðinga og ef sérfræðingar ákveða að fara líka þá hrynur þjónustan. Hér þarf að fara inn með skýra stefnu. Hér þarf að hlusta á allar lausnirnar sem starfsmenn Landspítalans hafa sett fram. Hér þarf að taka afstöðu til þeirra. Hér þarf að taka afstöðu til þess hvort byggja á nýjan Landspítala eða ekki. Ef ekki á að byggja hann hvað á þá að gera? Stefnumörkun vantar, skýr svör vantar og þetta er spurning um daga.

Hvarvetna í þjóðfélaginu er beðið eftir áætlun um losun gjaldeyrishafta. Hvað á að gera? Ekki vantar hugmyndirnar. Nú vantar ákvörðunina. Gott og vel, kannski fáum við að heyra hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í þessum málum í stefnuræðu sem verður eftir nokkrar vikur. Ég er ekki úrkula vonar um það en þarna er orðið gríðarlega mikilvægt að fá skýrar línur.

Eins og staðan er núna er ástandið nokkuð þversagnarkennt vegna þess að annars vegar segir ríkisstjórnin að gjaldeyrishöftin séu eitt helsta vopnið í því að reyna að ná hagstæðum samningum við kröfuhafa en hins vegar er það alveg skýrt að gríðarlega mikilvægt er — og það kemur fram í máli ríkisstjórnarinnar — að losna við gjaldeyrishöftin. Þau markmið í umræðunni, annars vegar mikilvægi gjaldeyrishaftanna til að ná góðum samningum og hins vegar mikilvægi þess að losna við þau, verða einhvern veginn að fara saman í skýrri stefnumörkun.

Skýr svör hafa ekki borist að mínu mati um það hvað á að gera við aðildarviðræðurnar við ESB. Við ræðum það hérna á fimmtudaginn. Ég held að ráðamenn í ESB viti ekki alveg hvað við erum að hugsa. Það hlé sem hefur verið gert hefur einhvern veginn enga lögformlega stöðu. Mér finnst í því máli þurfa rökræðu um það, meginatriði málsins, af hverju ekki að klára samningana? Og ef menn vilja ekki klára samningana og leggja þá fyrir dóm þjóðarinnar, hvaða aðrar leiðir hafa menn þá til að útkljá þetta áratugalanga deilumál á Íslandi? Geta menn komið með einhverja aðra leið? Ég auglýsi eftir þeim svörum.

Fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem Björt framtíð hafði ríkt frumkvæði að hefur aðeins borið á góma í umræðunni. Hér eru mjög óskýrar línur, finnst mér. Mér finnst forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala eins og þeir skilji ekki almennilega um hvað fjárfestingaráætlun snýst. Fjárfestingaráætlun er byggð á mjög skýru prinsippi, þ.e. að réttlætanlegt væri að nota arð sem skapast í eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum — ríkið á eitthvað um 40% af fjármálakerfinu á Íslandi og fjármálakerfið hefur verið að sýna mjög mikinn hagnað — að réttlætanlegt væri að nota hluta af þeim arði til fjárfestinga og hinn hlutann til að greiða niður skuldir. Er eitthvað flókið í þessu? Ríkisstjórnin talar á sama tíma um nauðsyn þess að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf. Þarna var mynduð leið til þess að nota hluta af arðinum sem skapast í fjármálafyrirtækjum til þess að fjárfesta í fjölbreyttu atvinnulífi sem skapar okkur meiri tekjur.

Það vekur undrun mína að hæstv. fjármálaráðherra skuli núna segja að þessi arður sé enginn, eða ég skildi hann svo. Þetta er mjög óskýrt. Hvarvetna þurfum við svör. Heimilin bíða. Það verður fróðlegt að sjá hver umræðan verður í samfélaginu ef ákveðið verður á sama tíma og ástand ríkisfjármála er svona ískyggilegt og á sama tíma og harður kjarasamningavetur blasir við að verja verulegum fjárhæðum til að greiða niður skuldir heimilanna. Hver verður umræðan þá? Þá þurfa að vera skýr svör við því af hverju þeir peningar eru ekki notaðir til að mæta fjársveltinu í samfélaginu, til að mæta ömurlegri stöðu ríkissjóðs og til að bæta kjör með öðrum hætti. Við þurfum að fá þau svör.

Ég hef nefnt nokkur dæmi, það er til þess að leggja áherslu á að mér finnst tíminn vera að renna út fyrir ríkisstjórnina. Hún verður að fara að svara skýrt hvað hún ætlar að gera. Við getum ekki heyrt fleiri ræður um að starfshópar hafi verið stofnaðir. Það slær mig dálítið eins og stefna ríkisstjórnarinnar á fyrstu mánuðunum geti borið yfirskriftina: Afsakið – hlé. Mér finnst blasa við risastórt skilti: Afsakið – hlé. Ég vona heitt og innilega að útsendingin fari bráðum að hefjast aftur.