störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.
Forseti. Í aðdraganda kosninga er yfirleitt lofað miklu meiru en innstæða er fyrir og því eru þingmenn dæmdir til að vera ómerkir orða sinna þegar til starfa er komið. Það hefur nú þegar sýnt sig með þessa ríkisstjórn að henni mun reynast mjög erfitt að standa við loforð þau sem flokkarnir gáfu kjósendum sínum í aðdraganda kosninga og því fellur fylgi hennar án afláts.
Eina leiðin út úr þessum ógöngum er að viðurkenna vanmátt sinn. Völd eru nefnilega oft þess eðlis að auðmýkt er styrkur, ekki veikleiki. Hrunið er ekki búið. Við erum í miðri á. Fram undan er annaðhvort átakavetur eða tímabil stöðugleika.
Af hverju hefur ríkisstjórnin nú þegar valið veg sundrungar og ófriðar þegar hægt er að fara aðrar leiðir? Ég var í minni hluta á síðasta kjörtímabili með forsvarsmönnum núverandi ríkisstjórnar og tók alla jafna undir með þeim þegar kvartað var undan samvinnuleysi þáverandi ríkisstjórnar. Við upplifðum oft að vera kölluð til samráðs sem endaði með því að okkur leið sem verið væri að véla okkur til samsektar, án samvinnu, við óvinsæl málefni. Við töldum í einlægni, að því er ég hélt, að raunveruleg þverpólitísk samvinna væri eina leiðin til að koma okkur út úr þeim ógöngum sem íslenskt samfélag stóð frammi fyrir.
Vegna þessa, herra forseti, er ég frekar hissa á því hve þétt núverandi ríkisstjórn heldur vandamálunum og úrlausnum á þeim að sér án þess að láta reyna á raunverulegan samvinnuvilja þingheims við úrlausn verkefna. Þau munu ef til vill reynast þrautin þyngri ef ekki er viðurkennt að samvinna er forsenda úrlausna því að ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu af miklu örlæti ýmsu sem jafnvel krónískir bjartsýnismenn gátu ekki séð að gæti orðið að veruleika þegar búið var setja saman í pott loforð beggja flokkanna. Ef til vill getum við leyst saman í samábyrgð þessi vandamál, hæstv. forsætisráðherra.
Auðvitað vildi ég lofa því ofar öllu að hægt yrði að rétta stöðu heimilanna sem mörg hver riða á barmi örvæntingar og hafa gert um langa hríð. Óvissan er viðvarandi þegar fólk er kannski með óraunsæjar væntingar um skuldaleiðréttingar. Ef þær væntingar eru óraunsæjar miðað við raunverulega stöðu mála hlýtur það að vera skylda hæstv. forsætisráðherra að upplýsa um nokkur mikilvæg atriði.
1. Hvenær stendur til nákvæmlega að fólk geti átt von á skuldaleiðréttingu í samræmi við loforð Framsóknarflokksins?
2. Hverjir geta átt von á slíkum leiðréttingum er tengjast forsendubrestinum?
3. Af hverju er enn verið að bera fólk út á götu?
4. Hvenær verða skrifuð lög sem vernda réttarstöðu þeirra einstaklinga sem taka óverðtryggð lán?
5. Er alveg öruggt að enginn annar hópur muni þurfa að verða fyrir skerðingu vegna skuldaleiðréttingarinnar?
Mig langar líka til að fá svör frá hæstv. ríkisstjórn um það af hverju svo mörg hitamál hafa nú þegar komið frá henni þar sem gengið er fram með stríðsöxi í stað friðarvilja þegar engin ástæða er til að skapa úlfúð, t.d. eins og þegar kemur að Norðlingaölduveitu. Af hverju og til hvers eru málin strax sett í þann farveg? Er það kannski vegna langrar átakahefðar? Er það kannski vegna þess að stjórnmál eiga samkvæmt einhverjum stöðlum að snúast um að koma vilja sínum fram frekar en að vinna markvisst að samvinnu um málefni þar sem vel er hægt að ná sameiginlegu markmiðum án mikilla fórna við stefnu og strauma? Er það kannski vegna þess að á þessum vinnustað, Alþingi, hefur alla tíð verið hefð að skipa verkum á þann veg að stjórn og minni hluta er stillt upp hvoru gegn öðru. Myndlíkingar stríðs og andstöðu eru einatt dregnar upp.
Ég verð svo sem að viðurkenna að mig langar að grafa upp stríðsöxina eftir það sem á undan er gengið í sumar og fara beint í skotgrafirnar. Mér mundi líða miklu betur á meðan á því stæði að höggva í ímyndaða andstæðinga og láta allt flakka sem hefur komið upp í huga minn í sumar þegar ég hef fylgst í forundran með verkum ríkisstjórnarinnar. En vil ég standa á vígvelli í næstu fjögur ár þar sem spilað er inn á lægstu hvatir mannlegs eðlis? Nei, herra forseti. Ég vil ekki láta það eftir mér.
Ég held að ég haldi frekar áfram að höfða til betri vitundar þingheims og vona að ef ég endurtek nægilega oft viljann til að breyta grunninum í lýðræðinu okkar að það síist í gegn. En upphafið lofar ekki góðu og því kalla ég eftir því að ríkisstjórnin hverfi af villu síns vegar og muni sín eigin áköll um breytt vinnubrögð þegar formenn ríkisstjórnarflokkanna voru hinum megin við borðið og sýni að það var ekki sjónarspil heldur raunverulegur vilji.
Píratar munu vinna á sambærilegan máta og Hreyfingin. Við skilgreinum okkur ekki sem andstöðu heldur minni hluta sem vinnur út frá málefnunum hverju sinni. Ef málefni eru algerlega andstæð okkar stefnu munum við gera allt sem í okkar valdi stendur til að spyrna við fótum og leita uppbyggilegra lausna.
Látum þetta kjörtímabil ekki einkennast af sundrungu. Finnum þau stef sem ríma saman. Það hljóta allir að vera sammála um að við þurfum að laga grunnstoðirnar. Sú mikla vinna sem lögð var t.d. í heildarendurskoðun á stjórnarskránni okkar á síðasta kjörtímabili má ekki glatast. Ég óska eftir svörum um það hvernig ríkisstjórnin sér fyrir sér að þeirri vinnu verði fram haldið. Þá á ég ekki við að setja fram einhverja áætlun um hvernig það verður gert án nokkurra tímasetninga. Það er gríðarlega mikilvægt að eigi síðar en í dag komi fram tímasetningar á því hvernig við ætlum að haga þeirri vinnu.
Ég vil að lokum benda á eitthvað sem má hrósa hjá núverandi ríkisstjórn. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra, sem er reyndar ekki í salnum, fyrir þá ákvörðun að gera stýrihópi um framgang þingsályktunar um að Ísland taki sér afgerandi lagalega sérstöðu að því er varðar upplýsinga- og tjáningarfrelsi kleift að halda áfram störfum sínum næstu tvö árin. Eins og kemur fram á vef ráðuneytisins var mennta- og menningarmálaráðherra falið að vinna að framgangi þingsályktunarinnar. Þann 3. maí á síðasta ári skipaði fyrrverandi ráðherra stýrihóp sem var ætlað að hafa forsögn um að leiða vinnu ráðuneytisins við greiningu og úttekt á lagaumhverfi hér á landi og erlendis með tilliti til efnis þingsályktunarinnar og eftir atvikum undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf, meðal annars með því að líta til löggjafar annarra ríkja með það fyrir augum að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis. Í greinargerð með þingsályktuninni segir m.a.:
„Upplýsingasamfélagið má sín lítils ef stöðugt er vegið að leiðum til að koma á framfæri upplýsingum sem viðurkennt er að almenningur eigi rétt á. Þótt sum lönd hafi lögfest fyrirmyndir á þessu sviði hefur ekkert ríki enn sameinað allt það besta til að skapa sér sérstöðu svo sem […] hér er kynnt. Ísland hefur því einstakt tækifæri til að taka forustu með því að búa til traustvekjandi lagaramma sem væri byggður á bestu löggjöf annarra ríkja.“
Það er með sanni ánægjulegt að hæstv. menntamálaráðherra hefur ákveðið að stýrihópurinn muni halda áfram störfum sínum næstu tvö ár og það er nauðsynlegt ef við ætlum að fara í þá mikilvægu vinnu að bjóða gagnaverum aðstöðu til að hýsa gögn á Íslandi.
Ég vona að allir þingmenn hafi fylgst með því sem komið hefur fram í þeim upplýsingum sem Edward Snowden hefur komið á framfæri við almenning, ekki bara í Bandaríkjunum heldur um heim allan. Þar hafa komið fram váleg tíðindi sem sýna að grunninum er kippt undan lýðræðisríkjum. Þó svo að við séum með bestu lög til að vernda heimildarmenn, þó svo að læknar eigi að geta varið þær upplýsingar sem sjúklingar veita þeim þá er það ekki þannig í raun. Því er mjög mikilvægt að við leitum allra leiða til að tryggja friðhelgi einkalífsins fyrir Íslendinga og annað fólk ef svo ber undir með því að finna bestu mögulegu leiðir til að vinna sameiginlega á alþjóðavettvangi, í þeim alþjóðasamtökum sem við eigum aðild að, til að finna lausnir á þessu gríðarlega mikla vandamáli.
Ég vil hvetja ríkisstjórnina til góðra verka og samvinnu og minna hæstv. forsætisráðherra á þær samræður sem ég átti við hann á síðasta kjörtímabili og umvandanir okkar í garð þáverandi ríkisstjórnar og minna hæstv. forsætisráðherra á að gera betur.