142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrstu verk hæstv. ríkisstjórnar voru að gefa erlendum ferðamönnum afslátt af neyslusköttum og útgerðarmönnum afslátt af veiðigjaldi. Í sömu andrá kvörtuðu þau undan slæmri stöðu ríkisfjármála og boðuðu niðurskurð.

Það sýnir ekki mikinn skilning á stöðu ríkisfjármála að afsala ríkissjóði tekjum og boða um leið niðurskurð í ríkisrekstri vegna slæmrar stöðu. Það er ekki trúverðugt eða líklegt til að auka skilning á uppsögnum ríkisstarfsmanna, skertri þjónustu við þá sem reiða sig á velferðarkerfið og frestun atvinnuskapandi verkefna.

Þegar stjórnarliðar verja afsláttinn af veiðigjaldinu fullyrða þeir að það hafi þurft að gera til að koma til móts við lítil og meðalstór fyrirtæki. Sú fullyrðing er röng. Minni hluti þingsins gerði tillögu á sumarþingi sem leitt hefði til þess að 324 litlar útgerðir greiddu ekkert sérstakt veiðigjald og 102 aðeins hálft gjald á meðan stóru útgerðirnar greiddu áfram fullt gjald. Þessari leið höfnuðu stjórnarþingmenn og stærstur hluti afsláttarins kom í hlut stóru útgerðarfyrirtækjanna, fyrirtækja sem standa afar vel og skila miklum arði til handhafa sérleyfanna.

Óréttlætið í þessari aðgerð stjórnvalda er mikið því að útgerðarfyrirtækin skila miklum arði til eigenda sinna, fyrst og fremst vegna falls krónunnar og ódýrs sérleyfis sem veitir aðgang að auðlindum þjóðarinnar. Almenningur tapaði hins vegar umtalsvert á falli krónunnar og það gerði ríkissjóður einnig og samdráttur á þjónustu við almenning varð óhjákvæmilegur. Það er því holur hljómur í þeim orðum stjórnarliða að nú þurfi þjóðin að standa saman og dreifa þurfi þungum byrðum á axlir fólksins í landinu. Auðmenn eru undanþegnir þeirri skyldu.

Fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi er fagnað, einkum vegna þeirra gjaldeyristekna sem þeir skila, en um leið er kvartað undan ágangi, að erfiðleikar fylgi því að taka á móti miklum fjölda og skorti á uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Á sama tíma er virðisaukaskattur á hótelgistingu ekki í almennu þrepi heldur með afslætti eins og virðisaukaskattur á matvæli. Stjórnvöld ræða gjaldtöku við ferðamannastaði en líta fram hjá einföldum leiðum í gegnum neysluskatta.

Athyglisvert er að í skýrslu Ferðamálastofu um fjármögnun uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða er sýnt fram á að frá árinu 2004 hafa tekjur til ríkisins af hverjum ferðamanni lækkað um 40%. Það er sláandi mikil lækkun og nauðsynlegt að leita skýringa og skoða allt umhverfi ferðaþjónustunnar með framtíðarstefnumótun í huga. Best er að gera breytingar í uppsveiflu og þá stefnu hafði fyrri ríkisstjórn markað en núverandi hafnað. Markmiðið til framtíðar hlýtur að vera að atvinnugreinin styrkist, skapi verðmæt störf og skili um leið góðum tekjum til samfélagsins.

Rammaáætlun og náttúruverndarlög eru tengd þróun ferðamála órjúfanlegum böndum. Það gladdi mig þegar hæstv. umhverfisráðherra gaf það út á heimasíðu ráðuneytisins að vinna samkvæmt rammaáætlun væri í fullum gangi eins og gert var ráð fyrir við samþykkt hennar. Því varð ég undrandi þegar lögbundið friðlýsingarferli um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum var stöðvað að beiðni hæstv. iðnaðarráðherra. Stjórnarliðar hafa réttlætt stöðvunina með því að fyrri ríkisstjórn hafi fært Norðlingaölduveitu til í rammaáætlun, en sannleikurinn er sá að formenn faghópa og formaður verkefnisstjórnar gerðu tillögu um flokkun Norðlingaölduveitu í verndarflokk. Það er grátbroslegt að stjórnarliðar, sem sumir hverjir stunduðu málþóf klukkustundum saman um rammaáætlun, þekkja ekki hvernig vinnan þar að baki var. Tilgangur og markmið rammaáætlunar eru að engu höfð ef stjórnvöld ætla að taka hana upp með reglulegu millibili og hafa allt undir, eins og sagt er, og stjórnarliðum er tíðrætt um í hverju málinu á fætur öðru.

Virðulegi forseti. Mikið er rætt um bætta umræðuhefð og að forsendan fyrir því að Alþingi endurheimti virðingu sé að tekist sé á af háttprýði og með málefnalegum hætti. Ætla mætti að hæstv. forsætisráðherra gengi þar fremstur og gæfi gott fordæmi, en svo er ekki. Það sýna meðal annars nýleg og öfgafull viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við málefnalegri gagnrýni formanns Samfylkingarinnar síðustu helgi á stefnu hæstv. ríkisstjórnar og áhyggjur formannsins af þeirri óvissu sem hún skapar. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra minntu á málflutning stjórnarandstæðings frá síðasta kjörtímabili og voru engan veginn við hæfi. Staðreyndin er sú að algjör óvissa ríkir nú um stór mál og áhrif þeirra á ríkissjóð, fyrirtæki og heimili í landinu. Hæstv. forsætisráðherra verður að svara gagnrýni á stefnu stjórnvalda skýrt og málefnalega því að skætingur dugir ekki.