142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:10]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon verðum ekki sammála um skattapólitík. Við erum ekki sammála um aðferðafræði eða hugmyndafræði en ég get verið sammála hv. þingmanni — ég held við séum sammála um það — um að við viljum bæði Íslandi allt hið besta. Síðan er það bara það hvernig við förum að því. Nú höfum við fengið tækifæri til að nota okkar aðferðafræði, aðferðir sem við höfum trú á, ólíka þeirri aðferðafræði sem við gagnrýndum á síðasta kjörtímabili.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu. Það er mjög gott og vel til fundið að fara yfir stöðuna. Þetta er ekki umræða um stefnuræðu forsætisráðherra. Þetta er ekki fjárlagaumræðan. Þetta er stutt umræða á stuttu haustþingi í aðdraganda fjárlagafrumvarps og hún verður alltaf lituð af því.

Það sem við höfum verið að gera í sumar — það sem ég hef verið að gera í sumar er að kynna mér þá stöðu sem við komum hér að. Ég hef verið að tala við fólk í öllum atvinnugreinum. Ég hef tekið á móti fjölda fólks og ég hef farið víða. Ég hef verið upptekin af því að skoða hver staðan er, ég hef verið upptekin af því að hlusta á skilaboðin sem okkur eru færð.

Ég sagði það, held ég, hér í sumar í umræðu að atvinnustefnu þessarar ríkisstjórnar, eða stefnu mína í mínu ráðuneyti, megi meitla í eina setningu: Ég vil laga það sem er bilað og efla það sem er í lagi. Sem betur fer er fullt af hlutum í lagi og þá þarf að efla. Stundum þarf bara rétt aðeins að ýta af stað hlutum sem komnir voru á rekspöl. Og það var ekkert allt ómögulegt sem seinasta ríkisstjórn gerði en ég tek skýrt fram að margt hefði ég gert öðruvísi.

Fólk kemur inn í ráðuneytið og kynnir hugmyndir, kynnir verkefni, kynnir áform á ýmsum sviðum — það eru skilaboð frá stjórnvöldum sem það fólk er að leita eftir. Mér hefur liðið stundum eins og — ja, ekki sálusorgara heldur hópstjóra í sjálfshjálpargrúppu sem er að taka á móti fólki sem vill bara fá svör. Fólk vill bara fá svör. Ég er hér með tækifæri, ég er tilbúinn að hætta peningunum mínum, er þetta verkefni íslenskum stjórnvöldum þóknanlegt? Mitt svar hefur verið þetta: Ég ætla ekki að ákveða hvaða verkefni eru íslenskum stjórnvöldum þóknanleg og hver ekki. Ef fólk er tilbúið til að koma hingað, taka þátt í fjárfestingu, taka þátt í að byggja upp þetta góða samfélag skal ekki standa á okkur. Við munum vinna með atvinnulífinu til að koma hinum margumræddu hjólum atvinnulífsins af stað.

Það er nefnilega málið, það ætti að vera hið sameiginlega verkefni sem við stöndum frammi fyrir, að koma fjárfestingu í gang. Það hefur verið rætt hér í dag og það er stórt áhyggjuefni að fjárfesting dróst saman um 13% á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs. Landsframleiðslan jókst um 2,2% en það er ekki nóg, við þurfum meira til. Góðu fréttirnar eru þær að það er fjöldi tækifæra, fjöldi möguleika, sem við þurfum í sameiningu að vinna að.

Mig langar rétt að hlaupa á nokkrum atriðum eins og í málefnum nýsköpunar, sprotafyrirtækja. Ég hef lagt mig sérstaklega fram um að kynna mér vel þá stöðu sem þar er nú í sumar, heimsótti vel á þriðja tug sprotafyrirtækja og sé að það er ýmislegt sem hið opinbera er að gera sem kemur þeim fyrirtækjum vel. Opinber stuðningur í formi framlaga eða styrkja úr samkeppnissjóðum eins og Tækniþróunarsjóði, skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar. Þetta er allt saman að gera frábæra hluti á réttum tíma fyrir þessi fyrirtæki. Síðan erum við að glíma við það stóra vandamál sem eru gjaldeyrishöftin og þar erum við því miður að missa dýrmæt og verðmæt lítil fyrirtæki, sem eru vaxandi, úr landi, á þeim tíma sem við gætum verið að fá til baka arðinn af fjárfestingunni ef við mættum orða það þannig. Þessu þurfum við að bregðast við. Við þurfum að finna leið innan haftanna, á meðan við búum við þau. Það var uppörvandi að heyra í hæstv. fjármálaráðherra áðan þegar hann sagði að það væri vel leysanlegt verkefni, ég hvet ég hann til dáða í þeim efnum. En á meðan við búum við höftin þurfum við að passa upp á að þau standi ekki nýsköpunarþróun fyrir þrifum. Það er sameiginlegt verkefni.

Ferðaþjónustan hefur verið nefnd. Bæði í dag og í gær, og líka á morgun, flutti ég ávörp á stórum ráðstefnum á vegum ferðaþjónustunnar. Þar eru hlutirnir að gerast og við erum að fá fjöldann allan af ferðamönnum hingað til lands. Það eru áskoranir sem því fylgja. Við þurfum að huga að því hvernig við byggjum upp fleiri áfangastaði og hlúum að þeim sem við höfum til að vernda náttúruna og tryggja öryggi ferðamanna. Sú vinna er í fullum gangi og ég mun vonandi leggja fram frumvarp eftir jólin, á vorþinginu.

Ég er með um það bil 20 önnur mál sem ég ætlaði að fara yfir í þessari ræðu en tíminn er á þrotum en við fáum væntanlega tíma til þess fljótlega.