störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.
Herra forseti. Kæru alþingismenn og hæstv. ráðherrar. Takk fyrir síðast. Vonandi áttuð þið gott sumar með fjölskyldum ykkar og ykkar nánustu. (Gripið fram í.) Sumarið hjá mér var alveg frábært, það var nóg að gera prívat og nóg að gera við að koma formi á áframhaldandi vinnu á Alþingi, afla sér upplýsinga og tala við fólk sem við alþingismenn höfum með lagasetningu áhrif á á hverjum degi.
Við höfum heyrt að ríkisstjórnin hefur verið upptekin í sumar við að útfæra upplegg næstu fjögurra ára. Hagræðingarhópurinn sömuleiðis. Forsætisráðherra talaði áðan um hvernig ákvarðanir sem nú eru teknar hafa áhrif á ókomna framtíð. Það vottaði fyrir langtímapælingum og er það vel. Veruleikinn hefur verið sá að við erum ávallt að vinna eftir fjögurra ára plani sem svo oft umturnast að þeim árum liðnum með nýjum aðilum í stjórn. Það er ekki boðlegt fyrir fyrirtæki og almenning. Fólk getur ekki gert langtímaplön, framþróunin verður allt of svifasein og hagræðingin þar af leiðandi minni. Þetta skrifast á okkur stjórnmálamenn og þá stjórnmálamenningu sem hér hefur verið við lýði. Það kom bersýnilega fram í skýrslunni um traust til Alþingis sem forseti kynnti fyrir nokkru. Við megum ekki taka þeim skilaboðum með léttúð heldur þurfum að beita okkur hörðu við að breyta þessari ásýnd og það gerist ekki sjálfkrafa.
En aftur að ríkisstjórninni. Í kosningabaráttunni heyrðist nýtt stef frá nýjum röddum sem fljótlega varð flestum stjórnmálamönnum tamt í munni. Samræðustjórnmál. Samvinna þvert á flokka. Alveg dásamlegt. Hljómar eins og sinfónía í mínum eyrum en ég verð að segja að það hefur ekki borið mikið á þessu í vinnu ríkisstjórnarinnar í sumar. Við getum að minnsta kosti gert miklu betur.
Hér á þingi sitja til dæmis ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar, VG og Samfylkingar, með dýrmæta reynslu og vitneskju um opinberar stofnanir og ráðuneytin sem þau stýrðu áður. Hefðu þau ekki verið tilvalin í samvinnu og samráð hjá hagræðingarhópnum svokallaða? Hvernig er annars uppleggið á þeirri vinnu? Er verið að kalla fólk að? Við höfum heyrt að almenningur geti komið með ábendingar og er það vel, en hvað meira? Er verið að gera fræðilegar greiningar á stöðunni? Það væri ágætt að fá að vita meira um þetta mál. Það væri ágætt að fá fréttir.
Ég hef í sumar eins og aðrir landsmenn sperrt eyrun er gamalkunnugt útvarpsstef heyrist sem tilkynnir mér að fréttir séu að berast. Mig hefur þyrst eftir þeim frá ríkisstjórninni en fréttatímarnir hafa því miður ekki svalað þorsta mínum. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur þó verið dugleg að mæla sér mót við mig í gegnum fréttamiðla landsins. Þar gefur hún til kynna að Norðlingaölduveita sé á dagskrá þrátt fyrir að vera í verndarflokki rammaáætlunar. Ég tók líka eftir því að umhverfisráðherra hafði á síðustu stundu, þegar búið var að bera fram rjómaterturnar í Árnesi, hætt við að kvitta upp á stækkun friðlands Þjórsárvera. Þetta helst víst allt í hendur. Svo heyrði ég að Helguvík sé alveg að komast í gang því að Century-menn séu tilbúnir í slaginn og aðeins að bíða. Ég vona að hæstv. ráðherra orkumála sé ekki að bíða eftir því að HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur keyri í gegn samninga sem kveði á um of lágt orkuverð til Century í Helguvík. Samninga sem þessi íslensku fyrirtæki telja sér ekki í hag. Það væri vissulega skrýtin staða fyrir orkugeirann hér á landi, skrýtið innlegg í umræðu og markmiðasetningu um arð af auðlindum til þjóðarinnar.
Heilbrigðisráðherra hefur líka verið í fréttum. Ég eins og svo margir aðrir, þar með talið starfsmenn Landspítalans sem margir eru byrjaðir að pakka ofan í kassa, bíð í ofvæni eftir því að heyra hvað muni gerast í málefnum spítalans. Heilbrigðisráðherra hefur verið myrkur í máli, vill kannski ekki gefa neinum falsvonir, en ég verð að biðja hann um að fara að svara, koma með planið þar sem ég vona að hjarta hans og skyldur snúi frekar að þeim málaflokki sem honum hefur verið falinn, en að velja þægilegan heimilisfrið innan ríkisstjórnarinnar.
Já, herra forseti. Það er þetta með menninguna á Alþingi, samráðið og samvinnuna. Að sjálfsögðu verða flokkar á Alþingi með mismunandi áherslur og skoðanir. Það er eðlilegt og þarft en við komumst miklu skemur til langtíma ef við hrökklumst undan því að ræða málin og velta upp mismunandi hliðum. Það leiðir til betri skilnings á báða bóga og meiri sáttar og okkur veitir ekki af henni.