142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:32]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Við höfum orðið vitni að áhugaverðum orðaskiptum hér í dag og það sem hefur vakið sérstaka athygli er óþolinmæði stjórnarandstöðunnar. Hér erum við í mörgum tilvikum að tala um fólk sem sat við stjórnvölinn í heil fjögur ár undir kjörorðinu „sláum skjaldborg um heimilin“. Það verður að segjast eins og er að málflutningurinn verður holur og í raun dapurlegur þegar haft er í huga að á degi hverjum í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar voru að meðaltali þrjár fjölskyldur bornar út af heimilum sínum, þrjár á dag, hv. þingmenn.

Núverandi ríkisstjórn hefur tekið að sér að efna loforð sem gefin voru fyrir rúmum fjórum árum en voru svikin á eftirminnilegan hátt. Þá bregður svo við að stjórnarandstaðan á ekki orð, ekki orð yfir að ekki skuli vera búið að efna öll helstu kosningaloforðin á fyrstu þremur til fjórum mánuðum stjórnarsamstarfsins. Þetta er ömurlegt lýðskrum sem almenningur sér sem betur fer í gegnum, lýðskrum sem miðar að því að ná stundarathygli fjölmiðla.

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er á áætlun. Heimilin eru í forgangi og þau verða í forgangi. Verðtrygging á neytendalánum verður afnumin. Það svigrúm sem myndast við uppgjör föllnu bankanna verður nýtt í þágu heimilanna í landinu. Þúsundir fjölskyldna ná ekki endum saman um hver mánaðamót. Þessu verður að linna. Við verðum að koma í veg fyrir að fólk flytji í stórum stíl til annarra landa í leit að betra lífi. Það verður bara gert með tryggri atvinnu og lífskjörum sem eru sambærileg við það sem þekkist annars staðar.

Í gegnum árin höfum við verið stolt af því góða heilbrigðiskerfi sem við höfum búið við. Nú er það að molna innan frá með þeim afleiðingum að hrun kerfisins er óhjákvæmilegt ef ekki verður gripið strax inn í. Hér þurfum við sem þjóð að meta hvers konar heilbrigðisþjónustu við getum sætt okkur við til framtíðar og hvað við erum tilbúin til að verja miklum peningum í hana. Sú umræða hefur ekki verið tekin.

Eitt er víst, uppstokkun verður að eiga sér stað. Við erum ekki nema rétt rúmlega 300 þúsund og það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að gera. Hins vegar skulum við hafa eitt á hreinu: Heilbrigðiskerfið og heimilin, þetta er það sem þarf að vera í forgangi þegar kemur að úthlutun fjármuna úr ríkissjóði. Við getum ekki horft á sjúklinga deyja einungis vegna þess að ekki er boðið upp á fullnægjandi þjónustu á sjúkrahúsum landsins.

Á sama tíma og mikill niðurskurður var á framlögum fráfarandi ríkisstjórnar til heilbrigðismála var varið ótöldum milljörðum í steinsteypu og gler. Kári Stefánsson dregur þetta ágætlega saman í grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar dregur hann saman og segir að á meðan heilbrigðiskerfið hafi brunnið hafi fjármunir verið veittir í verkefni eins og Hörpu og í hana hafi farið ótaldir milljarðar. Fyrrverandi ríkisstjórn reisti 700 fermetra hús í Vatnajökulsþjóðgarði, hún reisti 3.000 fermetra hús yfir Náttúrufræðistofnun uppi í Heiðmörk. Hún reisti menningarmiðstöðina Hof á Akureyri og hún stóð fyrir því að byrjað var að bora göng í gegnum Vaðlaheiði sem eiga að stytta leiðina milli Akureyrar og Húsavíkur um 14 mínútur. Hún byrjaði að reisa hús yfir stofnun norrænna fræða við Háskóla Íslands og veitti 3,5 milljarða til að hlúa að uppbyggingu á kísilverksmiðju á Bakka. Hvað eru þetta margir milljarðar sem hægt hefði verið að veita í heilbrigðisþjónustuna? (Gripið fram í.)

Mönnum hefur orðið tíðrætt um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Nú er það svo að mál eru misjafnlega flókin, þau þurfa misjafnan undirbúningstíma. Sum eru þess eðlis að það tekur óhjákvæmilega langan tíma að skipuleggja þau, það er eðlilegt. Við höfum fengið nóg af hroðvirknislegum vinnubrögðum sem kalla á uppstokkun og breytingar nokkrum mánuðum eða árum síðar. Mörg mál sumarþingsins voru til komin vegna þess að fyrrverandi ríkisstjórn vandaði ekki nóg til verka. Það þurfti því að taka mál upp að nýju svo að ríkið fengið sínar eðlilegu tekjur.

Óþolinmæði fólks eftir efndum er skiljanleg. Þetta er sama fólkið og er búið að bíða í rúm fjögur ár eftir efndum loforða sem ætíð voru svikin. Þau verða ekki svikin í þetta sinn, það er komið nóg af slíku. Það lá hins vegar strax fyrir að ekki yrði hægt að efna öll loforð á fyrsta degi nýrrar ríkisstjórnar. Það þarf að vanda undirbúning að þeim stóru aðgerðum sem fram undan eru og það verður gert, hvort sem stjórnarandstöðunni líkar betur eða verr.