störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.
Herra forseti. Nýrri ríkisstjórn fylgdu miklar væntingar, ekki aðeins þær væntingar sem fylgja nýjum ráðherrum í stað þeirra gömlu heldur væntingar byggðar á loforðum um aðgerðir. Fylgi við ríkisstjórnina hefur dvínað mjög á fyrstu fjórum mánuðunum og flokkur hæstv. forsætisráðherra er í frjálsu falli í skoðanakönnunum. Flokkarnir sem lofuðu skuldaniðurfellingu, skattalækkunum, samráði og aðgerðum virðast aðallega ráðalausir og flaumósa. Skuldavandanum var haganlega komið fyrir í nefndum sem eiga að skila tillögum í lok árs en enginn veit hvenær von er á aðgerðum. Ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu átaki í heilbrigðismálum en hafa ekki bein í nefinu til að leysa bráðavanda á Landspítalanum, hvað þá að byggja upp til framtíðar.
Á sumarþingi voru fyrstu verk nýrrar ríkisstjórnar að lækka veiðigjald á útgerðina og neysluskatta á erlenda ferðamenn. Tekjur ríkissjóðs voru með þessu lækkaðar að ástæðulausu. Fréttir um stórgróða útgerðarfyrirtækja og mikla fjölgun erlendra ferðamanna grafa undan málstað ríkisstjórnarinnar. Flest bendir til að hækka beri veiðigjaldið fremur en að lækka það. Það er því holur hljómur í kröfum um niðurskurð og frestun framkvæmda þegar skattar eru lækkaðir á þá sem sannarlega geta greitt þá. Það stoðar lítt fyrir hæstv. fjármálaráðherra að setja upp alvarlegan svip og krefjast ráðdeildar í ríkisfjármálum þegar hann síðan gengur í fararbroddi þeirra sem krefjast skattalækkana fyrir þá efnamestu í samfélaginu. Æsingurinn var svo mikill að hygla þeim efnameiri að þegar líða tók á júnímánuð áttaði hæstv. fjármálaráðherra sig á því að illa mundi ganga að koma fjárlagafrumvarpinu saman. Með réttu hefðum við átt að fá fjárlagafrumvarpið í hendur í dag.
Það er ástæða til að kvíða því frumvarpi. Búið er að boða 1,5% flatan niðurskurð sem og sértækar aðgerðir. Miðað við það sem hægt er að ráða af orðum hæstv. fjármálaráðherra á að skera niður um 3,5 milljarða í velferðarmálum. Fregnir berast brotakennt af skotmörkum ríkisstjórnarinnar. Á skurðarborðinu liggja nýr landspítali, hús íslenskra fræða, Norðfjarðargöng, Kvikmyndasjóður, grænn fjárfestingarsjóður og fleiri þjóðþrifamál. Við bíðum öll með öndina í hálsinum. Við höfum áttað okkur á því að ný ríkisstjórn er ekki með neina áætlun og getur því ekki átt samráð um neitt, aðgerðirnar brjótast fram að því er virðist eftir geðþótta nýju ráðherranna. Innviðauppbygging er ekki á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar.
Hæstv. félagsmálaráðherra hefur slegið umbótum í almannatryggingum á frest. Svæfa á umbætur í nefnd eins og önnur kosningaloforð Framsóknarflokksins. Í stað umbóta voru almannatryggingar hækkaðar til þeirra tekjuhæstu og best gert við þá sem áður heyrðu ekki undir kerfið því að þeir voru of tekjuháir. Meiri hluti lífeyrisþega fékk ekkert í sinn hlut.
Stjórnarflokkarnir höfðu uppi stór orð um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í kosningabaráttunni — og hvar eru efndirnar? Boðuð er lokun skurðstofu í Vestmannaeyjum og óánægja á Landspítalanum hefur aldrei verið meiri. Starfsfólk Landspítalans sem hefur lagt hart að sér síðustu ár batt miklar vonir við nýjan landspítala. Hin unga ríkisstjórn treystir sér ekki í það verkefni þrátt fyrir að þörfin sé knýjandi, en gömul umræða um frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu er hafin á ný.
Ég get fært hæstv. heilbrigðisráðherra fréttir. Íslenskur almenningur vill ekki frekari einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Landspítalinn er hjartað í íslenskri heilbrigðisþjónustu og sterkur landspítali styður við heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Frekari einkavæðing í heilbrigðiskerfinu gerir það ekki en eykur á kostnað í kerfinu.
Það er skynsamlegt af nýju ríkisstjórninni að hafa ákveðið að halda áfram með mörg af þeim fjölmörgu verkefnum sem voru í gangi frá tíð fyrri ríkisstjórnar. Ekkert í ræðu hæstv. forsætisráðherra gefur til kynna að ríkisstjórnin sé í stakk búin til að leggja fram eigin raunhæfa áætlun til framtíðar. Hlutverk okkar í minni hlutanum verður því að lágmarka tjónið á líftíma hægri stjórnar hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.