störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.
Virðulegur forseti. Stærsta verkefni stjórnmálanna á öllum tímum er hagsæld í samfélaginu, hamingja fólks og þjóða. En hvernig á að meta árangur af þeirri vegferð? Þarna greinir pólitískar hreyfingar og flokka oft verulega á, hægrið og vinstrið eiga nefnilega í raunverulegum átökum og þau átök snúast um grundvallaratriði.
Vinstrið telur að reisa þurfi skorður við peningaöflum á opnum markaði, markaðinn þurfi að temja og laga að þörfum samfélagsins, hlúa þurfi að félagslegum rótum, gæta að þeim sem lítið hafa á milli handanna og byggja upp á samfélagslegum grunni, beina markaðsöflum, einstaklingsframtaki og samtakamætti í rétta farvegi. Hægrið aftur á móti vill gjarnan trúa því að markaðsöflin muni allt leysa og færa allt til betri vegar með töframætti fjármagnsins. Umræðan verður stundum trúarbragðakennd eins og þegar talað er um að eftirlitsiðnaðurinn stoppi allt, hjól atvinnulífsins þurfi að smyrja og að hvetja þurfi þegar stóriðja er annars vegar en kannski síður þegar um er að ræða skapandi greinar eða athafnalíf eða rekstur á félagslegum grunni.
Hagvöxtur er hugtak sem okkur er flestum tamt að nota þegar rætt er um hagsæld og hamingju samfélaga. En er þetta gott hugtak til að lýsa þroska samfélags og vellíðan íbúanna? Lýsir það í reynd hagsæld og hamingju? Sífellt fleiri efast um að svo sé, ekki bara í stjórnmálum heldur ekki síður í allri samfélagsumræðu og rannsóknum. Félagslegt öryggi, kynjajafnrétti, góð menntun, heilnæmt umhverfi eru ekki mæld með hagvexti. Hagvöxtur segir til um hreyfingu fjármagns í samfélaginu en ekki hvað það er sem kemur hreyfingunni af stað eða hvert hún leiðir. Fjölgun slysa eykur hagvöxt og sömuleiðis fasteignabólur, þær auka hagvöxt, ágeng nýting náttúruauðlinda gerir það líka og í raun öll ofneysla og öll sóun eykur hagvöxt.
Ný markaðssvæði í heiminum þar sem hagvöxturinn er mestur er um leið mesta áhyggjuefni þegar litið er til framtíðar mannkynsins. En hvernig metum við þá hvort við erum á réttri leið? Hvernig metum við líðan almennings, fólksins í landinu, hvernig metum við raunveruleg lífsgæði? Hvernig líður fólkinu í frítímanum og í félagslífinu, í vinnunni og á heimilinu? Hvernig er heilsan? Hvernig er andinn í samfélaginu og hvernig er menningin? Hver eru gæðin í umhverfi og náttúru, hvernig líður börnum? Hvernig líður gömlu fólki?
Tölur eru góðar og gagnlegar en þær segja ekki alla söguna. Hagvöxturinn virðist stundum vera eina pólitíska markmiðið en það dugar ekki. Í góðu samfélagi þarf að líta til fleiri þátta. Frelsi fylgir ábyrgð og það þarf að ná til allra. Við lítum til þess að nýting auðlindanna verði að vera sjálfbær og náttúran njóti vafans. Við verðum að stuðla að félagslegum jöfnuði, opnu og lýðræðislegu samfélagi án fordóma og setja raunveruleg lífsgæði íbúanna í forgrunn. Þetta eru markmiðin í stóra samhenginu, jöfnuður og græn framtíð.
Hagvaxtarhyggjan nálgast trúarbrögð en er í raun og veru afstaða sem ógnar framtíð mannkyns ef hún ræður ein för. Við þurfum að halda stjórnvöldum alls staðar við efnið og taka fleiri þætti með í reikninginn fyrir framtíðina.
Oft hefur það einkennt hægri flokka að ýta undir skammsýni og vilja ekki halda stóra samhenginu til haga. Allt of oft hafa ákvarðanir verið teknar án fyrirhyggju og allrar varúðar. Um það vitna best skuldaklafar og umhverfisslys sem allir þekkja frá seinni árum. Skammsýni er hættuleg ef við eigum ekki að taka valmöguleikana af komandi kynslóðum. Við getum ekki ákveðið hvað er komandi kynslóðum fyrir bestu en við höfum heldur ekki leyfi til að svipta þær möguleikanum til að velja og hafna og skapa sína eigin framtíð og samtíð.
Í góðu samfélagi þarf græn framtíð að vera bæði leiðarljós og mælikvarði. Þess vegna vekur áhyggjur nú þegar ný ríkisstjórn hefur setið í rúma 100 daga að nánast allar hennar ákvarðanir hafa aukið á mismunun í samfélaginu, fært auð og völd til þeirra sem nóg hafa fyrir, veiðigjöld, vaskurinn á ferðaþjónustuna, auðlegðarskatturinn, og svo talar heilbrigðisráðherra um gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Menntamálaráðherra herðir pólitísk tök á Ríkisútvarpinu, sker niður hjá lánasjóðnum, dregur úr jafnrétti til náms og þannig mætti lengi telja. Tekjur hafa verið stórlega skertar. Og hvað er til ráða?
Aðþrengdur ríkissjóður og ríkisstofnanir sem tóku á sig gríðarleg högg í hruninu, en voru tekin að rétta úr kútnum, eiga enn að þrengja að sér. Þar er enginn undanskilinn, allt er undir, eins og sagt er. Óróleiki og óvissa hafa hreiðrað um sig í hugum landsmanna og enginn veit hvar ríkisstjórnin ber niður í viðleitni sinni við að auka enn á óvissuna í samfélaginu. Spurningarnar hrannast upp, nefndunum fjölgar, frestirnir lengjast, lausnirnar eiga að vera miklar en bara fyrir suma, ekki fyrir alla sem tóku við stóra högginu frá hægri. Orð eins og forsendubrestur á bara við stundum og bara við suma. Ekki þegar rætt er um leigjendur, ekki þegar rætt er um námsmenn, einstæða foreldra eða öryrkja. Af hverju ekki?
Virðulegur forseti. Um þetta var kosið. Um þetta snýst umboð núverandi ríkisstjórnarflokka, umboð til að fá að spreyta sig á því að uppfylla heimsmet í kosningaloforðum og kannski helst fyrir þá sem mest eiga og mest tóku að láni. Loforð sem fjöldamargir sjálfstæðismenn meira að segja sjá að er engin leið að efna, segja líka sumir að ef falli til fé eigi það að fara í ríkissjóð og nýtast okkur öllum, hverju einasta mannsbarni í landinu. Ríkissjóður í vanda setur samfélag í vanda. Það er okkar fyrsta verkefni.
Virðulegur forseti. Þegar ákvarðanir eru teknar um skipulag, um orkumál eða mennta- og velferðarmál þarf að hugsa til framtíðar og standast freistingar til skamms tíma. Það þarf að huga að sjálfbærni í landnýtingu, sjálfbærni í samfélagi, fjölbreytni, sköpun og litadýrð. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur ítrekað sýnt að hún þorir og að hún óttast ekki gagnrýni, er flokkur sem byggir á sjálfbærni, leggur áherslu á félagslegan jöfnuð og efnahagslegan stöðugleika á öllum sviðum. Jafnrétti kynslóðanna er markmiðið. Lífsgæði og gott samfélag til framtíðar skiptir ekki minna máli en aðstæður okkar sem nú byggjum þetta samfélag.
Allar kosningar snúast um framtíðina, ekki bara næstu framtíð heldur langa framtíð, því að sérhvert skref, sérhver ákvörðun hefur áhrif langt fram í tímann. Nú er okkar að halda þessari umræðu á lofti því að stjórnmál snúast um raunverulega hagsmuni, forgangsröðun og gildi en ekki óábyrg loforð. Almenningur í landinu þarf að eiga von. Það eru öll tækifæri fyrir hendi í landi sem býr við öfluga náttúru og sköpunarkraft. Þessi tækifæri eru okkar.