142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:56]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég treysti hæstv. ráðherrum okkar til að vinna af heilindum að því að unnt verði að efna eins og kostur er þau fyrirheit sem Íslendingum voru gefin í kosningabaráttunni í vor. Ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur unnið í sumar að undirbúningi fjölda lagafrumvarpa og mála sem munu koma fyrir 143. löggjafarþing, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, þar sem lagður er grunnur að nýju verklagi og breytingum sem eru til hagsbóta fyrir landsmenn.

Forgangsverkefni er að rjúfa þá stöðnun sem ríkt hefur undanfarin ár og horfa með bjartsýni, dug og þrótti til framtíðar, takast á við þann vanda sem fyrir hendi er og byggja upp að nýju. Nauðsynlegt er að auka tekjur ríkissjóðs með auknum og nýjum tækifærum til atvinnuuppbyggingar svo að vinna megi hraðar á vandanum. Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að skapa tækifæri fyrir atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar. Það er farsælla að ríkið veiti fjármagn til framkvæmda sem veita atvinnu frekar en að draga úr framkvæmdum og atvinnu og lengja með því lista atvinnulausra, sem aftur hefur í för með sér að veita þarf æ meira fjármagn í atvinnuleysisbætur.

Næg atvinna og uppbygging haldast í hendur. Mannlíf blómstrar og fólk fyllist krafti og bjartsýni og er tilbúið til að leggja á sig til að ná markmiðum og árangri meðan atvinnuleysið dregur úr þrótti og trú á framtíðina. Allt í kringum landið í smærri sem stærri byggðarlögum eru vinnufúsar hendur sem taka fagnandi tækifærum til að styrkja sína byggð og eignir sínar á staðnum sem ævitekjurnar eru oftar en ekki bundnar í.

Lögum um veiðigjald sem breytt var á 142. löggjafarþingi nú í vor miðuðu að því að styrkja lítil og meðalstór útgerðarfyrirtæki sem víða eru burðarásinn í atvinnulífi sjávarbyggða með allri strandlengjunni og hafa margfeldisáhrif í samfélaginu þegar vel gengur. Við viljum búa í samfélagi bjartsýni og velgengni, samhygðar og trausts. Við viljum skapa hagvöxt, við viljum ná árangri til uppbyggingar til hagsbóta fyrir alla landsmenn. Að því vinnur ríkisstjórn okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. En Róm var ekki byggð á einum degi. Það þarf tíma og þolinmæði til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Ýmislegt þarf að taka til gagnrýnnar endurskoðunar og fyrirsjáanlegt er að ýmsar breytingar í stjórnkerfinu eru nauðsynlegar. Sumt af því getur orðið erfitt og sársaukafullt tímabundið en þegar þær breytingar eru yfirstaðnar mun staðan verða skilvirkari og auðveldari, skila okkur meiri hagsæld og betra samfélagi.

Það er líka mikilvægt að við hugum að þeim miklu tækifærum sem felast í áhuga erlendra fjárfesta á að reisa fyrirtæki hér. Með þeim kemur aukið fjármagn inn í landið, aukin atvinna og gnótt annarra tækifæra. Við getum ekki hnoðað okkur inn í eilíft vantraust á öllu útlendu og talið að við munum verða á allan hátt undir í þeim samskiptum. Við eigum að kappkosta að eiga viðskipti sem eru beggja hagur með áherslu á að vernda landið okkar samhliða skynsamlegri nýtingu þess.

Hæstv. forseti. Það hefur verið gott að fylgjast með hæstv. ráðherrum okkar að störfum í sumar. Þeir hafa sett sig afar vel inn í málaflokka sinna ráðuneyta. Stór hluti vinnu þeirra er ekki sýnilegur eðli máls samkvæmt, en nauðsynleg undirbygging fyrir verkin sem munu tala. Það var afar ánægjulegt fyrir mig sem þingmann Norðausturkjördæmis að vera viðstödd fyrstu formlegu sprengingu Vaðlaheiðarganga í júlí síðastliðnum en þar var hæstv. forsætisráðherra okkar vel sýnilegur þar sem hann sprengdi fyrstur, einbeittur og ákveðinn í að ná árangri til heilla fyrir Íslendinga eins og öll okkar liðsheild.