142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að sjá að sumarið hefur, þrátt fyrir að það hafi verið hart, farið mildum höndum um forseta. Sama verður ekki sagt um suma ráðherra ríkisstjórnarinnar sem manni hefur virst í fréttum hugsa með sér að starfið sé ekki jafn skemmtilegt og það hafi litið út fyrir að vera í upphafi.

Mig langar að segja nokkur orð um fossa og nokkur orð um þá tilhneigingu stjórnmálamanna, og aðallega ráðherra, að fara í vettvangsferðir, skoða svæði, styðja hönd á hné og mæla út hæðir, ása og hóla og segja: Ja, ég er búinn að skoða þetta svæði, mér finnst að það megi skoða virkjunarhugmyndir þarna. Þetta gerði hæstv. iðnaðarráðherra í sumar þegar hún skoðaði fyrirhugað svæði miðlunarlóns Norðlingaölduveitu.

Sams konar ferðum urðum við vitni að í aðdraganda að virkjunum fyrir austan og mér finnst þetta sýna ákveðinn misskilning um það hvernig taka eigi ákvarðanir í þessum efnum. Það er mikilvægt að menn átti sig á því að í sjálfu sér er hægt að byggja álver í jaðrinum á þjóðgarðinum við Þingvöll án þess að það hafi beinlínis áhrif á Þingvelli. Og hægt væri að hugsa sér hjólhýsabyggð í kringum híbýli hæstv. iðnaðarráðherra án þess að það hefði beinlínis áhrif á íbúaskilyrði hæstv. ráðherra. Það mundi samt sem áður rýra verðmæti þeirra svæða sem um ræðir. Það verður að vera alveg klárt í þessari umræðu að ekki er hægt að fara í virkjunarframkvæmdir á jaðrinum í friðlandinu við Þjórsárver án þess að rýra verðmæti þess svæðis, það er algjörlega útilokað. Verðmæti þess svæðis byggir á því að það er í miðri auðn, að Þjórsárver eru í miðjunni á engu. Þess vegna eru þau sérstök á heimsmælikvarða og þess vegna ber okkur að vernda þau.

Ég vil líka segja þetta um fossa sem eru á svæðinu: Það er þessi stöðugi niður, þessi beljandi, þessi óstöðvandi flaumur og þetta óstöðvandi mótunarafl landsins, sem gerir þá sérstaka. Það er þess vegna sem ferðamenn fara og skoða þá alveg eins og þeir vilja frekar upplifa náttúruna úti í náttúrunni en í dýragörðum. Það að ætla að taka fossa á borð við Gljúfurleitarfoss og Dynk og kveikja á þeim yfir sumartímann er svipað og að bjóða fólki upp á skoða uppstoppaðan örn í staðinn fyrir að verða vitni að því hversu stórkostlegur hann er í sínum náttúrulegu heimkynnum.

Þegar menn eru búnir að fara í gegnum þá vinnu sem felst í rammaáætlun og setja Þjórsárver og Norðlingaöldu í verndarflokk er það mér fullkomlega óskiljanlegt að það mál skuli hafa verið dregið aftur upp til umræðu í samfélagi okkar nú í sumar. Ég vil einfaldlega vara ríkisstjórnina við að halda áfram á þeirri braut. Ég held að margir hafi undrast þau fjölmennu mótmæli vegna umhverfismála sem urðu við Stjórnarráðið aðeins fjórum eða fimm dögum eftir að ný ríkisstjórn tók við í vor. Ég held að þau mótmæli lýsi mjög vel þeirri undiröldu sem er í samfélaginu gagnvart þeim málaflokki. Ef ríkisstjórnin heldur áfram á þeirri braut varðandi Norðlingaöldu held ég að þau mótmæli verði eins og sunnudagaskóli við hliðina á þeirri reiðiöldu sem mundi vaxa og rísa í samfélaginu og dynja á ríkisstjórninni, þ.e. ef svo fer sem fram horfir. Slík áform eru ekki tímabundin frávik frá rammaáætlun verkefnastjórnarinnar fyrrverandi, eins og flutningur virkjunarhugmynda í neðri hluta Þjórsár í biðflokk á meðan aflað væri frekari gagna, heldur væri verið að henda rammaáætluninni í heild sinni í ruslið. Sá mikli árangur sem þar hefur náðst á einum og hálfum áratug yrði fyrir bí.

Núverandi ríkisstjórn getur lært mikið af þeirri fyrrverandi, t.d. að rækta góð almannatengsl, tala við þjóðina, útskýra reglulega hvert förinni er heitið. Ég held að flestir geti verið sammála um að síðasta ríkisstjórn stóð sig ekki nægilega vel í þeim efnum þó að hún hafi gert margt ágætt — tala ekki í hálfkveðnum vísum, ræða við þjóðina. Komið hefur í ljós að stór hluti þjóðarinnar treystir því miður ekki Alþingi. Svar meiri hluta Alþingis getur ekki verið: Sömuleiðis, við treystum ykkur ekki.

Því er spurt að endingu: Á ekki að treysta þjóðinni fyrir stórum álitaefnum eins og aðild að Evrópusambandinu? Hvenær verður boðað til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem báðir stjórnarflokkarnir hafa sagt að verði framkvæmd? Hvenær verður það gert? Ég held að það væri farsælt fyrir núverandi ríkisstjórn að láta vita hvenær slíkt fari fram og gera það hið allra fyrsta, og auðvitað væri langskynsamlegast að ljúka samningunum einfaldlega strax. Núverandi ríkisstjórn þarf að hugsa vel um kettina, villikettina, sem mögulega láta sjá sig, og líka hina og passa að strjúka þeim ekki öfugt. Það er gríðarlega mikilvægt.

Ég held að menn mættu líka hafa í huga að hafa ekki of mörg járn í eldinum, kveikja ekki of marga elda, því að það er óljóst hvort núverandi ríkisstjórn endist tími til að slökkva þá alla.