142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hér í upphafi þings, þegar við komum saman til að klára það þing sem nú stendur yfir og komum svo saman aftur 1. október til hefðbundinna þingstarfa með fjárlagaframsetningu á fyrsta degi, tekjuöflunarfrumvarpi og öðrum frumvörpum sem er nýtt, ber að þakka það að hæstv. forsætisráðherra skuli á fyrsta degi á septemberstubbnum koma í raun fram eins og skólastjóri sem fær kennara og nemendur til sín og leggur fram áform um hvernig þetta eigi að vera í vetur.

Þannig leið mér við yfirferð hæstv. forsætisráðherra yfir öll þau mál sem hann tæpti þar á og sagði að væru í vinnu. Hann talaði um nefndir og ég taldi. Þegar ég var kominn upp í níu nefndir missti ég þráðinn en ég held að ein hafi bæst við í lokin þannig að hér var boðað að eftir 100 daga starf hæstv. ríkisstjórnar væru komnar tíu nefndir til að vinna í hinum ýmsu málum.

Eðlilega gerði forsætisráðherra sérfræðingahóp um höfuðstólslækkun húsnæðislána og leiðréttingarsjóð að fyrsta atriði sínu, enda fékk þessi ríkisstjórn það fylgi sem nægði fyrir meiri hluta á Alþingi út á þau loforð sem þar voru sett fram sem bíða nú í einn eða tvo mánuði í viðbót eftir framkvæmdum vegna þess að allir eru að bíða. Allt kerfið er kalt vegna þess að fólk er að bíða eftir að núverandi hæstv. ríkisstjórn uppfylli þau loforð sem hún setti fram um höfuðstólslækkun lána. Það er synd að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki vera í salnum vegna þess að ég mundi leggja fyrir hann spurningu um það hvort hæstv. fjármálaráðherra er sammála þeirri leið sem hæstv. forsætisráðherra setti fram um stofnun leiðréttingarsjóðs upp á 200–250 milljarða kr. sem aðgerð til að fara strax í þær aðgerðir sem Framsóknarflokkurinn lofaði á haustinu vegna þess að einhver bið er í að uppgjör þrotabús bankanna gangi eftir og það verði hægt að tosa einhverja peninga þar út.

Þetta verður mál málanna þegar þing kemur saman í október, þegar þær nefndir hafa skilað af sér sem hæstv. forsætisráðherra hefur sett og við höfum tíma fram að jólum til að klára það verkefni. Vonandi gengur það eftir.

En það er annað sem hæstv. forsætisráðherra talaði um, fjárfesting. Fjárfestingarþörf er mikil. Það er áhyggjuefni hve mjög hefur dregið úr fjárfestingu á fyrstu sex mánuðum þessa árs. Á helmingi líftíma ríkisstjórnarinnar hefur fjárfesting dregist mikið saman.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði ekki alls fyrir löngu að það þyrfti að kæla hagkerfið. Svo kvarta menn hér yfir því að fjárfestingar séu að dragast saman. Hvað átti hæstv. fjármálaráðherra við? Er hæstv. forsætisráðherra sammála því að nauðsynlegt sé að kæla hagkerfið núna? Af hverju kemur þá hæstv. forsætisráðherra og kvartar yfir að fjárfesting sé að dragast saman og það þurfi að gefa í? Því er ég alveg sammála. Þá er alveg sama hvort það er með ágætum tillögum sem Samfylkingin leggur fram um bráðaaðgerð í byggingu leiguíbúða, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni, stórátak í þeim málum, ekki veitir af, eða byggingu landspítala svo ég taki dæmi.

Mér finnst allra verst í fari þessarar ríkisstjórnar hvernig hún hefur slegið af allar hugmyndir um byggingu nýs landspítala. Við eigum það inni og þjóðin þarfnast þess að byggja nýjan landspítala utan um þá starfsemi. Fjárfesting í byggingu er allt annað en rekstur. Þess vegna hika ég ekki við að segja að núna liggur fyrir hjá okkur og við eigum að einhenda okkur í það, og ég hygg að það geti orðið full samstaða um það, að breyta fjárreiðulögum þannig að bókhald ríkissjóðs breytist hvað landspítala varðar. Við getum sótt í og fengið lán hjá lífeyrissjóðunum sem eru í vandræðum með að koma peningum sínum í vinnu í dag og eru í kringum 150 milljarðar kr. á ári. Hvar er betra að nota þá peninga en til dæmis í að byggja nýjan landspítala sem við öll eigum að geta sameinast um, byggja gott hús utan um þá miklu og góðu starfsemi við viljum hafa þar?

Virðulegi forseti. Ég ætla að enda á því að segja að ég fagna mörgu af því sem forsætisráðherra lagði fram, en ég bið hann aðeins um eitt. Forsætisráðherra þarf að átta sig á því að hann er ekki lengur leiðtogi stjórnarandstöðu. Honum ber að skipta um föt og fara að ganga í takt við það sem honum sæmir sem forsætisráðherra, tala við stjórnarandstöðuna sem og aðra um það að koma málum fram á þann farsæla hátt (Forseti hringir.) sem við þurfum með samvinnu.