142. löggjafarþing — 25. fundur,  10. sept. 2013.

störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunum í dag, sem ég vil þakka sérstaklega fyrir og þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir hans góðu yfirferð og öðrum þingmönnum fyrir umræðurnar hér, þá er alveg ljóst og má vera stjórn og stjórnarandstöðu ljóst, alveg sama hvaða hugmyndir menn hafa um þau verkefni, að ríkisstjórnin hefur frá því að hún tók við sett langflest ef ekki öll stærstu málin sem voru til umræðu á vettvangi stjórnmálanna fyrir nokkrum mánuðum í farveg. Það er þess vegna eilítið kostulegt að hlusta t.d. á formann Samfylkingarinnar sem fór hér mikinn áðan í ræðustóli tala um ráðaleysi stjórnvalda. Ég veit ekki alveg hvort það er vegna þess að þeim ráðum sem hann gaf var ekki fylgt, en hann talar eins og lítið hafi gerst. Það hefðu þótt ansi stór tíðindi fyrir Samfylkinguna fyrir nokkrum mánuðum ef menn hefðu tekið ákvörðun um að snúa af þeim vegi sem varðar Evrópumálin, ef búið væri að víkja af þeirri leið að ganga til liðs við Evrópusambandið. Það hefur Samfylkingin talað um sem eitt stærsta mál lýðveldisins. Af þeirri braut hefur verið vikið og það eitt og sér ætti að teljast talsverð tíðindi í huga formanns Samfylkingarinnar.

Annað sem menn tala hér um eins og fyrrverandi fjármálaráðherra og ég held að hann sé að meina það þegar hann segir að ríkisstjórnin afsali sér tekjum með skattalækkunum, hún afsali sér tekjum. Sá grundvallarmunur er á hugmyndum þeirra sem eru við stjórnvölinn og eru hluti af ríkisstjórn í dag og hinna sem sitja hinum megin við borðið núna, en sátu við ríkisstjórnarborðið fyrir nokkrum mánuðum, að tala um skattalækkanir eins og afsal ríkisvaldsins af tekjum en ekki eins og við séum að taka fjármuni af almenningi, sem er ráðstöfunarfé almennings. Það er alveg stórfurðulegt.

Eitt af þeim risastóru verkum sem ríkisstjórnin hefur sinnt á undanförnum vikum og mánuðum, auðvitað ekki þannig að allir séu sammála því, er að tryggja það að undirstöðuatvinnugreinarnar í landinu, sjávarútvegur og ferðaþjónusta, geti starfað áfram. Það skiptir ekki bara fyrirtækin í sjávarútvegi máli heldur fólkið í landinu sem þarfnast atvinnu og uppbyggingar. Aftur er stórfurðulegt að hlusta á forustumenn stjórnarandstöðunnar tala um það eins og það sé merki um að ekkert hafi gerst. Risastór mál sem er búið að rífast um á vettvangi landsmála í langan, langan tíma.

Svo eru það skuldamálin. Aftur talar stjórnarandstaðan eins og ekkert hafi gerst. Samt var samþykkt hér fyrir ekki svo mörgum vikum aðgerðaáætlun um að taka á skuldavanda heimilanna, aðgerðaáætlun sem er með því yfirbragði að slík áætlun hefur aldrei áður verið samþykkt á þingi Íslendinga. Engu að síður leyfa menn sér að segja að lítið sem ekkert hafi gerst, þrátt fyrir að hugsanlega þrjú af stærstu málum síðasta þings, sem eru skuldamál heimilanna, skattar á grunnatvinnuvegi og innganga Íslands í Evrópusambandið, séu komin á allt annan stað en fyrir nokkrum vikum. Samt segja menn að lítið hafi gerst. Ég held, með mikilli virðingu fyrir stjórnmálunum og fyrir því að tala hvert við annað af virðingu og af ákveðinni skynsemi, að þetta sé á mörkum þess að vera boðlegt. Það hefur svo margt hefur breyst í íslensku samfélagi.

Síðan er hægt að tala um öll hin málin sem hafa verið sett í farveg, mörg hver sem hafa verið tekin upp frá síðustu ríkisstjórn og fullt af góðum málum haldið áfram af krafti í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hér var nefnt að menn töluðu ekki saman í stjórnmálum og að það væri kannski skynsamlegt fyrir núverandi ráðherra að ræða við fyrrverandi ráðherra. Ég hef átt mikil og kröftug og öflug og góð samskipti við fyrrverandi ráðherra í mínu ráðuneyti, Ögmund Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, sem hefur farið með mér yfir málin. Ég hef hitt hann reglulega og við höfum farið yfir þau og ég á von á því að margir aðrir hafi gert það sama.

Ég held að þingið verði að treysta því og ég get fullvissað landsmenn um það að ríkisstjórnin er svo sannarlega að setja stóru verkefnin öll í farveg. Þau eru öll komin í farveg og eru á áætlun og önnur mál sem skipta líka máli eru komin mjög vel á veg. Það breytir þó engu um það að við verðum seint sammála um nákvæmlega hvernig á að vinna þau, en það að leyfa sér eftir fjögur ár í ríkisstjórn að tala um að ekkert hafi gerst er meira en ósanngjarnt og lyktar af dálítið leiðinlegri pólitík svo að ég sé alveg ærleg hér.

Mig langar, hæstv. forseti, að víkja aðeins að þeim málefnum sem heyra undir mitt ráðuneyti og þau mikilvægu verkefni sem ég tekst á við á hverjum degi og lúta að innviðum í samfélaginu og auknu öryggi fólks í landinu. Þar eru mjög stór og mikilvæg verkefni sem hefur að mörgu leyti verið sinnt mjög vel á undanförnum árum á Íslandi — mjög vel — og við búum að því í ráðuneytinu. Það sem við erum sérstaklega að huga að og ég vil upplýsa þingið um er að við erum að skoða hvernig við getum minnkað umfangið, þ.e. hraðað málsmeðferð og bætt þannig nýtingu fjármuna og tryggt að afgreiðsla gagnvart almenningi sé fljótari og skilvirkari en hún hefur verið og um leið getum við vonandi nýtt fjármagnið betur. Við erum líka að skoða hvernig við getum fækkað stofnunum. Við höldum áfram með þær hugmyndir sem hafa verið lengi í gangi, um fækkun á embættum sýslumanna, fækkun á embættum lögreglustjóra. Allt er þetta í góðu sambandi við þessa aðila og góður grunnur hefur verið lagður að því. Ég vona og treysti því að okkur takist vel í þeim málum. Einnig erum við að skoða það hvernig við getum hægt á ákveðnum fjárfestingarverkefnum sem eru þess eðlis að við ráðum ekki við þau nákvæmlega núna. Það þekkir fyrri ríkisstjórn líka. Við höfum gengið frá leigu á þyrlum sem skiptir miklu máli fyrir Landhelgisgæsluna. Við höfum verið að skoða og ég hef talað fyrir því að við höldum áfram við uppbyggingu á fangelsi á Hólmsheiðinni til að tryggja að við getum sinnt því verkefni vel og örugglega og reynum að gera það líka eins hagkvæmt og mögulegt er. Eins þurfum við að skoða mjög kostnaðarsöm rekstrarverkefni sem eru mikilvæg og grundvöllurinn að ákveðnum mannréttindum í okkar góða samfélagi en við verðum að vinna með öðrum hætti til að ná að nýta fjármagnið fyrir þá sem raunverulega þurfa á því að halda.

Kannski er efling löggæslunnar stærsta og mikilvægasta öryggisverkefnið sem við stöndum frammi fyrir í mínu ráðuneyti nákvæmlega núna. Ég hef lagt alla áherslu á það að fá tækifæri til þess að vinna í samræmi við stjórnarsáttmálann sem lýtur að því að efla löggæsluna. Þar er algert hryggjarstykki í þeirri vinnu mjög góð þverpólitísk vinna sem unnin var á síðasta kjörtímabili og lögð fram í mars sl. sem er fimm ára plan til að efla löggæslu í landinu og tryggja að fólk búi við meira öryggi. Á þeim grunni viljum við vinna. Ég mun halda áfram og kynna það á þingi á hausti komanda hvernig við sjáum það fyrir okkur og mun óska eftir aðkomu fulltrúa allra stjórnmálaflokka að þeirri vinnu líkt og verið hefur í þessu mikilvæga verkefni.

Síðan er það, eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á hér áðan, millidómstigið sem hefur þegar verið sett í farveg með stofnun nefndar til að tryggja að við getum innleitt millidómstig á þessu kjörtímabili. Það stendur til að gera það og efla þannig dómskerfið á Íslandi og tryggja að það verði sambærilegt við það sem best þekkist.

Samgöngurnar skipta auðvitað ótrúlega miklu máli fyrir okkur öll, sveitarfélögin og aðila um allt land. Þar reynum við að vinna í samræmi við samgönguáætlun en um leið erum við að skoða nýjar lausnir, nýja möguleika til fjármögnunar, aukið val hvað varðar samgöngukosti o.s.frv. Ég er ekki viss um að við verðum öll endilega sammála um það en ég vil og mun beita mér fyrir því að við skoðun nýjar leiðir til að tryggja að við getum farið í ákveðin verkefni þrátt fyrir að þau verði ekki endilega öll fjármögnuð af hálfu ríkisins.

Svo eru það stórmál sem ég hef lagt mikla áherslu á að við náum góðri sátt um og hef leitað til margra frjálsra félagasamtaka og annarra í því efni. Það eru málefni hælisleitenda sem er risastór málaflokkur sem við viljum sinna vel og tryggja að við þjónustum þá sem raunverulega þurfa á að halda. Það þýðir hins vegar að við þurfum að breyta því hvernig við vinnum í málunum. Við þurfum að stytta málsmeðferðina og gæta þess að þeir sem raunverulega þurfa á pólitísku hæli að halda fái slík svör skjótt og örugglega og aðrir fái nei-ið skjótt og örugglega. Í þessu sambandi höfum við litið sérstaklega til Noregs þar sem þetta hefur verið gert mjög vel og afgreitt mun fyrr en við gerum og betur og hefur jafnframt dregið úr kostnaði og þannig hefur fjármagnið nýst betur til þeirra sem þurfa raunverulega á því að halda.

Síðan eru verkefnin sem eru stöðugt í vaktinni. Það eru verkefni sem tengjast Landhelgisgæslunni. Það eru verkefni sem tengjast fangelsismálum sem því miður eru ekki í nægilega góðri stöðu hér á landi. Við fáum of margar áminningar frá of mörgum alþjóðlegum stofnunum um að of víða sé pottur brotinn í þessum málum á Íslandi og við viljum beita okkur fyrir því að tryggja að við náum betri árangri þar svo að staðan verði meira viðunandi.

Netöryggið hefur komið upp í umræðunni í dag og er gríðarlega brýnt mál, mál sem ég held að þingið þurfi að taka til mun alvarlegri umræðu en við höfum gert að undanförnu. Við þekkjum það flest sem fylgjumst með umræðu í erlendum stjórnmálum að fæst mál eru eins ofarlega þar og einmitt umræðan um það hvernig við getum tryggt almenningi að tækin sem við nýtum og notum á hverjum einasta degi séu örugg og menn geti treyst því að þeir njóti persónuverndar í því samhengi.

Síðan eru það málefni sem lúta að sveitarfélögunum. Ég mun flytja frumvarp í samræmi við stjórnarsáttmálann um það að lágmarksútsvar verði afnumið þannig að frelsi sveitarfélaganna verði aukið hvað það varðar. Þetta er verkefni sem við hyggjumst fara í fljótt og örugglega og tryggja þannig að sveitarfélögin geti ráðið ráðum sínum meira og þeim verði umbunað með einhverjum hætti fyrir þá ábyrgð sem þau hafa sýnt í fjármálum á undanförnum árum sem er eftirtektarverð og mörg sveitarfélög hafa gert það afar vel, að ríkisvaldið segi að við treystum þeim til að fara með sín mál.

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og síðast þakka fyrir umræðuna hér. Ég fullvissa þingheim og aðra um að ríkisstjórnin og þingheimur stendur sig vel miðað við aðstæður. Það er þröngt í búi eins og við þekkjum öll en menn geta treyst því að þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin var kosin til að fara í verði sannarlega sinnt.