störf ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.
Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferðina. Það er greinilegt að margt er í gangi og við bíðum spennt eftir að sjá nánar hvað felst í þessum málum, hvað kemur út úr nefndum og starfshópum. Ég efast ekki um að margt mun þokast í rétta átt.
Það sem mér finnst kannski vanta í umræðuna, í stefnu ríkisstjórnarinnar, er: Hver er staðan varðandi efnahagslegan stöðugleika, hver er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar? Erum við sátt við gjaldmiðilinn okkar eða er ríkisstjórnin með einhverja gjaldmiðlastefnu? Mér finnst það vera risastórt mál sem þarf að ræða.
Ég veit að hæstv. forsætisráðherra er þeirrar skoðunar að krónan hafi bjargað okkur í hruninu. Ég er þeirrar skoðunar að krónan sé hluti vandans og að hún verði það áfram. Ég hef heyrt hæstv. forsætisráðherra halda því fram að verðtryggingin sé vandamálið, að krónan verði nothæf um leið og við verðum búin að afnema verðtrygginguna. Ég er þeirrar skoðunar að verðtryggingin sé óhjákvæmileg ef við ætlum að vera áfram með krónuna, einn minnsta gjaldmiðil í heimi, gjaldmiðil sem enginn vill eiga nema hann raunverulega neyðist til þess. Ég held því miður að það sé þannig að á meðan við notum þennan gjaldmiðil sitjum við uppi með verðtrygginguna. Nú vona ég að enginn saki mig um að vera að tala krónuna niður, ég er ekki viss um að ég hafi svo mikið vægi í umræðunni. En það er kannski einmitt málið, við þurfum gjaldmiðil sem hvorki er hægt að tala upp né niður.
Hæstv. forsætisráðherra hefur boðað skuldaleiðréttingu fyrir heimilin. Fyrir kosningar var ekki annað að skilja en að sú leið væri nokkurn veginn útfærð, ég skildi það alla vega þannig. En það er ekki svo og nú bíðum við eftir niðurstöðu starfshópanna í þessu máli. Ég efast reyndar um að slík skuldaniðurfelling sé skynsamleg eða jafnvel réttlát. Ríkið á ekkert aflögu og við verðum að meta hvað við ætlum að gera við peningana sem við fáum út úr kröfuhöfum — ef við fáum einhverja peninga — hvort þeir nýtist þá best í almenna skuldaniðurfellingu eða í að greiða niður lán ríkisins.
Ég er ekki sammála ríkisstjórninni um að hætta við aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég vil fá að sjá samninginn. Stjórnvöld telja sig vita hvernig hann muni líta út, segja að ekki sé um neitt að semja. Ég er ósammála því. 28 Evrópuþjóðir hafa ákveðið að það þjóni hagsmunum þeirra að vera aðilar að Evrópusambandinu. Ég vil sjá svart á hvítu af hverju það þjónar ekki hagsmunum okkar. Mér fyndist það mjög ólýðræðislegt ef stjórnvöld leyfa þjóðinni ekki að hafa neitt um það mál að segja.
Ég á líka erfitt með að skilja þá kenningu stjórnvalda að skattalækkanir skili sér alltaf í auknum tekjum. Fyrsta mál sem kom hér inn á þing var ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hætta við að hækka virðisaukaskatt á gistingu og verða þannig af einum og hálfum milljarði kr. á ári. Á sama tíma höfum við áhyggjur af því hvernig við getum byggt upp innviði ferðaþjónustunnar. Ég spyr: Hvar ætlum við þá að fá peninga í það? Einhverjir þurfa að borga skatta til að hægt sé að fara í að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar. Það verður þá almenningur, geri ég ráð fyrir.
Það liggur ljóst fyrir að staða ríkissjóðs er mjög erfið. Við þurfum áfram að hagræða og forgangsraða. Það getur orðið erfitt núna vegna þess að víða er búið að skera niður inn að beini, eins og það er kallað, niðurskurðurinn er farinn að segja til sín. Við í Bjartri framtíð teljum að við getum notað tækifærið núna og hugsað málin alveg upp á nýtt. Við verðum að spyrja okkur: Hvaða þjónustu á ríkið að veita? Hvernig getum við bætt þjónustuna án þess að skerða gæðin? Getum við minnkað sóun? Getum við minnkað flækjustigið í kerfinu? Ef við værum að setja upp kerfi í dag, eins og landbúnaðarkerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, eftirlitskerfi, mundum við þá fara eins að?
Hæstv. forsætisráðherra talaði um framtíðarsýn og það var gott, ég var glöð að heyra það, því að við viljum gjarnan sjá meiri langtímahugsun, bæði í ríkisfjármálum en líka á öllum sviðum. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að koma á stöðugleika en við náum aldrei stöðugleika ef við hugsum aldrei lengra en nokkra mánuði fram í tímann. Við þurfum langtímahugsun, það er gríðarlega mikilvægt.
Við í Bjartri framtíð erum tilbúin að aðstoða við öll góð mál, ekki mun standa á okkur. Ég óska ríkisstjórninni velfarnaðar og vona að við eigum eftir að eiga góðar samræður hér í þingsal.