142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

þverpólitískt samstarf um afnám gjaldeyrishafta.

[15:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lét þess getið nokkrum sinnum þegar hann var í forustu fyrir stjórnarandstöðu á liðnum árum að höft yrðu ekki afnumin nema með víðtækri pólitískri samstöðu. Þar er ég honum algjörlega sammála. Við unnum í þá veru í síðustu ríkisstjórn og ég kom á fót þverpólitískri samráðsnefnd um afnám gjaldeyrishafta haustið 2011 og í tíð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur sem fjármálaráðherra var enn frekar unnið með þeim hætti og formenn stjórnmálaflokkanna kallaðir að borði.

Nú er það svo að frá því að hæstv. ráðherra settist í fjármálaráðuneytið höfum við ekkert heyrt af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar frá fjármálaráðherra. Við höfum hins vegar heyrt yfirlýsingar frá forsætisráðherra um það að í bígerð sé að endurskoða áætlun um afnám gjaldeyrishafta en öfugt við þá stefnu sem við höfum markað á síðustu árum hefur stjórnarandstaðan hvergi komið þar að. Nú síðast í gær sagði hæstv. forsætisráðherra að vænta mætti nýrrar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta á næstu mánuðum.

Við heyrum líka á skotspónum fréttir af einhvers konar starfshópum og svo heyrum við einhvers konar skens frá forsætisráðherra þar sem hann segir berum orðum meira að segja að stjórnarandstöðuflokkar, þá sérstaklega Samfylkingin, beri ekki hag þjóðarinnar fyrir brjósti í samskiptum við kröfuhafa eða við afnám gjaldeyrishafta.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver er raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar um þverpólitískt samstarf um afnám gjaldeyrishafta? Stendur til að bjóða stjórnarandstöðunni að borðinu og fjalla um þá endurskoðun á áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem forsætisráðherra hefur boðað eða er hann að tala frítt og án þess að fjármálaráðherra hafi markað einhverja stefnu? Auðvitað er það fjármálaráðherra sem fer með stefnumörkun í þessu efni.