142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.

[15:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að taka þessa umræðu hérna upp við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Eins og kom fram í máli þingmannsins hef ég nú þegar sett af stað vinnu, og það þegar á sumarþingi, við veiðigjöldin. Lykilvinnumenn í því verki eru veiðigjaldsnefndin sjálf, auk þess sem bætt hefur verið við endurskoðanda og einnig starfsmönnum í ráðuneytinu. Síðan er skýrslan sem við töluðum um sem varð niðurstaða sáttanefndarinnar eða samráðshópsins frá haustinu 2010 sem einnig hefur komið fram í stjórnarsáttmálanum að við munum byggja framtíðarskipulagið á. Sú skýrsla liggur auðvitað fyrir og var unnin í mjög þéttu samráði og var mjög gott að ná öllum aðilunum þar saman. Það var ánægjulegt að þar náðist þó sá samhljómur sem þar varð. Ég held að það komi mörgum á óvart að slík sátt hafi náðst í þeim hópi og þess vegna er mjög áhugavert að reyna að byggja áfram á þeirri vinnu.

Við höfum verið að skoða þetta í ráðuneytinu og sett ákveðna vinnu af stað sem mun þá fara í hraðari vinnslu núna á haustdögum með það að markmiði að bæði frumvarp um veiðigjöld og frumvarp um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi liggi fyrir einhvern tímann síðla í vetur. Þá verður vonandi hægt að fjalla í þinginu málefnalega og af yfirvegun um þessa mjög mikilvægu atvinnugrein. Ég tek undir að það er mjög gott að sjávarútvegurinn standi vel. Hann er í alþjóðlegri samkeppni eins og við þekkjum, í samkeppni við mjög stór alþjóðleg matvælafyrirtæki. Það er mikilvægt að við höfum burðug fyrirtæki til að standa undir því sem og að standa undir veiðigjöldum sem skila sér til þjóðarinnar en einnig fjárfestingar í greininni. Ég hef átt talsvert af samtölum við ýmsa aðila sem tengjast sjávarútveginum og horfa til framtíðarinnar (Forseti hringir.) á bjartari hátt ef við náum þeim stöðugleika og eyðum þeirri óvissu sem verið um greinina (Forseti hringir.) undanfarin ár.