142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

aukið skatteftirlit.

[15:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið nokkur umræða í vikunni um eftirlitsiðnað og kostnað við hann. Hv. þm. Framsóknarflokksins, Karl Garðarsson, hefur meðal annars rætt efnið á samfélagsmiðli og vakið athygli á því að sumar eftirlitsstofnanir hafa vissulega í för með sér kostnað en eru til þess að tryggja ríkissjóði tekjur. Hann vekur athygli á því að hann hafi tekið skatteftirlit upp hér á sumarþinginu og lagt áherslu á það við fjármálaráðherra að verulega auknu fjármagni yrði varið til skatteftirlits. Hann virtist ekki vera þeirrar skoðunar, segir hv. þingmaður síðan og á þá væntanlega við hæstv. fjármálaráðherra. Ég vildi af því tilefni inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort það geti verið rétt að fjármálaráðherra telji það ekki vera mikilvægt forgangsverkefni að verja auknu fé í bætt skatteftirlit eins og við höfum verið að gera á undanförnum árum. Og hvort við megum ekki eiga von á því á komandi vetri að skatteftirlitið verði eflt því að ég held að víðtæk samstaða sé um það í samfélaginu að það sé sannarlega mikilvægt verkefni og sannarlega borgi það sig fyrir ríkissjóð vegna þess að margsinnis hefur verið sýnt fram á að hver króna sem varið er í skatteftirlit skilar sér margfalt í auknum skatttekjum í ríkissjóð. En auðvitað líka í sanngjarnara samfélagi og eðlilegri samkeppnisaðstæðum fyrir venjuleg fyrirtæki og fólkið í landinu.

Mér hefur þótt það til fyrirmyndar hvernig hv. þm. Karl Garðarsson hefur tekið þessi mál upp hér á fyrstu dögum þings á nýju kjörtímabili og vona svo sannarlega að ekki sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um það hvort efla eigi skatteftirlit. Það getur varla verið svo að það séu þingmenn Framsóknarflokksins einir sem hafi áhuga á því að efla skatteftirlit og hæstv. fjármálaráðherra sé á móti því að efla skatteftirlitið í landinu. Eða hvað, hæstv. fjármálaráðherra?