142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

aukið skatteftirlit.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt að það væri ekki hægt að snúa út úr þeim orðum sem ég hafði hér áðan að ég gerði ekki sömu hagræðingarkröfu á ríkisskattstjóra, sem fer með skatteftirlit, eins og aðrar stofnanir. Í því felst ákveðin stefnumörkun og með því er tekið undir það að skatteftirlit í landinu skipti verulega miklu máli.

Ég trúi því hins vegar ekki að fyrir hverja krónu sem við mundum í framtíðinni bæta í skatteftirlit fengjum við ávallt margfalt fleiri krónur til baka. Einhvers staðar hljóta ytri mörkin að vera. Eða hvers vegna eigum við þá ekki bara endalaust að auka við skatteftirlit í landinu til að stórgræða á því þegar upp er staðið? Hvers vegna ekki að setja 10 milljarða til að græða 100? Slík röksemdafærsla gengur ekki upp.

Það eru engin áform uppi um að draga úr skatteftirliti. Ég hef hins vegar áhuga á því að skoða þessi mál í breiðara samhengi og skoða hvað við getum gert í skattframkvæmdinni, þar með talið í lagasetningunni, til þess að lágmarka undanskot, tryggja betra jafnræði (Forseti hringir.) og hámarka tekjur ríkisins.