142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

hjúkrunarrými á Suðurnesjum.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra; þar sem rætt er um að úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi á síðustu árum verið mjög lágar á Suðurnesin er því til að svara að fyrst er að sækja um framlög úr framkvæmdasjóðnum áður en menn fara að ræða það að úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra hafi verið lágar inn á svæðið. Sum árin koma engar umsóknir í Framkvæmdasjóð aldraðra frá Suðurnesjunum og ég fullyrði að þeir sem eru í forsvari fyrir þann málaflokk hefðu mátt standa sig betur í því að sækja í sjóðinn.

Varðandi biðlistana eftir hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum vill svo til að Suðurnesin eru tiltölulega vel úr garði gerð varðandi aldurssamsetningu. Þetta er tiltölulega ungur landshluti. Þegar maður horfir á landið allt í heild sinni og skoðar þá aldursflokka, 80 ára og eldri, sem eru í mestri þörf fyrir hjúkrunarrýmin kemur í ljós að biðlistarnir á Suðurnesjum eru umtalsvert hærri en annars staðar á landinu. Til dæmis má nefna að árið 2012 voru 5,5% af 80 ára einstaklingum og eldri á Suðurnesjum á biðlista eftir hjúkrunarrými en landsmeðaltalið var 1,9%. Þarna eru einhverjir þættir sem þarf að skoða. Það breyttist örlítið núna á árinu 2013 en hins vegar er alveg ljóst að eftirspurnin eftir hjúkrunarrýmum er mikil víðs vegar um land.

Ég fullyrði að brýnasta þörfin liggur núna á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega vegna samþættingar starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss og öldrunarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Það er í mínum huga forgangsmál þar inni en með því er ég ekki að segja að við eigum ekki að horfa til annarra svæða landsins líka þar sem þörfin er brýn.

Ég fæ tækifæri til að svara fyrir málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í síðara andsvari.