142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

almannatryggingar.

35. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. velfn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar sem velferðarnefnd í heild sinni flytur. Þegar afgreitt var á sumarþingi frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um almannatryggingar var samþykkt breytingartillaga mín og annarra þingmanna velferðarnefndar þess efnis að núgildandi frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega yrði framlengt til loka árs 2014. Líkt og fram kemur í greinargerð frumvarpsins var tæknilegur ágalli á breytingartillögunni sem lagt er til að verði nú lagaður með því að ártalinu 2013 verði skeytt inn í 14. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í lögunum þannig að frítekjumarkið haldist það sama út þetta ár og fram yfir það næsta.

Þar sem nefndin stendur öll að frumvarpinu, þingflokksformenn hafa fundað um málið og það er eingöngu tæknilegs eðlis, til lagfæringar á mistökum sem gerð voru fyrr í sumar, legg ég til að málinu verði vísað beint til 2. umr.