142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

almannatryggingar.

35. mál
[15:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að bæta inn í samþykkt frá því í sumar einu ártali, 2013, til þess að ljóst sé um hvað lögin eigi að fjalla og ekki verði ágreiningur um það og ég mun að sjálfsögðu styðja þá breytingu. En það er tilefni til að vekja athygli á því að með þessu er enn og aftur verið að undirstrika að öryrkjar búa við það að árlega er verið að framlengja ákvæði sem varða frítekjumörk og tekjutengingar.

Ný ríkisstjórn tók þá ákvörðun, og ég fagna henni, að taka aftur upp frítekjumörk varðandi launatekjur og aðrar tekjur hjá ellilífeyrisþegum. Á þeim tíma þegar það var samþykkt var flutt tillaga um að því yrði breytt líka — og það er ótímabundið — hjá öryrkjum. Ég harma það að menn skuli ekki hafa stigið skrefið til fulls og tekið þetta inn varanlega hjá öryrkjum. Ef þessi lög falla úr gildi falla menn niður í 29 þús. kr., það sem þeir mega hafa í frítekjur, en eru í þessum breytingum 110 þús. kr. Nú er það komið hjá ellilífeyrisþegum og það er ótímasett. Það hefði verið eðlilegast að stíga skrefið til fulls og breyta því hjá öryrkjum. Um það náðist ekki samkomulag síðast en ég vildi vekja athygli á því að það er óviðunandi með öllu ef þessu verður ekki breytt líka í náinni framtíð samhliða leiðréttingum á kjörum þessara hópa.