142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Reykjavíkurflugvöllur er nú til umfjöllunar í tengslum við tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur að nýju aðalskipulagi. Um málið eru að vonum afar skiptar skoðanir vítt og breitt um land. Því miður hefur umræða um málið þó einkennst af gagnkvæmum upphrópunum skoðanaandstæðinga allt of lengi. Nú heyrist jafnvel lagt til að borgarstjórn verði rænd forræði skipulagsmála flugvallarsvæðisins og það flutt til Alþingis. Ég er í hópi þeirra sem telja að flugvallarsvæði í sjálfri miðborginni sé tímaskekkja en vil um leið undirstrika mikilvægi allra samgangna til höfuðborgarsvæðisins. Það eru hins vegar margar hliðar á málinu sem allar eiga rétt á að vera teknar alvarlega í umræðunni eins og hæstv. innanríkisráðherra rakti.

Ég nefni öryggismálin í kringum flug og þá hættu sem íbúum höfuðborgarsvæðisins kann að stafa af flugrekstrinum. Það eru skipulagshagsmunir borgarinnar, einkum sá mikli samfélagslegi kostnaður í formi vannýttra innviða og umhverfis- og slysakostnaður sem er fylgifiskur dreifðrar byggðar. En það eru líka sjónarmið um greiðan aðgang landsmanna að höfuðborginni, hagsmuni sjúkraflugs og fleira mætti ugglaust tína til.

Í mínum huga er sérstaklega brýnt að tryggja hagsmuni sjúkraflugsins. En þarf sjúkraflugið á að halda fullkomnum þriggja flugbrauta innanlandsflugvelli? Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sjúkrafluginu sé tryggð góð flugbraut í Vatnsmýrinni þó að dregið sé úr umfangi flugvallarins að öðru leyti og þannig komið til móts við sjónarmið borgarinnar um uppbyggingu á svæðinu. Um það á að geta tekist sátt.

Það er því mín tillaga, sem ég hef áður talað fyrir hér í þingsal, að hafin verði vinna við að skipuleggja flugvallarsvæðið þannig að sem best sé komið til móts við ólík sjónarmið. Að þeirri vinnu komi borgaryfirvöld, samgönguyfirvöld, Samtök sveitarfélaga og ýmsir hagsmunaaðilar sem láta sig málið varða, bæði af höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Markmiðið á að vera að ná sátt. Hún gæti falist í því að áfram verði flugvallarstarfsemi í Vatnsmýri, flugbrautum verði fækkað og þeim hnikað til og byggðin verði þétt. Fyrsta skrefið í þá átt væri að fresta ákvörðun um skipulag flugvallarsvæðisins um nokkur ár enda verði sá tími nýttur til að finna viðvarandi lausn til frambúðar að teknu tilliti til hinna ólíku hagsmuna. Ég vona að borgaryfirvöld og samgönguyfirvöld taki vel í sáttahugmyndir í þessa veru (Forseti hringir.) því að það er okkur öllum mikilvægt að nálgast þetta viðfangsefni með opnum og lausnamiðuðum huga í stað þess að rífa hvert annað á hol í heiftúðugum deilum.