142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að taka það saman að allir þingmenn og ráðherrar sem ræða málið í þingsalnum í dag virðast vera sammála, það varðar almannahagsmuni. Herra Kristján L. Möller, þm. Samfylkingarinnar, bendir réttilega á að það eru tvö sjúkraflug sem lenda á Reykjavíkurflugvelli á hverjum degi. Frú Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir í ræðu sinni að hún fagni, að málið varði hag allra landsmanna og ég fagna því að hún fagni. Hún segir að almenningur hafi látið til sín taka með undirskriftasöfnun.

Herra Árni Þór Sigurðsson, þm. VG, talar líka um sjúkraflug en hann talar einnig um hættuna hvað varðar borgarbúa. Herra Óttarr Proppé, þm. Bjartrar framtíðar, bendir á að þetta sé sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna og herra Höskuldur Þórhallsson, þm. Framsóknar, segir það snúast um almannahag. Við virðumst því öll vera sammála um að málið varði almannahag. Stefna Pírata er mjög skýr varðandi ákvarðanir almennings, að allir eigi að hafa rétt á að koma að ákvörðunum sem varða þá og þetta mál varðar almannahag. Ég fagna líka frumvarpi herra Höskuldar Þórhallssonar um að færa skipulagsvaldið til að skera úr um málið til Alþingis, það varðar almannahag. Það þarf vandaða og upplýsta umræðu um málið.

Við þekkjum tvær leiðir til þess að fá þjóðina til að koma að slíkri umræðu. Það er annars vegar þjóðfundur, sem hefur reynst mjög vel á síðustu árum, að fá alla þjóðina að málinu sama hvernig hún skiptist eftir efnahag og aldri o.s.frv. Svo er önnur leið og það eru þjóðaratkvæðagreiðslur. Við vitum að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslna á sér stað mjög vönduð umræða. Við þekkjum að í upphafi getur orðið ákveðið skítkast, (Forseti hringir.) en við þekkjum einnig að umræðan hefur þróast í að verða vönduð, djúp, yfirgripsmikil og þegar það hefur verið kosið næst þjóðarsátt.