142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er í senn mikilvægt og merkilegt hlutverk sveitarfélags að vera höfuðborg. Því fylgja mikil forréttindi og fátt er eins mikil lyftistöng mannlífs og þróunar og að hafa slíkt hlutverk með höndum. Í höfuðborginni okkar er stærsti hluti opinberrar stjórnsýslu, mennta- og menningarstofnanir, þjóðarspítalinn sem og margvísleg önnur sérhæfð þjónusta sem landsmenn þurfa á að halda og vilja sækja.

Umræða og átök um Reykjavíkurflugvöll undanfarna áratugi hafa sýnt að nauðsynlegt er að treysta undirstöður Reykjavíkur sem höfuðborgar Íslands. Til að höfuðborg standi undir nafni þarf hún að axla þá ábyrgð sem því fylgir. Höfuðborg þarf að vera síkvik og lifandi, íbúar hennar og þeir sem kosnir hafa verið til ábyrgðarverka verða í starfsháttum og skipulagi að taka tillit til þjónustuhlutverks borgarinnar fyrir alla landsmenn. Að sjálfsögðu á höfuðborgin sín réttindi, þar á meðal þau að samráð sé haft við stjórnendur hennar um þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og þings sem snerta mikilvæga hagsmuni borgarbúa, svo sem atvinnutækifæri, skipulag og yfirbragð.

Afar mikilvægt er að höfuðborg sé í nánum tengslum við alla staði landsins og þangað verða allir íbúar að eiga góðan og greiðan aðgang. Þess vegna geta ráðamenn höfuðborgar ekki tekið einhliða og þröngt ígrundaðar ákvarðanir. Af þessu leiðir að vegasamgöngur, flugsamgöngur og samgöngur á sjó þurfa að vera góðar. Fyrir landsbyggðarfólk snýst flugvallarmálið ekki um það hvort það taki jafn langan tíma að komast úr Vesturbænum í Reykjavík á Kjalarnesið eða að aka úr Grafarholtinu til að komast í innanlandsflug eða umferðaröngþveitið í Reykjavík eða þörfina fyrir nýrri miðborg. Byggðir á Vestfjörðum, Norðurlandi og annars staðar verða áfram og um ókomna tíð verulega háðar góðum og öruggum flugsamgöngum til og frá höfuðborginni. Flugvöllur í Vatnsmýrinni í Reykjavík er spurning um það hvort fólk á landsbyggðinni eigi áfram kost á að njóta þeirrar þjónustu sem það kemst ekki hjá að sækja til höfuðborgarinnar með skjótum og öruggum hætti að því marki sem flugið býður upp á. Höfuðborg getur ekki vísað á dyr þessum skyldum sínum, höfuðborg án vega, flugvalla eða (Forseti hringir.) hafnar rís ekki undir nafni. Ég treysti því að Alþingi og borgarstjórn sjái til þess að við öll, íbúar þessa lands, getum áfram verið stolt af höfuðborginni okkar sem axlar vonandi alla þessa miklu ábyrgð með þarfir allra landsmanna að leiðarljósi.