142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:30]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir að hefja þessa umræðu. Við sem búum úti á landi og notum flugvöllinn höfum auðvitað sterkar skoðanir á þessu máli og þekkjum af eigin raun hversu mikilvægt það er að hafa gott aðgengi að höfuðborginni. En ég hef líka fullan skilning á því að Reykjavíkurborg vilji nýta þetta landsvæði í Vatnsmýrinni undir byggð. Að sama skapi vænti ég þess að höfuðborgarbúar geri sér grein fyrir mikilvægi flugvallarins fyrir okkur sem sækjum þjónustu hingað suður, hvaða nafni sem hún kann að nefnast, og jafnvel vinnu.

Ég held að það sé til mikils að finna lausn sem allir geta sætt sig við. Sú leið er ekki að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur eða langt út úr borginni. Ótal lausnir hafa verið nefndar. Sumar miða að því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í einhverri mynd, t.d. með lengingu austur/vesturbrautar út í sjó en að sama skapi styttingu norður/suðurbrautar. Ef við horfum til framtíðar hefur verið talað um að byggja upp flugvöll á Lönguskerjum, jafnvel á Álftanesi. Ég horfi gjarnan á Álftanesið þegar ég flýg heim. Þar finnst mér vera stórt og mikið svæði ónýtt og svo mætti bara vera brú beint yfir.

Ég tel mikilvægt að við skoðum allar lausnir með opnum huga og setjum plan til langs tíma. Mér finnst ekki ásættanlegt fyrir okkur sem treystum á þessa samgönguleið að fá ítrekað fréttir af því að flugvöllurinn sé að fara án þess að nokkur geti svarað því hvert förinni sé heitið.

Ég vona að við finnum lausn sem allir geta sætt sig við. Ég fagna þeim sáttatón sem ég heyri hjá hæstv. innanríkisráðherra.