142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

málefni Reykjavíkurflugvallar.

[16:33]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka bæði hæstv. innanríkisráðherra og þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu fyrir hana. Hér hefur auðvitað endurspeglast það sem ég hef áður sagt, skoðanaágreiningur milli manna og innan flokka. Svo er og það er allt í lagi með það.

Ég fagna því sem hæstv. innanríkisráðherra sagði hér um undirskriftasöfnunina, að almenningur hefði sitt að segja. 66 þúsund manns hafa þegar skrifað undir og ég hygg að þeim eigi eftir að fjölga töluvert þegar allt verður komið fyrir 20. september.

Ég vil taka upp hér það sem nokkrir hafa rætt um hvað varðar almannahagsmuni og vitna þar í grein sem hv. þm. Brynjar Níelsson skrifaði nýlega á Facebook-síðuna sína, sem er um skipulagsvald. Þar talar lögmenntaður maður. Ég get tekið dæmi: Eigum við að sætta okkur við það að ef sveitarfélagið sem hefur til dæmis Búrfellsvirkjun mundi taka þá ákvörðun að breyta skipulagi sínu og segja að Búrfellsvirkjun ætti að fara eftir þrjú ár, eða tvö og hálft ár? Nei, það er ekki hægt. Þá þarf einhver annar að grípa inn í og þá er það æðsta lýðræðisstofnun landsins, Alþingi. Ef Mosfellsbær mundi allt í einu segja: Þjóðvegurinn til Reykjavíkur á ekki lengur að liggja í gegnum sveitarfélag okkar, hann verður að fara í burt eftir tvö ár. Nei, það gengur ekki. (Gripið fram í.)

Um stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að hún talar um að miðstöðin eigi að vera áfram í Reykjavík: Er það ekki alveg skýrt, virðulegi forseti, að þá erum við að tala um völlinn í Vatnsmýri? Að mínu mati er það svo. Eða er verið með einhverjar hártoganir hér? Er Hólmsheiði í Reykjavík? Að mínu mati er hún það ekki.

Hér hefur verið talað um deilu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það er rétt, það er svoleiðis, en fyrst og fremst sýnist mér þetta vera deila 82% höfuðborgarbúa gagnvart 15 borgarfulltrúum sem sitja í borgarstjórn í dag. Það eru þeir sem hlusta ekki á (Forseti hringir.) hvað meiri hluti Reykvíkinga vill. Mörg okkar á landsbyggðinni sem höfum þá skoðun að völlurinn eigi að vera áfram (Forseti hringir.) í Vatnsmýri erum sammála þessum 82%.