142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, með síðari breytingum (tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja).

Nefndin hefur rætt frumvarpið á allmörgum fundum, fengið til sín yfir 30 gesti og fyrir liggja umsagnir frá 18 aðilum.

Nefndin fjallaði á fundum sínum um þær breytingar sem frumvarpið felur í sér og varða heimildir Hagstofu til að safna saman upplýsingum um einstaklinga og lögaðila. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um fjölmörg álitaefni sem frumvarpið felur í sér, m.a. varðandi stjórnarskrárvarin réttindi um friðhelgi einkalífs, hversu víðfeðma söfnun persónuupplýsinga það felur í sér, hverju hafi verið ætlað að ná fram með því og hvers vegna og hvort meðalhófs sé gætt við útfærsluna, þ.e. hvort unnt hefði verið að fara einfaldari og viðurhlutaminni leið til að ná fram því markmiði sem að er stefnt. Þá var einnig rætt hvort upplýsingarnar mundu í reynd nýtast stjórnvöldum til stefnumótunar um viðbrögð við skuldavanda heimilanna og við mat á árangri þeirra úrlausna. Einnig fjallaði nefndin sérstaklega um þá almannahagsmuni sem í húfi eru svo að vel takist til við framkvæmdina auk öryggisþáttarins sem tengist meðferð gagnanna.

Þegar nefndin hafði farið yfir öll álitaefni málsins var niðurstaða meiri hluta að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið þar sem komið er til móts við þau álitaefni sem fram komu, og fyrir liggur ítarlegt nefndarálit meiri hlutans þar sem gerð er grein fyrir því hvernig einstökum athugasemdum er mætt. Nefndarálitið er kaflaskipt og þar er fjallað um söfnun persónuupplýsinga, friðhelgi einkalífs, almannahagsmuni, tengsl við vinnu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna, tímanlegar upplýsingar, meðalhóf, alþjóðavettvang, vinnslu persónuupplýsinga, öryggi gagna, varðveislu og flutning gagna, eyðingu gagna og eftirlit við úrvinnslu, þagnarskyldu og tímaramma.

Meiri hluti nefndarinnar taldi mikilvægt að afmarka markmið betur og er það gert í breytingartillögunni. Efnahagsmál, ríkisfjármál og fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja geta talist til málefna þar sem mikilvægir almannahagsmunir eru í húfi. Íslensk heimili eru meðal þeirra skuldsettustu í heiminum og því er ljóst að knýjandi þörf er fyrir gagnasöfnun af þessu tagi.

Bent hefur verið á að mikið af þeim gögnum sem hér er ætlunin að afla séu tiltæk á Hagstofunni en í þau gögn vantar m.a. upplýsingar um grunnforsendur lána og greiðslubyrði auk þess sem þau eru ekki tiltæk fyrr en eftir álagningu skatta næsta ár á eftir. Telur meiri hluti nefndarinnar ljóst að markmið frumvarpsins næðust ekki með viðaminni upplýsingasöfnun svo sem úrtaki eða vali um þátttöku. Hins vegar er mikilvægt að afmarka hvaðan upplýsinga er aflað og hvaða upplýsinga er aflað. Upplýsingavinnsla af þessu tagi er víða framkvæmd í löndunum í kringum okkur þó að breytilegt sé hver fari með þá vinnslu.

Þá er meiri hluti nefndarinnar sammála því að mikilvægt sé að tryggja örugga söfnun, flutning og varðveislu gagna og að gögnum verði eytt að vinnslu lokinni.

Þá ætla ég að fara yfir breytingartillöguna. Upphaflega frumvarpið er í sex greinum. Með breytingartillögunni er lagt til að 1.–4. gr. og 6. gr. falli brott, en þess í stað verði meginefni þeirra greina sett fram í bráðabirgðaákvæði.

Hins vegar stendur 5. gr. óbreytt en hún hljóðar svo:

„Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Óheimilt er að afhenda þær öðrum stjórnvöldum, ákvæði annarra laga um aðgang stjórnvalda að gögnum víkja fyrir þessu ákvæði og þær lúta ekki aðgangi samkvæmt upplýsingalögum.“

Með þessari viðbót við eldri lög um Hagstofu Íslands er tekinn af allur vafi um að Hagstofunni er aldrei heimilt að afhenda öðrum gögn sem snerta tilgreinda einstaklinga eða lögaðila.

Þá er í breytingartillögunni lagt til að á eftir 11. gr. laganna um Hagstofu Íslands komi ný grein, 11. gr. a, svohljóðandi:

„Brjóti starfsmenn Hagstofu Íslands gegn þagnarskylduákvæðum 10. og 11. gr. fer um refsiábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi. Þegar um er að ræða upplýsingar sem falla undir 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, varðar brot sektum eða fangelsi allt að tveimur árum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt sérlögum eða öðrum lögum.“

Með þessari grein er tryggt að sömu reglur gilda um þagnarskyldu varðandi trúnaðargögn hjá Hagstofunni og hjá fjármálastofnunum og öðrum er sýsla með slík gögn.

Loks er í breytingartillögunni lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem meginefni frumvarpsins er sett fram. Það hljóðar svo:

„Stjórnvöldum er heimilt að greina skulda-, greiðslu- og eiginfjárstöðu heimila og lögaðila með það að markmiði að stuðla að því að ákvarðanir um úrræði í þágu skuldugra heimila og lögaðila byggist á traustum grunni. Í því skyni er Hagstofu Íslands veitt heimild til að afla upplýsinga og vinna úr þeim samkvæmt ákvæði þessu í þeim tilgangi að vinna tölfræðiskýrslur sem nýtast til að fylgjast með framgangi og meta áhrif aðgerða stjórnvalda og annarra á hag heimila og lögaðila. Tölfræðiskýrslurnar skulu byggjast á gagnasöfnun sem tekur til lána sem eru útistandandi frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2017. Þó er einnig heimilt að afla upplýsinga um lán sem hafa verið greidd upp eða hefur verið breytt vegna úrræða í þágu skuldara allt frá 31. desember 2006.

Hagstofu Íslands er heimilt að kalla eftir upplýsingum frá Íbúðalánasjóði, fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. þeim sem stýrt er af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, lífeyrissjóðum, Lánasjóði íslenskra námsmanna og öðrum fyrirtækjum og opinberum aðilum, sem stunda lánastarfsemi í atvinnuskyni eða samkvæmt lögum, um lánveitingar þeirra til einstaklinga og lögaðila. Undir slíka upplýsingagjöf falla einvörðungu upplýsingar um grunnforsendur láns, þ.e. hver sé lántaki, stöðu láns, skilmála, upphafs- og lokagjalddaga, fjölda afborgana, vaxtakjör, tegund lántöku, afborganir og innáborganir, verðbætur og áfallna vexti, greiðslueiginleika, veð og tryggingar að því er varðar lán til húsnæðiskaupa, vanskil og úrræði í þágu skuldara sem tengjast láninu, auk upplýsinga um uppgreiðslu. Hagstofu Íslands er heimilt að tengja upplýsingar sem fengnar eru á grundvelli þessarar málsgreinar við upplýsingar sem hún hefur aflað frá öðrum opinberum aðilum, sbr. 9. gr. Á grundvelli upplýsinga samkvæmt þessari málsgrein er Hagstofu Íslands heimilt að gefa með reglulegu millibili út tölfræðiskýrslur um fjárhag heimila og lögaðila. Hagstofa Íslands skal tryggja að upplýsingaöflun, samtenging og úrvinnsla gangi ekki lengra en þörf krefur til að þjóna markmiðum skv. 1. mgr. og tryggja að ekki verði unnt að rekja upplýsingar í birtum skýrslum eða rannsóknum til einstaklinga, heimila eða lögaðila.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og önnur lagaákvæði um þagnarskyldu er lögaðilum skv. 2. mgr. skylt að afhenda Hagstofu Íslands umbeðnar upplýsingar. Afhending upplýsinga skal vera án endurgjalds.

Tryggja skal að fyllsta öryggis sé gætt við sendingu og meðferð upplýsinga sem Hagstofa Íslands aflar á grundvelli 2. mgr. Setja skal öryggisstefnu, framkvæma áhættumat og gera aðrar öryggisráðstafanir til samræmis við 11.–13. gr. laga nr. 77/ 2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og reglur sem settar hafa verið á þeim grundvelli.

Hagstofa Íslands skal eyða gögnum sem hægt er að rekja til einstaklinga, heimila eða lögaðila einu og hálfu ári eftir fyrstu útgáfu á niðurstöðum hvers tímabils og eigi síðar en í árslok 2018. Persónuvernd skal hafa eftirlit með eyðingu gagnanna.

Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2018.“

Í bráðabirgðaákvæðinu er markmið frumvarpsins sett skýrt fram, verkefnið afmarkað í tíma, skilgreint hvaðan upplýsinga er aflað og hvaða upplýsinga er aflað og að upplýsingarnar verði nýttar til að gefa út tölfræðiskýrslur. Þá er mælt fyrir um öryggi við meðferð ganga, m.a. með vísan í lög og reglur um persónuvernd og Persónuvernd falið eftirlit með eyðingu gagnanna.

Með því að setja meginefni frumvarpsins fram í bráðabirgðaákvæði þar sem verkefnið er betur afmarkað er tekinn af allur vafi um að hér sé um tímabundna heimild að ræða sem nær yfir afmarkað verkefni sem mun ljúka með eyðingu allra persónulegra upplýsinga sem safnað er vegna rannsóknarinnar.

Meiri hluti nefndarinnar bendir á að það eru brýnir hagsmunir almennings að tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja liggi fyrir þegar verið er að ráðstafa almannafé til þess að mæta skulda- eða greiðsluvanda einstakra hópa. Vinnan sem frumvarpið mælir fyrir um er brýn fyrir heimilin í landinu. Með frumvarpinu er Hagstofu Íslands, sem nýtur trausts við tölfræðilega úrvinnslu gagna, falið verkefnið og skýrt er kveðið á um öryggi við meðferð gagna og að gögnunum sé eytt að vinnslu lokinni.

Ég vil þakka nefndinni fyrir góða vinnu í þessu máli þar sem allir lögðust á eitt við að skýra álitaefnin. Að öllu framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gert hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir þetta nefndarálit skrifar sú sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir.