142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að tillögur sérfræðingahóps eiga að liggja fyrir í nóvember og tillögur annars hóps í desember. En hv. þingmaður benti réttilega á að ákvarðanir eru ekki teknar endilega um leið og tillögur liggja fyrir. Með tillögur þarf að vinna og fljótlega á nýju ári koma fyrstu tölur frá Hagstofunni, verði þetta frumvarp að lögum. Þá er hægt að byggja ákvarðanir á þeim upplýsingum, þeirri tölfræði sem þar kemur fram ásamt því að fylgjast með áhrifum þeirra ákvarðana sem teknar verða.

Af hverju ekki úrtak? Ég rakti það að hluta áðan en svo er ýmislegt sem bendir til að það yrði íþyngjandi, það yrði meira íþyngjandi fyrir fjármálastofnanir og einstaklinga ef úrtaksaðferðin yrði valin. Þá yrði hugsanlega að senda út spurningalista og ýmislegt annað (Forseti hringir.) bendir til þess.

Varðandi afstöðu Persónuverndar vísa ég til þess (Forseti hringir.) sem ég las upp hér áðan.