142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir minnihlutaáliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vil byrja á að þakka hið góða samstarf í nefndinni. Samstarfið var mjög gott og þótt við höfum endað á því að vera ekki á sömu línu voru öll samskipti með afbrigðum prýðileg og allt starf mjög faglega unnið, þökk sé hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur.

Það voru veigamikil atriði sem við gátum ekki komið okkur saman um þótt mikið hafi verið lagt í að taka tillit til margra athugasemda sem komu fram og þau hafi verið löguð. Til þess að því sé haldið til haga ætla ég að renna yfir minnihlutaálitið eins og það kemur fyrir.

Minni hlutinn telur mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma geti byggt ákvarðanir sínar á vönduðum upplýsingum og réttum forsendum, en umrætt frumvarp er lagt fram með það að markmiði. Því hefur minni hlutinn tekið fullan þátt í að betrumbæta frumvarpið og lagt áherslu á að ná sem víðtækastri sátt. Þær breytingar sem meiri hlutinn hefur lagt fram eru ekki fullnægjandi að mati minni hlutans og telur hann sér ekki fært að styðja frumvarpið óbreytt. Minni hlutinn hefur lýst sig reiðubúinn til þess að starfa með meiri hlutanum og öðrum aðilum við að búa til frumvarp sem uppfyllir markmið um vandaðar upplýsingar en gætir jafnframt með fullnægjandi hætti að persónuvernd og mannréttindum. Minni hlutinn telur hægt að ná sátt um slíkt frumvarp og leggja fram á haustþingi. Verulegir annmarkar þess frumvarps sem hér liggur fyrir og á þeim breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram gera hins vegar minni hlutanum ókleift að styðja frumvarpið óbreytt.

Þegar kemur að samræmi við stjórnarskrá lentum við í þeim vandræðum að hér er óneitanlega verið að fara fram yfir heimildir ríkisins samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveður á um friðhelgi einkalífsins. Undantekningar á því ákvæði er eingöngu hægt að gera ef til staðar eru tiltekin skilyrði. Það þurfa að vera nauðsynlegar aðgerðir, það þarf að vera nákvæm skilgreining á aðgerðunum, tilgangur þeirra þarf að vera skýr — og með skýrum meina ég mjög skýr, hann er ekki skýr hér, vissulega ekki mjög skýr — og gæta þarf meðalhófs, þ.e. sýna þarf fram á að vægari aðgerðir séu ekki til staðar.

Vægari aðgerðir gætu verið mögulegar en við vitum það ekki vegna þess að frumvarpið var mjög greinilega unnið í miklum flýti. Ef maður ber saman upprunalegt frumvarp og hina ágætu breytingartillögu sést að frumvarpið var unnið í miklum flýti og ekki tekið nægilegt tillit til þessara sjónarmiða frá upphafi. Það gerir það að verkum að okkur í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur ekki tekist að ræða neinar aðrar útfærslur sem gætu verið vægari en þessi. Við höfum bókstaflega ekki haft tímann vegna þess að núna liggur á að koma frumvarpinu í gegn á þessum svokallaða stubbi á sumarþingi í stað þess að taka málið upp á haustþingi þegar við gætum öll unnið saman að frumvarpi sem hugsanlega þyrfti ekki að ganga svona á friðhelgi einkalífsins, því að það eru til leiðir. Mig langar að nefna eina hugmynd varðandi úrtakið. Í vinnu nefndarinnar var úrtakið vissulega rætt af og til og því er haldið fram hér að það hafi verri áhrif hvað varðar friðhelgi einkalífsins.

Virðulegi forseti. Nú í dag eru starfræktar vefsíður á vegum ríkisins sem leyfa auðkenningu yfir netið. Fólk getur skráð sig inn á vefsíðu og getur tilgreint þar ýmsa hluti, t.d. lögheimili eða trúfélag sem það vill tilheyra o.s.frv. Rafrænt samþykki er eitthvað sem við getum gert í dag, það er einn möguleiki. Við ræddum þann möguleika aldrei ítarlega á fundum hv. allsherjar- og menntamálanefndar, einfaldlega vegna þess að ekki var tími til þess. Ef við hefðum tíma, ef við værum að gera þetta á haustþingi er ég sannfærður um að allir flokkar gætu sammælst um aðferðir sem bæði virka og eru lausar við vankanta varðandi friðhelgi einkalífsins og meðalhóf.

Mig langar að lesa aðeins meira upp úr minnihlutaálitinu, með leyfi forseta, um samræmi við stjórnarskrá:

„Minni hlutinn telur ótvírætt og óumdeilt að með frumvarpinu sé gengið inn á stjórnarskrárvarin réttindi til friðhelgi einkalífs, samanber ákvæði stjórnarskrár, ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og umsagnir þeirra sérfræðinga og gesta sem hafa komið fyrir nefndina.

Minni hlutinn áréttar sérstaklega það sem fram kom í umsögn Persónuverndar en þar segir m.a.: „Þær persónuupplýsingar sem frumvarpið fjallar um falla ótvírætt undir friðhelgi einkalífs einstaklinga […] og umrædd vinnsla felur þannig í sér afskipti af þeim réttindum. Verði umrætt frumvarp að lögum mun verða til persónugreinanlegur gagnagrunnur hjá stjórnvöldum með ítarlegum fjárhagsupplýsingum um landsmenn alla sem unnið verður með a.m.k. næstu fjögur árin.“ Síðar í umsögn Persónuverndar segir: „Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu.““

Það sem mig langar að vekja athygli á er að enginn raunverulegur efnislegur ágreiningur er um að farið er inn á friðhelgi einkalífsins, svo mikið er víst. Eina spurningin sem við eigum að svara þegar kemur að frumvarpinu er: Höfum við réttmætar ástæður til þess? Minni hlutinn telur að svo sé ekki. Meðalhófinu er ekki fullnægt, málsmeðferðin er of hröð, við vinnum þetta of hratt, við vöndum okkur ekki nóg, við höfum ekki skoðað aðra kosti og markmið frumvarpsins er því miður einfaldlega ekki skýrt enn.

Það heyrði til undantekninga að maður spyrði tvo aðila á fundum hv. allsherjar- og menntamálanefndar um tilgang frumvarpsins vegna þess að með svo víðtækri upplýsingasöfnun er hægt að ímynda sér ýmsa og marga kosti. Spyrði maður einn aðila fékk maður jafnvel önnur svör. Það kom auðvitað mest á óvart þegar okkur var sagt af hv. nefnd um lækkun höfuðstóls á húsnæðislánum að þau ætluðu ekki að nota þessar upplýsingar. Það kom okkur — jafnvel mér — svolítið í opna skjöldu.

Mig langar að lesa meira upp úr nefndarálitinu, virðulegi forseti, um markmið frumvarpsins:

„Til að takmarka megi mannréttindi þurfa rökin fyrir því að vera veigamikil og tilgangurinn brýnn. Frumvarpið virðist hafa tvíþættan tilgang. Annars vegar að eiga við meint neyðarástand sem réttlæti þá jafnróttækar aðgerðir og mælt er fyrir um í frumvarpinu og hins vegar að greiða fyrir almennri hagskýrslugerð til aðstoðar við umsýslu á almannafé. Nokkuð er á reiki hvort upplýsingasöfnunin eigi að nýtast við ákvörðunartöku varðandi úrbætur í skuldamálum heimila og fyrirtækja eða við að leggja mat á árangur slíkra aðgerða, nema hvort tveggja sé.

Af umsögnum sem nefndinni bárust og að áliti margra gesta sem komu á fundi nefndarinnar, er ljóst að miklar efasemdir eru uppi um hvort þessi óljósu markmið frumvarpsins teljast nægilega veigamikil rök til að ganga inn á friðhelgi einkalífs með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Minni hlutinn bendir á í því sambandi að fram kom á fundum nefndarinnar að sérfræðingahópur sem vinnur tillögur um höfuðstólslækkun húsnæðislána getur byggt þær á upplýsingum frá skattyfirvöldum sem byggjast á framtölum. Minni hlutinn telur því einsýnt að sá rökstuðningur fyrir nauðsyn þessarar viðamiklu upplýsingasöfnunar sem frumvarpið felur í sér sé haldlítill.“

Næst langar mig aðeins að lesa um málsmeðferð, virðulegi forseti, með leyfi:

„Frumvarpið sem kom til umfjöllunar allsherjar- og menntamálanefndar var sjö greinar. Í meðförum nefndarinnar var ljóst að frumvarpið var ekki tækt í þeirri mynd sem það var lagt fram. Þrátt fyrir þá vinnu sem hefur farið fram á vettvangi nefndarinnar eru helstu vankantar upphaflegs frumvarps óleystir eins og að framan hefur verið rakið. Þá hefur ekki verið gengið úr skugga um hvort og hvernig frumvarpið samræmist ýmsum alþjóðlegum skuldbindingum og Evrópulöggjöf er lúta að vernd einstaklinga við vélræna vinnslu persónuupplýsinga og við vinnslu og frjálsa miðlun persónuupplýsinga. Að mikilvægi könnunar á þessu var sérstaklega vikið í umsögn Lögmannafélags Íslands um frumvarpið. […] Minni hlutinn lítur enn fremur svo á að engin ástæða sé til þess að hraða málinu á sumarþingi í ljósi þess að gögnin verða ekki nýtt fyrr en eftir að starfshópar um skuldavandann hafa lokið störfum og skilað sínum tillögum.“

Að lokum langar mig bara að lesa niðurlag álitsins, með leyfi, virðulegi forseti:

„Minni hlutinn áréttar þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin og telur að enn séu gallar á málinu og ósamræmi enn í skýringum á tilgangi frumvarpsins. Sterkar efasemdir eru uppi um að frumvarpið standist stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasáttmála. Minni hlutinn bendir á að frumvarpið krefst því mun vandaðri undirbúnings. Rökstuðningur fyrir nauðsyn þeirrar víðfeðmu upplýsingasöfnunar sem frumvarpið felur í sér er enn fyrir hendi að mati Persónuverndar og fleiri aðila. Upplýsingar í skattframtölum ættu að nægja við gerð tillagna um aðgerðir í þágu skuldugra heimila samkvæmt sérfræðihópi forsætisráðherra um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána.

Minni hlutinn bendir á að til þess að uppfylla kröfur um gæði lagasetningar og í samræmi við þær kröfur sem stjórnarskráin setur þarf að átta sig á til hvers á að nýta upplýsingarnar, hvert markmiðið er. Finna þarf út hvaða upplýsingar það eru sem raunverulega vantar og hvaða leiðir eru mögulegar til að ná því markmiði sem að er stefnt og velja vægustu mögulegu leiðina.

Minni hlutinn ályktar að skynsamlegast væri að allsherjar- og menntamálanefnd tæki málið aftur upp á haustþingi með reynsluna og réttindi borgaranna að leiðarljósi frá upphafi. Þannig telur minni hlutinn að megi búa til frumvarp sem nýtist stjórnvöldum við að meta áhrifin af aðgerðum sínum án þess að brjóta í bága við réttindi almennings til friðhelgi. Það eru minni hlutanum mikil vonbrigði að meiri hlutinn nýti ekki þá samstöðu sem náðist í nefndinni um meginmarkmið frumvarpsins til að ná sátt um útfærsluna.“

Meðalhófið er eitt af því stóra sem stendur eftir í þessu og ég vil benda á að þrátt fyrir meintar pólitískar línur eru fjórir af níu fulltrúum þjóðarinnar ekki sannfærðir um að meðalhófs sé gætt hér. Ég vil ítreka að sönnunarbyrðin hvílir á okkur, á Alþingi sjálfu. Áður en við samþykkjum frumvarpið þurfum við að sanna að við höfum staðið, að við getum og stöndum undir þeirri ábyrgð sem stjórnarskráin ætlast til af okkur.