142. löggjafarþing — 26. fundur,  11. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:22]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Flutningsmaður þessa máls, hæstv. forsætisráðherra, hefur lýst því yfir að nú standi til að setja heimsmet í aðgerðum í þágu skuldugra heimila í landinu. Hann tekur þar nokkuð dýpra í árinni en hann gerði í kosningabaráttunni í vor og þótti þó mörgum æðimikið um, en látum það liggja á milli hluta.

Nú hefur hv. framsögumaður meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar upplýst í þessari umræðu, og það er nýtt fyrir mér sem ekki sit í þessari nefnd — kannski hefur það komið fram á vettvangi nefndarinnar en það er nýtt fyrir mér — að enda þótt einhver skýrsla frá starfshópi eigi að koma í nóvember eigi aðgerðir í þágu skuldugra heimila ekki að koma til framkvæmda fyrr en einhvern tíma í vor. Þess vegna sé mikilvægt að fá þessa vinnslu frá Hagstofunni þó að hún komi ekki fyrr en í vor.

Það eru nýjar fréttir. Það eru nýjar fréttir fyrir kjósendur Framsóknarflokksins og fólkið í landinu að ekki sé við því að búast að neinar tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna komi fyrr en einhvern tíma með vorinu. Í sumar ræddum við það að setja ætti málið í nefnd fram á haust og þá var talað um nóvember. Nú er enn verið að seinka því. Ég tel að það sé eftirtektarvert og þyrfti að greina frá því í fjölmiðlum.

Ég vil spyrja hv. þingmann sem situr í þessari nefnd og er framsögumaður minni hlutans: Komu þessar upplýsingar fram við vinnslu málsins í allsherjar- og menntamálanefnd? Var allsherjar- og menntamálanefnd meðvituð um það alveg frá byrjun — og ef ekki frá byrjun hvenær þá — að ekki stæði til að neinar aðgerðir sem mæta átti með frumvarpinu kæmu til framkvæmda fyrr en með vorinu og þess vegna væri tímasetningin alveg í lagi, að Hagstofan hefði þá tíma fram á vor til þess að vinna þær upplýsingar sem hér er farið fram á að fá?