142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að vekja athygli á máli sem dreift hefur verið hér á Alþingi, tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar um málefni hinsegin fólks, sem flutt er af mér og hv. þingmönnum Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Oddnýju G. Harðardóttur.

Nú er það svo að við höfum verið nokkuð ánægð með árangur okkar þegar kemur að því að jafna réttindi allra í samfélaginu, hinsegin fólks sem og annarra. Þó virðist vera að gera megi talsvert betur og ástæða þess að þessi tillaga er lögð fram er að Samtökin 78 kynntu í vor svokallað regnbogakort sem mælir stöðu hinsegin fólks í ólíkum ríkjum Evrópu. Þar kemur fram að Ísland er í tíunda sæti af 49 ríkjum sem athuguð voru og þar liggjum við nokkru neðar en til að mynda Noregur og Svíþjóð. Meðal þess sem var kannað er löggjöf og stefna gegn mismunun, hælisveitingar, lagaleg staðfesting á kyni, vernd gegn hatursorðræðu, fjölskylduviðurkenning og virðing fyrir funda-, félaga- og tjáningarfrelsi.

Þetta vakti talsverða athygli mína því að við höfum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð í þessum málefnum og yfirleitt náð um það hér á Alþingi þverpólitískri samstöðu þegar við höfum staðið að réttarbótum í þessum málaflokki. Hins vegar sýnir þetta að úrbóta er þörf. Þetta sýnir líka að þessi réttindi eru auðvitað aldrei sjálfgefin og í ríkjum Evrópu sjáum við því miður hreina afturför þegar kemur að réttindum hinsegin fólks.

Við eigum að vera í fremstu röð þegar kemur að þessum málaflokki. Við höfum oft náð góðum árangri þar og því vonast ég til þess og hvet hv. þingmenn til þess að standa saman um það — ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra í velferðarráðuneytinu mun standa með okkur í því að þó ekki náist að mæla fyrir málinu á þessu stutta þingi þá náist að mæla (Forseti hringir.) fyrir því á nýju þingi. Ég vona að hv. þingmenn sameinist um að afgreiða slíka tillögu.