142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég ákvað að kveðja mér hljóðs undir þessum lið er sú að fylgja eftir fundi sem við þingmenn Norðausturkjördæmis áttum í gær með fulltrúum Eyþings vegna almenningssamgangna. Þar hafa komið fram vandkvæði þar sem tekjur standast ekki áætlanir sem gerðar voru. Það var svo sem ljóst snemma á árinu en vegna kosninga var ákveðið að bíða og þar sem sumarið er auðvitað stærsti tekjupósturinn var ákveðið að láta á það reyna. Nú er komið í ljós að ekki er til nægt fjármagn til að halda úti þessum lið, þ.e. þessari þjónustu. Fulltrúar Eyþings hittu okkur þingmenn annars vegar og hins vegar innanríkisráðherra og ég veit að þeir voru á fundi vegamálastjóra í morgun.

Almenn ánægja er með umrædda þjónustu. Hún býður upp á aukin lífsgæði á landsbyggðinni sem og á stórhöfuðborgarsvæðinu. Aðgengi að skólum og heilbrigðisþjónustu verður betra, en við þurfum að gera betur til að þetta geti gengið.

Almenningssamgöngur eru hluti af grænni pólitík og það er okkar hér að marka þá stefnu að auka hlutdeild almenningssamgangna með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þess vegna er afar mikilvægt að sú vinna sem nú þegar hefur farið fram nái að þróast áfram. Svona verkefni, eins og við vitum, þarf fjögur, fimm ár til að festa sig í sessi. Það þýðir auðvitað aukið fjármagn til að tryggja þá þróunarvinnu.

Spurning mín til hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar er því hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því í nefnd sinni núna við undirbúning fjáraukalaga að sjá til þess að hægt sé að halda úti þessum leiðum Eyþings, sem skipta svo gríðarlega miklu máli fyrir marga, eða hvaða aðra leið hann sjái til þess að leysa úr þeim vanda sem við blasir.

Ljóst er að fara þarf yfir þessi mál í heild sinni. Önnur landshlutasamtök vilja einnig halda vinnunni áfram og þá spyr ég að auki hvort þingmaðurinn ætli að beita sér fyrir því að nefndin taki upp á sína arma hvað varðar framlög hins opinbera (Forseti hringir.) þannig að almenningssamgöngur í hinum dreifðu byggðum geti haldið áfram að eflast og verða raunverulegur valkostur.