142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er kraftur og vilji í fólkinu og fyrirtækjunum í landinu. Því kynntist ég í sumar þegar ég ferðaðist um Suðurkjördæmi og Vesturland og í Kraganum. Það er ánægjulegt að sjá hve víða er mikill vilji til að taka til hendinni og koma atvinnulífinu í gang. Við verðum að rjúfa stöðnun undanfarinna ára og standa saman um það. Þess vegna fagna ég sérstaklega orðum formanns Samfylkingarinnar þegar hann segir að við verðum rjúfa stöðnun undanfarinna ára og nýta tækifærin, byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og almenna velsæld. Undir það hljótum við öll að geta tekið undir.

Við vitum að settur var fleygur fyrir hjól atvinnulífsins. Nú þurfum við að losa hann og koma því af stað.

Það var afar skemmtilegt að koma í fyrirtækið Feng í Hveragerði þar sem stuðlað er að nýsköpun á ýmsum sviðum. Þar eru verkefni sem eru að fara út úr því húsi og út á land og munu skapa fjölda starfa og tækifæra í landbúnaði, í sjávarútvegi. Þau störf munu telja og skipta miklu máli.

Við fórum einnig upp á Akranes þar sem við kynntum okkur starfsemi Skagans og Skipasmíðastöðvar Ellerts og Þorgeirs og var afar ánægjulegt og merkilegt að koma þangað. Þau fyrirtæki eru að gera stórkostlega hluti. Þar verður hægt að smíða skip í framtíðinni og núna þegar við höfum komið til móts við atvinnulífið og fjárfestingar í sjávarútvegi fara af stað þarf að nota þetta íslenska hugvit og þessi íslensku fyrirtæki.

Við, hv. þingmenn, þurfum að senda skilaboð til fólksins um jákvæða stöðu fram undan og jákvætt líf, um að við ætlum að standa saman að því að efla atvinnulífið og heimilin.