142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera námslán að umtalsefni hér. Nú er háskólanám hafið og fólk byrjað að takast á við námsefni annarinnar. Í upphafi þessarar viku voru 5.579 nemendur sem höfðu sótt um námslán þessa önn. Vinna þessa fólks er hafin til að eiga rétt á námslánum í lok annar. Fyrirhugað er að hækka námslán um 3%, sem er virkilega jákvætt. Samt sem áður eru lán til námsmanna enn undir 150 þús. á mánuði, sem er að mínu mati óásættanlegt í ljósi þess að atvinnuleysisbætur eru yfir 170 þús. og munurinn nálgast 25 þús. kr.

Framtíð margra veltur á þessum lánum. Nám er skipulagt út frá námslánum og námsframvindu. Reglubreytingar sem áttu að taka gildi fyrir þessa önn setja skipulag námsmanna úr skorðum eins og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur komst að. Innritun var löngu hafin, búið að greiða skólagjöld, drög gerð að stundarskrám og margt fleira.

Nú er að ljúka þriðju viku námsannarinnar. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að áfrýja ekki dómi Héraðsdóms Reykjavíkur því að breyting á námsframvindu afturvirkt gæti haft slæmar afleiðingar fyrir háskólanema landsins. Einnig hvet ég Lánasjóð íslenskra námsmanna til að hlíta dómnum þar til annað verður kveðið upp.