142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarið hefur farið þó nokkuð fyrir fréttum af því í fjölmiðlum að stór sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi hafi hagnast vel. Það er gott að athygli sé vakin á því en þetta hefur verið sett í samhengi við lækkun veiðigjalda, sem er kórvilla vegna þess að sérstök veiðigjöld allra þessara fyrirtækja hafa hækkað fyrir atbeina stjórnarmeirihlutans sem nú situr og reyndar gegn vilja minni hlutans.

Litla sem enga athygli hefur frétt af hagnaði stærsta verslunarfyrirtækis á Íslandi fengið, sem hagnaðist um 3 milljarða kr. í fyrra í krafti 60% markaðshlutdeildar á Íslandi. Þessi hagnaður er sannarlega sóttur beint í vasa viðskiptavina, þessi hagnaður er sóttur beint í heimilisbókhald heimilanna í landinu. Það hlýtur að vera athugunarefni fyrir stjórnvöld að opna umræðu um verðmyndun á markaði á Íslandi vegna þess að verðmyndun á Íslandi er algjörlega lokuð bók. Það eru um það bil 30 ár síðan verðmyndun á Íslandi var gefin frjáls og ég fæ ekki betur séð en að menn hafi brugðist því trausti, þeir höndla ekki að búa við frjálsa og óhefta álagningu samkvæmt þeirri niðurstöðu.

Því hvet ég til þess að menn íhugi alvarlega að opna umræðuna og opna leiðina að verðmyndun á markaði á Íslandi. (SII: Efla Samkeppniseftirlitið.)