142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

störf þingsins.

[10:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á svari hæstv. fjármálaráðherra við fyrirspurn um tekjulækkun ríkissjóðs sem dreift var á mánudaginn. Þar svarar hæstv. fjármálaráðherra með skýrum hætti þannig að enginn þarf lengur að efast um þá upphæð. Tekjulækkunin er 11,5 milljarðar kr. í ár og á því næsta. Fyrir þá upphæð má reka allar heilbrigðisstofnanir á Patreksfirði, Vestfjarða, Blönduósi, Sauðárkróki, Fjallabyggð, Þingeyinga, Austurlands, Suðausturlands, Vestmannaeyja, Suðurlands og Suðurnesja.

Í umræðunni í gær talaði hæstv. fjármálaráðherra um að brúa þyrfti 30 milljarða gat. Reyndar hefur hæstv. forsætisráðherra talað um 30–50 milljarða gat, þeir verða væntanlega búnir að koma sér saman um töluna fyrir framlagningu fjárlagafrumvarpsins. Ástæður stöðunnar eru sagðar vera minni hagvöxtur en ætlaður var, lægri tekjur en ætlaðar voru og aukin útgjöld. Þess vegna verði að skera niður í velferðarkerfinu og það hljóti allir að sjá og skilja.

Kjör allra versnuðu við efnahagshrunið sem varð fyrir stórkostleg hagstjórnarmistök fyrri ríkisstjórna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Landsframleiðsla dróst saman og fall krónunnar rýrði kjör almennings umtalsvert. Með forgangsröðun sjálfstæðismanna og framsóknarmanna eru auknar byrðar lagðar á herðar þeirra sem þurfa á velferðarþjónustunni að halda en þeim gefinn afsláttur sem hafa hagnast á falli krónunnar.

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hægri stjórnin sé að afsala sér tekjum og gera aukinn niðurskurð á velferðarþjónustu nauðsynlegan til að skapa rými fyrir einkarekstur í mennta- og velferðarkerfinu.