142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að flytja Alþingi munnlega skýrslu um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Mér finnst mikilvægt að gera Alþingi sérstaka grein fyrir þeim skrefum sem ríkisstjórnin hefur stigið á undanförnum vikum í krafti nýrrar stefnumörkunar í þessu máli. Utanríkismálanefnd hefur verið upplýst sérstaklega á fundum yfir sumartímann. Það er hins vegar eðlilegt að gefa einnig tækifæri til umræðu um þetta í þingsal.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er með jákvæða og metnaðarfulla sýn í Evrópumálum. Við viljum hafa samstarf við ESB sem öflugast. Við viljum að Ísland sé sýnilegt í því samstarfi á jafningjagrundvelli og leggi sinn málstað sterkt að mörkum í mótun þeirra reglna sem við yfirtökum frá Evrópusambandinu. Á minni vakt verða samskiptin við ESB meðal helstu atriða í forgrunni. Fyrst af öllu er mikilvægt að halda því til haga að samskipti Íslands við ESB standa traustum fótum, enda hefur okkur á liðnum árum og áratugum lánast að byggja varanlega umgjörð um farsælt samstarf á nánast öllum sviðum og ber EES-samstarfið þar hæst. Við viljum gera okkur enn frekar gildandi og sýnileg í því samstarfi sem við eigum við ESB, útvíkka það enn frekar og færa inn á ný svið.

Þannig hef ég einsett mér að efla og treysta þessi samskipti sem mest þótt aðildarviðræður hafi verið settar í hlé. Þennan vilja okkar til frekara samstarfs hef ég rætt við félaga mína innan Evrópusambandsins, m.a. tekið upp við stækkunarstjórann og aðra þá sem ég hef hitt. Það er í þágu hagsmuna Íslands og Evrópusambandsins að byggja frekar ofan á þær styrku stoðir sem nú þegar eru til staðar. Þannig, eins og ávallt, er ég viss um að gera megi betur og láta rödd Íslands hljóma enn hærra í þessu samstarfi. Munum við kappkosta að greina tækifærin og nýta enn frekar til hagsbóta íslenskum hagsmunum.

Virðulegi forseti. Ég vil að við stundum sterka og sýnilega hagsmunagæslu innan EES og í tengslum við aðra þá samninga sem við höfum gert við Evrópusambandið. Það kallar á mannafla og viðveru í Brussel. Tillögur í þessa veru eru á teikniborðinu frá minni hendi. Þá reynir á þann vilja sem þingið sjálft hefur sýnt í þessa veru, samanber þingsályktun frá fyrra vori. En ég horfi einnig til þess að styrkja tvíhliða samstarf og samskipti við Evrópusambandið. Tengsl okkar við sambandið bjóða upp á eflingu slíks samstarfs á sviðum sem eru utan EES. Hef ég til dæmis þegar nefnt það við stækkunarstjórann að ég sjái fyrir mér aukið samstarf á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, orkumála, friðargæslu, þróunarsamvinnu og norðurslóða svo einstök brýn mál séu nefnd. Hvar sem við komum finnum við fyrir miklum áhuga á tvíhliða samstarfi við Ísland og í því felast mikilvæg tækifæri.

Nú langar mig að víkja að upphafi aðildarferlisins. Frá því í byrjun hefur margt verið gagnrýnt. Ekki var einhugur innan þáverandi ríkisstjórnar um aðildarumsókn og var sú óeining upphafið að vandræðaganginum. Að sækja um aðild var ekki lítil ákvörðun. Þarna var um gríðarstóra ákvörðun að ræða af Íslands hálfu og var hún tekin án þeirrar samstöðu og sannfæringar sem hefði þurft að vera til staðar. Það sannaðist einnig þegar leið á hve veikur grundvöllurinn var, orkan fór í samninga milli og innan stjórnarflokkanna fremur en efnislegar samningaviðræður við Evrópusambandið.

Af því leiddi að við lok kjörtímabils höfðu ekki enn hafist samningar um mörg lykilatriði í ferlinu. Mér er til efs að á þessum grunni hefði verið hægt að leiða til lykta stærstu hagsmunamálin í ferlinu. Hagsmunirnir voru einfaldlega of stórir miðað við málatilbúnað og umgjörðin var vanbúin. Vissulega er rétt að það náðist að opna flesta kaflana, og sumir þeirra vörðuðu mikilvæg atriði. Einnig náðist að loka mörgum köflum. Þegar grannt er skoðað eru lokuðu kaflarnir hins vegar meira og minna mál þar sem þegar var til staðar djúpt samstarf við Evrópusambandið og því fyrir fram vitað að tiltölulega einfalt yrði að klára. Það verður ekki heldur horft fram hjá því að Evrópusambandið notaði síðan þetta ferli til að reyna að knýja fram samninga í öðru óskyldu máli — makríl. Slíkt högg er langt fyrir neðan beltisstað og veit ég að þeirri skoðun deilum við fyrrverandi utanríkisráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson.

Virðulegi forseti. Lagt var upp í þessa vegferð á miklum óvissutímum hér á landi, staða okkar var ekki sterk. Það reyndust ekki bara óvissutímar hér á landi, heldur ekki síður innan Evrópusambandsins. Sambandið hefur háð snarpan bardaga við efnahagskrísu sem það virðist sem betur fer vera að komast út úr hægum skrefum. Óvissa hefur ríkt um framtíð evrunnar — lifir hún eða lifir hún ekki? Ísland hefur hagsmuni af stöðugri og efnahagslega sterkri Evrópu og við fögnum við því mjög ef evran og Evrópusambandið koma standandi í báða fætur út úr erfiðleikunum. Á hinn bóginn benda ýmis viðbrögð við efnahagskreppunni til þess að Evrópusambandið muni dýpka sitt samstarf sem kallar á meira framsal valds frá aðildarríkjunum til Brussel. Saga samrunans í Evrópu á síðustu áratugum kennir okkur einmitt það að efnahagskrísur hvers konar sem upp hafa komið með reglulegu millibili hafa nokkrum missirum síðar valdið ófyrirséðum samruna á kostnað lýðræðisins. Það er gegn ríkjandi viðhorfum hér á landi og hjá sumum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Enn virðist nokkuð í land með að traustri lendingu sé náð með framtíð evrunnar. Undir slíkum kringumstæðum er ábyrgðarlaust að halda áfram ferlinu.

Virðulegi forseti. Afstaða beggja stjórnarflokkanna er skýr. Flokkarnir leggjast gegn aðild að Evrópusambandinu. Landsfundir beggja flokka samþykktu að ef halda ætti ferlinu áfram yrði það eingöngu gert að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Fólk getur treyst því að ekki verður haldið áfram viðræðum nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna á ekki að koma á óvart að flokkarnir hafi ákveðið að gera hlé á viðræðunum. Á sama tíma var tekin ákvörðun um að fá sérfræðiúttekt á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan Evrópusambandsins. Þetta síðarnefnda er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að vísbendingar eru um enn sterkari samrunaþróun innan sambandsins og áfram óvissu í efnahagsmálum.

Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið í samræmi við þessa skýrt mörkuðu stefnu sem hlaut brautargengi í kosningunum í vor. Við höfum gengið ákveðið til verks. Mitt fyrsta verk á erlendri grundu var að funda með stækkunarstjóra ESB í byrjun júní og stuttu síðar fundaði forsætisráðherra með forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins og forseta framkvæmdastjórnarinnar. Svo má geta þess að í síðustu viku átti ég óformlegt samtal við stækkunarstjórann á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna.

Við höfum í þessum samtölum skýrt fyrir gagnaðilum okkar í ESB að viðræður hafi verið settar í raunverulegt hlé, það beri að taka þessa ákvörðun alvarlega. Við höfum nú leyst upp samninganefnd og -hópa og ekki verða fleiri ríkjaráðstefnur haldnar. ESB hefur ákveðið að ekki verði um frekari nýja IPA-styrki að ræða o.s.frv. Engar skemmdir hafa verið unnar á einu eða neinu, aðildarumsókn hefur ekki verið afturkölluð, engu hefur verið slitið. Þannig hefur verið staðið að þessu máli öllu í góðri sátt við gagnaðila okkar enda bera viðbrögð Evrópusambandsins ekki merki annars en að sambandið hafi fullan skilning á ákvörðun okkar um hlé á aðildarferlinu.

Virðulegi forseti. Af þessu má ráða að ríkisstjórnin hefur í störfum sínum fylgt ákveðið eftir stefnumiði sínu. Það er í samræmi við ályktanir flokkanna sem unnu afgerandi kosningasigur í vor. Jafnframt standa yfir viðræður við óháða háskólastofnun, nánar tiltekið Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, um gerð þeirrar úttektar sem boðuð var. Hagfræðistofnun mun án efa leita fanga víða, innan lands sem utan, við vinnslu skýrslu sinnar. Sú úttekt verður svo tekin til umræðu í þinginu og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki er tímabært að velta fyrir sér framhaldi aðildarferlisins fyrr en skýrslan hefur verið gerð en málefnaleg og rökföst umræða mun án efa eiga sér stað innan þingsins um efni hennar og hlakka ég mjög til þess.

Virðulegi forseti. Að lokum þetta. Ég virði sjónarmið þeirra sem telja að hag Íslands kunni að vera betur borgið innan ESB. Ríkisstjórnin er einfaldlega ekki sammála þeim og þar skilur á milli. Ég tel að í svo viðamiklu máli sem þessu sé alger forsenda að stuðningurinn sé almennur og samtakamátturinn sterkur. Á það hefur frá upphafi skort. Það þarf drjúgan stuðning þings og þjóðar áður en lagt er af stað í viðræður um aðild að ríkjabandalagi sem kallar á ákveðnar grundvallarbreytingar á stjórnskipan okkar. Núverandi ríkisstjórn styður ekki aðild og sterkar vísbendingar eru um að þjóðin sé sama sinnis.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er einhuga í þessu máli. Hlé hefur verið gert á ferlinu, engu hefur verið slitið og við viljum efla samskipti og treysta sambandið við Evrópusambandið án þess að til aðildar að bandalaginu komi.