142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu eins og aðrir sem hafa tekið til máls og þakka sérstaklega fulltrúum stjórnarandstöðunnar úr utanríkismálanefnd sem hér hafa talað fyrir ágætar ræður, hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir málefnalega og góða ræðu þó að ég sé ekki sammála öllu sem þar kom fram og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir líflega ræðu sem var ekki endilega nákvæm í öllum þeim atriðum sem mestu máli skipti og hann gerði mest úr. Þar vildi ég sérstaklega nefna að tilvitnanir hans til stefnu flokka og yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar voru býsna ónákvæmar. (Gripið fram í.) Þess vegna ætla ég að lesa upp þá texta sem hann vísaði til þannig að þeir komi réttir í þingtíðindi en ekki í þeirri útgáfu sem hv. þingmaður hafði uppi í máli sínu.

Í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokks segir um það mál sem hér er til umræðu, með leyfi forseta:

„Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið.

Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í ályktun flokksþings Framsóknarflokksins í vetur er með sama hætti áréttað að flokkurinn telji að betra sé að standa utan ESB og segir um aðildarviðræður:

„Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem sérstaklega var vitnað til er byggt á þessu orðalagi flokksþinganna tveggja og sagt:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna er getið um nokkra mismunandi liði. Hvar erum við stödd? Við erum stödd á þeim stað að búið er að stöðva viðræður, gera hlé eins og menn vilja orða það af því að viðræðunum hefur réttilega ekki verið slitið. Það hefur verið gert hlé eins og talað var um. Það eiga sér ekki stað viðræður við Evrópusambandið á þessari stundu um aðild Íslands. Pólitískum og tæknilegum viðræðum hefur verið hætt eins og segir í stjórnarsáttmálanum og eins og gert var ráð fyrir í landsfundarsamþykktum flokkanna.

Utanríkisráðherra boðar hér í ræðu sinni að hann vinni að gerð samnings við háskólastofnun um gerð þeirrar skýrslu sem líka er talað um í stjórnarsáttmálanum. Þegar sú skýrsla kemur fram þá liggur fyrir samkvæmt stjórnarsáttmálanum að málið komi til umfjöllunar og umræðu á Alþingi. Þá blasa náttúrlega við nokkrir mismunandi kostir. Ég veit að í þessum sal eru talsmenn mismunandi kosta í því sambandi.

Einn kosturinn er sá að gera eins og sumir hafa rætt í þessari umræðu, að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu sem nemi úr gildi þingsályktunartillöguna frá 16. júlí 2009. Það er hægt. Í kjölfarið væri eðlilegt að senda Evrópusambandinu bréf um það að Ísland segði sig formlega frá viðræðunum. Það er formlegt skref sem unnt væri að stíga eftir umfjöllun Alþingis. Sá möguleiki er líka fyrir hendi að láta nægja í þingsályktunartillögu af slíku tagi að segja að Alþingi styðji þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera hlé á viðræðum. Það er líka hægt að gera það þannig. Þá lýsti, eftir umfjöllun Alþingis og eftir þá skýrslugerð sem nú hefur verið boðuð, Alþingi stuðningi sínum við þá aðgerð sem þegar hefur átt sér stað. Bara til að nefna það hér þá tel ég að það sé í fullu valdi utanríkisráðherra stjórnskipulega séð að gera hlé, leysa samningahópa upp, færa menn til annarra starfa innan ráðuneytis o.s.frv. Ég held að enginn geti efast um það að ráðherra hefur slíka stjórnskipulega heimild.

Þriðji möguleikinn sem blasir við eftir skýrslugerð og umfjöllun Alþingis væri sá sem ég veit að sumir í þessum sal vilja, að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins.

Þeir valkostir sem ég nefndi eru á borðinu. Það hefur ekki verið tekin formleg ákvörðun um neinn þeirra, ekki um þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki um að slíta viðræðum, ekki um neinn þessara kosta. Ríkisstjórnin hefur boðað leið og farveg fyrir málið að þessu marki, að þeim punkti að við hér í þinginu tökum afstöðu til mismunandi kosta að þessu leyti. Við erum búin að stíga skrefið sem talað var um, að gera hlé á viðræðum. Þeim var hætt de facto þó að enn sé um að ræða formlega stöðu Íslands sem aðildarríkis.

Í annan stað er í pípunum sú skýrslugerð sem ráðherra hefur boðað og ég held að allir sem hafa komið að málinu á borði ríkisstjórnarflokkanna leggi mikið upp úr og bindi miklar vonir við að verði greinargóð og geti orðið góður grundvöllur umræðu og ákvarðanatöku á næstu stigum máls. Þegar skýrslan liggur fyrir og þegar umræða á grundvelli hennar hefur farið fram í þinginu verður ljóst hvernig við tökum lokaskrefið í þessu ferli, hvort það verður gert með því að slíta viðræðum, staðfesta hlé, þá til lengri tíma en nokkurra mánaða, eða með því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru þeir kostir sem eru í stöðunni.

Ég vil hins vegar segja það sem mína persónulegu skoðun að hvað sem líður öllum þessum einstöku liðum í ferlinu og tæknilegum atriðum í þessu sambandi þá held ég að okkur megi öllum vera ljós sá pólitíski veruleiki sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á í ræðu sinni hér í upphafi. Auðvitað er staðan sú að það er fráleitt að ætlast til þess af ríkisstjórn og þingmeirihluta sem vill ekki inn í ESB að slíkur meiri hluti í þinginu og slík ríkisstjórn klári aðildarviðræður. Nógu erfitt var það fyrir síðustu ríkisstjórn sem gekk til þess verks klofin. Hluti hennar vildi inn í ESB, hluti hennar vildi það alls ekki. Hluti hennar var einhvers staðar mitt á milli, vildi viðræður en ekki aðild. Það er sjónarmið. En það var nógu erfitt fyrir þá ríkisstjórn að tryggja þann pólitíska bakgrunn og þann pólitíska stuðning við viðræður að þær skiluðu einhverju áleiðis. Eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti í ræðu sinni gerðist það á þeim tíma frá 2009–2013 að samningum var lokið um kafla sem allir gengu út frá í upphafi að yrðu afgreiddir nánast með undirskrift og pennastriki, kafla sem við erum hvort sem er aðilar að af því að við erum í EES. Það var á þeim þremur árum sem liðu frá því að formlegar samningaviðræður byrjuðu og þangað til þeim var hætt nú í sumar að hluti þeirra kafla, sem alltaf hefur verið sagt að við værum hvort sem er aðilar að, sem aðilar að EES, var kláraður en ekki allir. Svo talar Vinstri hreyfingin – grænt framboð um það að á einu ári eigi að klára erfiðu kaflana þegar það tók þrjú ár að klára hluta léttu kaflanna.

Í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum eru ekki byrjaðar neinar viðræður. Á sviði landbúnaðarmála eru menn búnir að skiptast á einhverjum stefnuplöggum en það eru engar viðræður byrjaðar. Ekkert er að gerast í sjávarútvegsmálunum. Þetta eru punktarnir sem allir vissu frá upphafi að yrðu erfiðu punktarnir. Ég get ekki skilið annað en Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi með þeirri landsfundarályktun sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson vitnaði í eingöngu verið að ná sér í tímabundna fjarvistarsönnun fram yfir kosningar með orðalaginu. En ég held auðvitað að þeim sem setið hafa í þessum málum af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi verið ljóst að miðað við gang viðræðnanna frá 2009–2013 væri algerlega óraunhæft hvort sem er að klára viðræðurnar á einu ári. Þetta var bara leikaraskapur, hæstv. forseti.

Ég ætla ekki að fara lengra í þessu efni, hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvernig ég sé þetta mál fyrir mér. Ég held að í samræmi við orðalag stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sé hægt að leiða málið í góðan farveg. Ég veit ekki hvort við náum samstöðu hér í þinginu en ég held að við ættum hins vegar ekki að þurfa að karpa um smáatriði eða fara í hártoganir um orðalag þegar við stöndum frammi fyrir þessu verkefni eins og það liggur fyrir samkvæmt stjórnarsáttmálanum.