142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að lýsa vonbrigðum mínum með ákveðinn hluta stjórnarsáttmálans þó að ég sé aðili að öðrum þeirra flokka sem sitja í stjórn. Það er nefnilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er stór og þar eru skoðanir skiptar. Þingfélagi minn, hv. þm. Birgir Ármannsson, las upp úr landsfundarsamþykkt þar sem aðild að Evrópusambandinu var hafnað. En skoðanir í flokknum eru skiptar, meiri hluti og minni hluti, og ég er í minni hluta þar.

Ég tel að sú leið sem hér hefur verið farin, sem ég átta mig ekki almennilega á og er nú kölluð frestun á aðildarferli, sé ekki í samræmi við það þingræði sem ég tel að eigi að ríkja hér á landi. Ég fletti upp í stjórnskipunarfræðum í riti dr. Gunnars G. Schrams, og ætla, með leyfi forseta, að lesa örstutt úr því, það sem sagt er um þingsályktanir:

„Þingsályktanir eru samþykktir Alþingis. Til þeirra þarf ekki atbeina forseta. Þær fela fyrst og fremst í sér yfirlýsingar Alþingis en geta skipt máli sem réttarheimild.“

Síðan vísar prófessorinn og fyrrverandi hv. þingmaður, til nokkurra þingsályktunartillagna eins og ályktana um meðferð konungsvalds frá 1940, ályktana Alþingis um frestun alþingiskosninga frá 1941 og aftur um kosningu ríkisstjóra á sama ári.

Ég tel rétt að sú leið hefði verið farin að þingið hefði tekið þessa ákvörðun því að ríkisstjórnin situr þó alltént í skjóli þingsins. Hún hefur ekki sjálfstætt vald, hún framfylgir samþykktum Alþingis og Alþingi tók ákvörðun árið 2009, ef ég man rétt. Að vísu voru skoðanir skiptar en eftir að hafa kynnt mér nefndarálit meiri og minni hluta finnst mér þessar skoðanir merkilega líkar. Í álitunum kemur fram mismunandi áhersla á hagsmunagæslu, sem ég held að allir hafi reiknað með, en eftir að hafa kynnt mér fleiri samþykktir að alþjóðastofnunum, eins og aðild Íslands að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum — þær voru samþykktar hér umræðulaust árið 1944. Aðildin að EFTA er ekki samþykkt með atkvæðum stjórnarþingmanna einna heldur fjögurra þingmanna stjórnarandstöðu. Einn flokkur var á móti, annar flokkur sat hjá. Ég spurði einn þingmann úr þeim flokki um þá atkvæðagreiðslu og hann sagði: Ég man ekki hvernig ég greiddi atkvæði en ég man að ég var dreginn út í einhverja vitleysu sem ég skammast mín alltaf fyrir. Og það var hjáseta.

Ég held að enginn efist um að aðild Íslands að þeim alþjóðasamtökum sem við höfum tekið þátt í, þ.e. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum, Sameinuðu þjóðunum, NATO, EFTA og EES, hafi haft víðtæk áhrif hér á landi í áttina fram á við. Ég er þeirrar skoðunar að sá samningur sem gerður var 1991, 1992, og kallast samningur um Evrópskt efnahagssvæði, EES, sé bráðabirgðaaðgerð byggð á undirbúningi fyrir allt aðrar þjóðir, þ.e. Austurríki, Finnland og Svíþjóð, en vegna hruns Sovétríkjanna breyttust aðstæður í Evrópu. Ég tel að þessi samningur, sem er orðinn 20 ára gamall, þarfnist endurskoðunar af ýmsum ástæðum. Hér hafa verið nefnd ýmis fullveldisákvæði, stjónarskrárákvæði, og það er nú þannig að til þess að vera sjálfstæð þjóð þarf stundum að taka ákvarðanir sem fela í sér ákveðið fullveldisafsal til að vera með öðrum þjóðum. Það er engin uppgjöf. Fullkomið sjálfstæði án samskipta við aðrar þjóðir er ekki til lengur.

Ég segi líka að ýmsar þær atvinnugreinar sem menn hafa mestar áhyggjur af, eins og sjávarútvegur og landbúnaður, séu í býsna undarlegri stöðu. Sjávarútvegurinn er í þeirri undarlegu stöðu að hann nýtur allra réttinda innan Evrópusambandsins og íslenskir aðilar eiga meira að segja aðild að flestum veiðiheimildum Evrópusambandsins, alla vega þýskum veiðiheimildum. Landbúnaður á Íslandi er í erfiðri stöðu, í svona sjálfstýrðri erfiðri stöðu, þar sem enginn vill takast á við vandann eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrr í morgun. Ég tel að full þörf sé á að takast á við þann vanda, meðal annars í þessu aðildarferli.

Varðandi myntina er það nú þannig að hægt er að kjósa um mynt. Eitt prósent íslenskra fyrirtækja hefur kosið sér aðra mynt en íslenska krónu. 300 íslensk fyrirtæki af 30.000 hafa valið sér að aðra mynt. Samkvæmt lauslegri athugun minni er að sama skapi ekki um að ræða 1% af veltu íslenskra fyrirtækja heldur 30% af veltu íslenskra fyrirtækja. Þetta eru fyrst og fremst sjávarútvegsfyrirtæki, orkufyrirtæki, flutningafyrirtæki, fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum þar sem starfrækslumyntin er talin tekjuhlutinn.

Ég tel að ýmislegt gerist hægt og bítandi, eins og í landbúnaði, hnignun landbúnaðarins. Íslensk fyrirtæki munu velja sér aðra mynt en við, alþýðan, sitjum eftir með íslenska krónu sem verður notuð lausbeisluð til að fella gengið eftir þörfum. Mér geðjast ekki að því að hér verði láglaunaland með gengisfellingum og að árangur í ferðaþjónustu þakki menn lágu gengi.

Ég ætla að minna þingheim á orð sem þáverandi forsætisráðherra lét hafa eftir sér árið 1969 eða 1970. Þáverandi forsætisráðherra, dr. Bjarni Benediktsson, sagði að efnahagslegir erfiðleikar áranna þar á undan hefðu átt ríkan hlut til hvatningar — þ.e. til aðildar að EFTA.

Ég tel að ríkisstjórnin hefði átt að fara þá leið að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um að snúa við fyrri þingsályktun. Ég geri mér grein fyrir því hver niðurstaðan hefði orðið en því miður var önnur leið farin og ég er ekki sammála henni.