142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:39]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Tækifæri okkar Íslendinga eru á mörgum sviðum. Við erum rík þjóð, rík af auðlindum sem mikil þörf verður fyrir í framtíðinni. Við eigum nóg af hreinu vatni, grænni orku, hugsanlega olíu og síðast en ekki síst erum við mjög framarlega í matvælaframleiðslu. Lega landsins er eftirsóknarverð fyrir Norður-Íshafssiglingar. Þar liggja gríðarleg tækifæri í framtíðinni sem við Íslendingar þurfum að vera vel vakandi yfir.

Þar sem við erum fámenn þjóð og rík af auðlindum tel ég hag okkar betur borgið utan ESB en innan þess. Afstaða núverandi stjórnarflokka er skýr eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gerði góða grein fyrir áðan. Á landsfundum sínum fyrr á þessu ári ályktuðu stjórnarflokkarnir að hag Íslands væri betur borgað utan ESB en innan þess. Í stjórnarsáttmálanum kemur skýrt fram að hlé verði gert á aðildarferlinu og það þarf ekkert að „afsaka það neitt“. Hléið er gert í góðri sátt við ráðamenn innan ESB. Þar er fullur skilningur á afstöðu okkar Íslendinga.

Næsta skrefið er að fá sérfræðiúttekt um stöðu viðræðnanna og stöðu mála innan ESB. Óháð stofnun mun gera þessa úttekt, eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar og verður úttektin væntanlega gerð af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þegar sú úttekt liggur fyrir verður hún kynnt fyrir þjóðinni allri og rædd á Alþingi. Þetta þykir mér sanngjörn og skynsamleg leið.

Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þessa aðferðafræði harðlega, jafnvel reynt að halda því fram að hæstv. utanríkisráðherra hafi nánast upp á sitt einsdæmi slitið viðræðunum við ESB. Það er ekki rétt og þeir ágætu samstarfsmenn mínir sem hafa haldið þessu fram vita auðvitað betur. Viðræðunum hefur ekki verið slitið. Öll vinnan sem unnin hefur verið í kringum þetta ferli er og verður til. Ekkert hefur verið eyðilagt eða afturkallað og engu slitið.

Stjórnarandstaðan hefur einnig gagnrýnt harðlega að utanríkisráðherra fylgi ekki þingsályktunartillögu Alþingis frá 2009 um aðildarviðræður við ESB. Hæstv. utanríkisráðherra lét vinna lögfræðilegt álit um gildi þingsályktunartillagna. Niðurstaða álitsins var skýr, með leyfi forseta, um að „þingsályktanir sem ekki byggjast á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá bindi stjórnvöld ekki umfram það sem af þingræðisvenjunni leiðir“.

Það segir sig líka eiginlega sjálft að ef þingsályktanir væru algerlega bindandi gætu ríkisstjórnir á hverjum tíma dælt út þingsályktunartillögum, bundið þar með næstu ríkisstjórn og ákveðið þannig stefnu næstu ríkisstjórnar.

Núverandi þingmeirihluti fékk umboð frá kjósendum nú í vor til að stýra landinu. Fólkið í landinu kaus ríkisstjórnaflokkana út á stefnu þeirra, alls ekki út af stefnu síðustu ríkisstjórnar, það er alveg ljóst.

Ég vil einnig nefna að hæstv. utanríkisráðherra hefur upplýst utanríkismálanefnd reglulega um gang mála varðandi ESB og önnur utanríkismál. Hann hefur tekið saman greinargóð gögn fyrir nefndina og mætt á fundi hennar þegar þess hefur verið óskað og svarað spurningum nefndarmanna skilmerkilega. Þannig hefur samvinna og samstarf utanríkismálanefndar og hæstv. ráðherra verið mjög gott.

Það að hefja aðildarumsókn að Evrópusambandinu er stór ákvörðun. Hagsmunir þjóðarinnar eru stórkostlega miklir. Öll framtíðin er lögð að veði. Slíkar ákvarðanir verður að byggja á sterkum grunni. Síðasta ríkisstjórn var alls ekki einhuga um að Íslendingar ættu að sækja um aðild að ESB. Það mætti meira að segja fullyrða að fullkomin óeining hefði ríkt á milli þáverandi stjórnarflokka. Þingmeirihlutinn sem náðist um þessa ákvörðun byggðist á pólitískum hrossakaupum.

Einhugur verður að ríkja, ekki bara á milli stjórnarflokka þegar svo stórar ákvarðanir eru teknar, heldur verður einnig að vera eining milli þings og þjóðar.

Aðildarferlið kostar mikla peninga. Nú spyr ég: Viljum við, á tímum þar sem grunnþjónusta okkar á undir högg að sækja, svo sem löggæsla og heilbrigðisþjónusta, eyða milljónum í aðildarumsókn að ESB? Mitt svar er: Nei, það vil ég ekki.

„Ég vil bara fá að kíkja í pakkann svo ég geti myndað mér skoðun.“ — Þessi setning heyrist oft og þá á fólk við að það vilji klára aðildarviðræðurnar við ESB áður en gengið verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Ég skil þessa afstöðu í sjálfu sér, en ESB lítur ekki svona á málið. Evrópusambandið lítur þannig á að þegar ríki sækja um aðild og aðildarviðræður hefjast ætli ríkin sér að ganga í sambandið með kostum þess og göllum. Það er ekkert til sem heitir að „kíkja í pakkann“. Slíkur pakki er líka ansi dýr, eins og ég hef þegar bent á, og við (Forseti hringir.) höfum ekki efni á honum.

Framtíð Evrópusambandsins er lituð af óvissu. Evran er ekki traustur gjaldmiðill. Traustari en krónan, segja sumir, en ég læt það liggja á milli hluta. Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það eins og staðan er núna. Evrópusambandið á við risavaxin vandamál að etja. (Forseti hringir.) Evrópusambandið leysir ekki öll okkar vandamál. Við verðum að leysa okkar vandamál sjálf og það ætlar þessi ríkisstjórn að gera.

Framtíð Íslands felst í samvinnu, (Forseti hringir.) samvinnu Íslendinga og annarra þjóða, þjóða beggja vegna Atlantshafsins.