142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Evrópumál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir ágæta og málefnalega umræðu. Ég fagna því að við ræðum um aðild Íslands að ríkjabandalagi eins og Evrópusambandinu. Mér finnst að við höfum rætt það allt of lítið. Við eigum að ræða það miklu meira vegna þess að við eigum enn eftir að taka grunnumræðuna. Það er svo furðulegt að við erum, held ég, eina þjóðin í Evrópu — ég hygg að engar aðrar þjóðir hafi sótt um aðild að Evrópusambandinu en þær sem eru í Evrópu … [Hlátur í þingsal.] — Ja, hv. þingmenn hlæja. Menn deila nú um það hvar Tyrkir eru, en látum það liggja á milli hluta. En við fórum hins vegar þá leið að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og nú er ég bara að vísa í ræður. Tökum bara dæmi frá þessum degi, ræður nokkurra hv. þingmanna, t.d. forustumanna VG sem sóttu um að fara í ESB en vilja ekki fara í ESB. Það er bara ekki hægt, það hefur engin þjóð gert. (Gripið fram í.)

Síðan tók að vísu síðasta ríkisstjórn sig til, af því að menn gleyma því, og ákvað bara að hætta því að semja um að fara í ESB. Ég man ekki eftir því að það hafi nein þingsályktunartillaga verið lögð hér fram eða að gerður hafi verið nokkur skapaður hlutur. Ég held að þeir aðilar sem þannig stóðu að málum séu reiðastir núna yfir framgangi hæstv. utanríkisráðherra. Þetta er alveg séríslenskur veruleiki.

Þær þjóðir sem við berum okkur saman við og hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu hafa allar tekið umræðu um hvort það sé gott fyrir viðkomnadi þjóð að vera í Evrópusambandinu. Þær hafa gert úttektir og skrifað skýrslur og bækur. Reyndar er þetta allt saman til hér á Íslandi; Stefán Már Stefánsson er einn færasti Evrópusérfræðingurinn okkar en einhverra hluta vegna er hann aldrei kallaður til viðtals við fjölmiðla þegar við tölum um Evrópumál eða mjög sjaldan. Ýmsir aðrir hafa skrifað lærðar greinar, heilar bækur þar sem þeir fara nákvæmlega yfir það hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. Auðvitað er til aragrúi af erlendum ekki bara fræðiritum heldur úttektum og einhver mundi nú segja: Væri ekki gott að byrja á því að ræða þetta? Síðan mundu þeir aðilar sem vilja að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og leggja í það milljarða, færa rök fyrir því hvers vegna við ættum að ganga í Evrópusambandið; út af þessu og þessu og þessu. Nei, nei, það gerist ekki á Íslandi. Þar koma menn í fullri alvöru fram og segja að við séum að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ekki aðeins að við séum að leggja út í milljarða kostnað þess vegna, sem íslenskir skattgreiðendur greiða auðvitað, heldur af því að við viljum, höfum það alveg á hreinu, að þjóðirnar í ESB, í því ríkjabandalagi, séu vinaþjóðir okkar. Við eigum að hafa gott samstarf við þær, eins gott og mögulegt er. Við höfum farið fram á að þessir aðilar eyði milljörðum og mikilli vinnu í aðildarviðræðurnar og við erum bara að kanna hvað er í gangi. Allt liggur fyrir. Það liggur allt saman fyrir; úttektir, skýrslur, bækur, íslenskar, erlendar. Ég held að við ættum að byrja á því að ræða það hvað felst í því að vera í Evrópusambandinu. (ÁPÁ: Kom ekkert út úr samningaviðræðunum um árið?) Nú kallar hv. þm. Árni Páll Árnason eitthvað sem ég veit ekki hvernig tengist málinu, en hann talaði um Noreg. Ég skal segja hvað gerðist í Noregi. (Gripið fram í.) Og hann er orðinn svo taugaveiklaður að hann ætlar ekki að leyfa mér að komast að til að svara frammíkalli hans varðandi Noreg.

Í Noregi var það þannig að þeir hafa tvisvar sótt um aðild að Evrópusambandinu til þess að fara í Evrópusambandið. Það var stór meiri hluti fyrir því á þingi að fara í Evrópusambandið. Það var stór meiri hluti fyrir því hjá allra helstu hagsmunaaðilum, reyndar fjölmiðlum líka. Ef þú talar við Norðmenn um það hvort þeir mundu sækja um aðild að Evrópusambandinu þá segja þeir að þeir mundu aldrei sækja um aðild að Evrópusambandinu nema það væri búinn að vera ríflegur meiri hluti fyrir því í mjög langan tíma áður en sótt væri um aðild að bandalaginu.

Ein af skrýtnu birtingarmyndunum í þessu er umræðan um IPA-styrkina. Hér er hæstv. ríkisstjórn ásökuð um að hafa orðið þess valdandi að við höfum misst af einhverjum peningum sem komið hafa af himnum ofan út af einhverri framgöngu. Ég vil núna lesa úr skýrslu samninganefndar fyrrverandi ríkisstjórnar um aðildarviðræður Íslands og ESB. Þar er farið nákvæmlega yfir þessa blessuðu IPA-styrki. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp úr skýrslunni. Þar segir:

„Áherslur í IPA-stuðningi við Ísland á árunum 2011–2013 eru skilgreindar í rammaáætlun sem var birt í aprílmánuði árið 2011. Stuðningurinn skiptist í tvo meginflokka, annars vegar styrkingu stjórnsýslu á Íslandi og hins vegar undirbúning fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðum sambandsins. Ástæðan er sú að aðild að ESB kallar á margvíslega styrkingu stjórnsýslunnar og fyrir liggur að til að Ísland geti tekið þátt í stefnum og verkefnum Evrópusambandsins, t.d. byggðastefnu ESB, þarf að byggja upp þekkingu á starfsháttum og stofnanaumhverfi sambandsins svo árangur náist sem fyrst eftir aðild.“

Svo tala menn bara eins og það sé bara heppni að við höfum dottið inn á einhverja IPA-styrki en vegna framgöngu nýrrar ríkisstjórnar missum við þá. Við fáum þessa styrki til að undirbúa okkur undir aðild, ekki fyrir neitt annað. Það er fullkomlega óskiljanlegt að þessi óskiljanlega stefna Vinstri grænna birtist með þeim hætti að þeir sækja um í ESB, vilja ekki fara inn en taka samt við IPA-styrkjum. Þeir fara í verkefni til að undirbúa okkur undir aðild að ríkjabandalagi sem þeir vilja ekki fara inn í. Svo koma þeir og gagnrýna það að við tökum ekki aðildarstyrkina og höldum okkur við verkefnin, flokkurinn sem hefur sagt það skýrt að hann vill ekki vera í ESB. Reynið að útskýra það fyrir einhverjum hvernig það gengur upp. Ég held að það sé kominn tími til að við ræðum hvað felst í því að vera í ESB og ég held að það sé líka kominn tími til að þeir aðilar sem vilja að íslenskt stjórnkerfi sé heltekið og við eyðum beint og óbeint hundruðum milljóna og milljörðum í aðildarviðræður útskýri fyrir okkur hví við skyldum fara í ESB, því að það er grundvallarspurningin. Sérstaklega hlýtur það að snúa að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þó svo að það væri nú ágætt að heyra Samfylkinguna tala öðruvísi en í slagorðum um það.

Af því að mér finnst þessi IPA-styrkjaumræða svolítið skrýtin vildi ég vekja athygli á því að ef menn fara á Evrópuvefinn, upplýsingaveitu um Evrópusambandið og Evrópumál, er þar t.d. tekið fram hvað það kostar fyrir Ísland að vera í Evrópusambandinu, menn tala oft um að við högnumst mikið á því. Ég held að það sé rétt núna þegar við tökum við gríðarlega erfiðu búi vegna þess að allar þær áætlanir sem lagt var af stað með af síðustu ríkisstjórn hafa ekki gengið eftir og fjárlagahallinn er gríðarlegur, að við horfumst í augu við kostnaðinn. Miðað við þær úttektir sem gerðar voru af íslenskum aðilum var kostnaðurinn frá 5 milljörðum upp í 17 milljarða nettó, ekki brúttó heldur nettó. Hér er ég að vísa í Hagfræðistofnun HÍ, Deloitte & Touche, (Gripið fram í.) Evrópunefnd forsætisráðherra og utanríkisráðuneytið 2010. Ef menn hafa aðgang að tölvu og internetinu, sem ég efast um að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Samfylkingarinnar hafi, þá geta menn með tiltölulega auðveldum hætti fundið það. Ef þeir eru í vandræðum skal ég með glöðu geði koma þessum upplýsingum til þeirra.