142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta andsvar og spurninguna sem beint er til mín.

Nei, ég tel að mikilvægt sé að taka á þeirri umræðu sem er búin að vera í gangi í fjögur ár og svara henni. Við verðum að svara því einhvern veginn hver skuldastaða heimilanna er og hvað sé hægt að gera. Þess er krafist að Alþingi setji lög um ráðstafanir til að bjarga heimilunum og ég vil vita hver staða heimilanna er áður en ég fer út í svoleiðis. Ég vil vita þegar ég sigli um skerjagarðinn hvort það sé sker þarna eða þarna svo að ég geti sveigt af leið og tekið réttar ákvarðanir.

Ég er því hlynntur þessu en, eins og ég sagði í upphafi, en valið er á milli tveggja slæmra kosta. Þetta er tímabundið og mér sýnist að þarna sé búið að gera heilmikið af ráðstöfunum til þess að þetta sé eins mikið verndað og hægt er. Ég er á vissan hátt sáttur við þá lausn sem nefndin hefur komist að. Ég var ekki alveg eins sáttur við frumvarpið eins og það kom upphaflega fram en ég er orðinn nokkuð sáttur. En auðvitað er þetta slæmur kostur þannig að við erum að velja á milli tveggja slæmra kosta.

Ég vil miklu frekar taka á vandamálum heimilanna, hinum raunverulega vanda. Ég hygg að þegar búið er að kanna þau mál muni vandi leigjenda koma mikið sterkar fram en vandi skuldsettra heimila og vandi þeirra sem eru í vandræðum með að greiða af lánunum, þ.e. eru í greiðsluvanda. Hann mun kannski koma fram sem aðalvandinn en ekki endilega skuldavandinn.