142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru erfiðar spurningar vegna þess að þetta er spurning um tímasetningar. Ég hygg að menn þurfi að fara að skoða að fresta niðurstöðu hjá höfuðstólshópnum þar til þessar upplýsingar liggja fyrir eða þá að höfuðstólshópurinn komi með niðurstöðu sem er sveigjanleg að þeim upplýsingum sem koma seinna fram. Hann geri ráð fyrir því að þeir sem eru í þessari og þessari stöðu fái leiðréttingu sinna mála og síðan þegar niðurstöðurnar liggja fyrir vitum við hvað sá hópur er stór.

Allt er þetta náttúrlega spurning um að vinna málið með hagsmuni heimilanna í huga og ég held að það sé ekki stórt vandamál því að vinnan í Hagstofunni ætti að geta gengið nokkuð hratt fyrir sig. Þetta eru allt saman upplýsingar sem streyma með ljóshraða og allt er þetta eiginlega eingöngu spurning um forritun, hvað það tekur mikinn tíma að forrita kerfin til að taka á móti þessu, búa til módel. Seðlabankinn er búinn að vinna ansi mikið módel fyrir fjárhagsstöðu heimilanna þannig að ég hugsa að það liggi mikið til varðandi þann hóp heimila sem skuldar í íbúðinni sinni. Það kann að vera erfiðara að finna hin heimilin, þ.e. leigutakana, en það hefur nú ekki verið ofarlega á dagskrá að leysa þann vanda, en ég legg áherslu á að það verði gert í leiðinni.

Ég held því að varðandi tímasetningarnar þá geti höfuðstólshópurinn skilað sínum hugmyndum um að leysa vanda þeirra sem eru í ákveðinni stöðu, síðan komi niðurstöðurnar úr þessari könnun einhverjum mánuðum seinna og þá liggi fyrir hve margir munu njóta þeirra kjara. Þetta er náttúrlega bara spurning um tímasetningar.