142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þanþol heimilanna og almennings minnkar ekki við það að fresta þessu fram í október, þannig að það þýddi tveggja eða þriggja vikna eða jafnvel mánaðar seinkun á afgreiðslu frumvarpsins. Ég skora því á stjórnarandstöðuna og ég skora á hv. nefnd að leggjast virkilega í vinnu núna um helgina og finna á þessu farsæla lausn sem allir geta verið við, því að mér sýnist að það sé ekkert voðalega langt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Mér finnst umræðan hafa verið þannig, hún hefur verið mjög jákvæð. Þetta hefur verið mjög jákvæð og efnisleg umræða og ég skora á fulltrúa okkar hv. alþingismanna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að taka á honum stóra sínum og vinna um helgina og koma eftir helgi með niðurstöðu sem allir eru sáttir við og er vonandi betri en sú sem við höfum í dag, enn betri, og nær betur þeim markmiðum að gæta persónuverndar og mannréttinda.

Ég hugsa að það sé alveg hægt. Ef það er hægt í október, um miðjan október, er það alveg eins hægt í dag. Ég bið því hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að gæta að þanþoli heimilanna og haska sér í að afgreiða málið um helgina.