142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[14:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls um þetta frumvarp, sem raunar hefur tekið allverulegum breytingum frá því það var fyrst lagt fram í sumar, til að koma með nokkrar athugasemdir. Þær snúa að sjálfsögðu að því að ábyrgð okkar sem löggjafarvalds Alþingis Íslendinga er mikil þegar um er að ræða mál sem lúta að réttindum borgaranna. Ég tek undir með hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur sem talaði hér á undan að það er í raun merkilegt hversu litla umfjöllun málið hefur fengið í fjölmiðlum, úti í samfélaginu, í ljósi þess hversu víðtækar heimildir frumvarpið felur enn þá í sér til upplýsingasöfnunar um borgarana þrátt fyrir að það hafi tekið verulegum breytingum.

Mér finnst umhugsunarefni að hér liggi fyrir vilji meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar til að ljúka þessu máli þegar í umsögnum mjög margra og ólíkra aðila í sumar var sett fram mjög sterk gagnrýni á frumvarpið. Það að fara í gegnum þann umsagnalista sem finna má á vef Alþingis veitir manni mjög skýra innsýn í að markmiðssetning frumvarpsins er og var óljós, að ýmsir vankantar voru á því hvað varðaði öryggismál og enn hefur ekki verið svarað að mínu viti hvort við teljum ásættanlegt að Persónuvernd, lykilstofnun í samfélaginu, leggist enn gegn frumvarpinu. Það er kannski stóra málið í mínum huga þegar við höfum allar þessar umsagnir sem vara við slíkri lagasetningu.

Ég átti því láni að fagna að sitja nokkra fundi hv. allsherjar- og menntamálanefndar þar sem málið var til umfjöllunar í sumar. Gestakomur voru miklar og nefndarmenn lögðu hart að sér að fara vel yfir málið og fengu gesti frá ólíkum aðilum. Það sló mig strax þá hversu gríðarlega óljóst markmiðið er.

Í orði er markmiðið með frumvarpinu að vera liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við skuldug heimili. Gott og vel. Síðan hefur komið fram að í raun og veru nægi upplýsingar sem fyrir liggja úr skattframtölum til að þjóna þeim tilgangi og nýtast inn í þá vinnu, þ.e. að koma til móts við skuldug heimili. Því spyr ég og furða mig á því: Af hverju erum við þá að keyra í gegn mál sem Persónuvernd leggst gegn hreinlega út frá ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs?

Núna þegar frumvarpið hefur tekið verulegum breytingum hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd áréttar Persónuvernd umsögn sína frá því í sumar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við“, þ.e. að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsyn til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd áréttar þá forsendu og stendur því við fyrri umsögn að hún leggist gegn frumvarpinu.

Það vekur mig líka til umhugsunar að við sitjum hér á Alþingi Íslendinga og þegar rannsóknarskýrsla Alþingis hafði verið lögð fram var tekin mikil umræða um skýrslu þingmannanefndar um vinnubrögð Alþingis. Eitt af því sem bent var á þar og var lykilatriði var að mjög mikilvægt væri að þingmenn tækju mark til að mynda á eftirlitsstofnunum samfélagsins, tækju mark á því sem fagaðilar segðu og umsögnum þeirra.

Fylgjum við niðurstöðum þingmannanefndarinnar ef við ætlum að keyra í gegn frumvarp sem Persónuvernd leggst gegn? Fylgjum við hugmyndum um bætt vinnubrögð þegar í raun og veru mátti greina á öllum þeim aðilum sem komu á fund nefndarinnar að þeir litu hver sínum augum á frumvarpið og hvert markmið þess væri? Seðlabankinn kom og sagði: Það er mjög gott að afla upplýsinga af því að við viljum hafa betri upplýsingar um þjóðhagslegar stærðir. Menn líta á þetta sem gott mál að afla upplýsinga til að geta fengið nákvæmari hagtölur, en markmið frumvarpsins á samt sem áður að vera liður í því að koma til móts við skuldug heimili. Það liggur algjörlega ljóst fyrir að það markmið er af hálfu allra þeirra eða að minnsta kosti margra þeirra, skulum við segja, sem fjallað hafa um frumvarpið algjörlega óljóst. Mér fannst á köflum þegar ég sat þessa fundi í sumar að hér væru mörg frumvörp til umræðu því að það var alveg ljóst að margir höfðu áhuga á að fá þessar upplýsingar en markmiðið með þeim var óljóst.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu. Ég vil bara lýsa þeirri skoðun minni að ég tek undir nefndarálit minni hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vil minna hv. þingmenn á að ábyrgð okkar er mikil þegar kemur að því að afgreiða lög. Ég vil líka minna á það sem kom fram á einum af þessum fundum að þó að markmið fólks séu góð og verðug og göfug er það alltaf nóg. Ég get vel skilið þessa hugmynd, hafandi setið í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili þar sem voru uppi ýmsar hugmyndir um upplýsingasöfnun. Það var til að mynda farið í upplýsingasöfnun og gagnaöflun af hálfu Seðlabankans og þeim gögnum var síðar eytt einmitt út frá persónuverndarsjónarmiðum. Ég skil mætavel að fólk vilji hafa sem ítarlegastar upplýsingar. En á síðasta kjörtímabili var líka hlustað. Það var hlustað þrátt fyrir þann ásetning þeirra sem voru að vinna í þessum málum að fá sem skýrastar upplýsingar, það var hlustað á þau sjónarmið og því varð ekki úr að þessi mál væru kláruð.

Ég vil segja að mér finnst mjög mikilvægt að hv. þingmenn hlusti þegar stofnun á borð við Persónuvernd ítrekar afstöðu sína um þetta breytta frumvarp. Það ætti að vera okkur áminning um að það skiptir máli hvaða vinnubrögð við iðkum hérna, að við séum fær um að taka á slíkri gagnrýni, því að staðreyndin er sú, eins og ég sagði hér áðan, að þó að tilgangurinn sé góður og göfugur sjáum við ekki endilega fyrir á hvaða hátt upplýsingarnar verða nýttar og staðreyndin er líka sú, eins og kom fram af hálfu Persónuverndar, að frelsi manna er yfirleitt tekið af þeim í smáskömmtum, í litlum skrefum, sem kunna að virðast öll hafa góðan og gegnan tilgang en verða ekki endilega nýtt í þeim tilgangi síðar meir.

Þær hugmyndir sem voru uppi í nefndinni þá um að kalla þyrfti eftir upplýstu samþykki eða einhverju slíku er nokkuð sem ég tel að þyrfti að ræða betur. Ég tel líka að ræða þyrfti betur hvort hægt sé að afla þeirra upplýsinga sem þarf út frá upplýsingum sem liggja fyrir í skattframtölum eða hreinlega með úrtakskönnunum á borð við þær sem bent er á í umsögninni um frumvarpið. Það eru því vafalaust aðrar leiðir til að fá þær upplýsingar sem stjórnvöldum eru nauðsynlegar til að geta tekið upplýstar ákvarðanir í sinni stefnumótun hvað varðar skuldug heimili. Það er svo önnur umræða sem ég ætla ekki út í hér, en ég tel, þegar ég sé þessar umsagnir, að hv. þingmenn verði að staldra við og hlusta eftir því sem fagaðilar úti í samfélaginu segja. Ég tel að það hljóti að vera ábyrgðarhluti ef við gerum það ekki.

Þetta frumvarp á væntanlega eftir að fara aftur til hv. allsherjar- og menntamálanefndar milli 2. og 3. umr. og ég vonast til þess að menn geti þá náð einhverri lendingu um að skoða hvort ekki séu aðrar leiðir færar til að standa að rannsóknum og greiningu á íslenskum húsnæðismarkaði og stöðu íslenskra heimila, aðrar leiðir en þessar gríðarlega víðtæku valdheimildir sem þarna er verið leggja í hendur Hagstofunnar þó að frumvarpið hafi tekið breytingum til batnaðar frá því í sumar.

Ég held að það hljóti að vera skylda okkar allra, þvert á flokka, að hlusta eftir svona umsögnum og taka mark á þeim. Það var að minnsta kosti mat okkar þegar við ræddum skýrslu þingmannanefndar og ég held að það sé nokkuð sem við eigum að velta fyrir okkur. Þó að við höfum auðvitað mörg dæmi þess að ekki hafi verið hlustað í sögu þingsins hef ég trú á því að nýtt þing vilji sinna vinnu sinni eins vel og unnt er.