142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:03]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Er stríð? Hafa orðið náttúruhamfarir? Er það ekki það eina sem réttlætir svona inngrip í friðhelgi einkalífs almennings? Er í lagi að brjóta á stjórnarskrá okkar af slíkri léttúð? Forseti. Er stríð? Hafa orðið stórkostlegar náttúruhamfarir? Svarið er að sjálfsögðu nei, sem betur fer.

Ég verð að viðurkenna að ég er mjög hissa, ég er ofsalega hissa á því að Sjálfstæðisflokkurinn af öllum flokkum ætli að láta þetta frumvarp fara í gegnum þingið þrátt fyrir að það fari gegn helstu grunnstoðum í stefnu flokksins. Ég er mjög hissa.

Ég er líka hissa á Framsóknarflokknum að ætla að fara með þetta mál í gegn af því að komið hefur fram ítrekað að ekki er þörf á að klára málið, svona stórhættulegt eins og það er, það er ekki þörf á því af því að við höfum tíma. Við höfum tíma til að gera þetta almennilega.

Eitt af því sem ég hef upplifað mjög sterkt eftir að ég fór í þetta skrýtna þjónustuhlutverk sem þingmaður er að ég hef tekið eftir því að ein af ástæðunum fyrir því að við þurfum að vinna svona mikið er að við erum alltaf að hleypa í gegn illa skrifuðum lögum. Ef ég mundi alltaf senda ljóðin mín út óprófarkalesin þá mundi enginn nokkurn tíma gefa þau út, þ.e. ef ég mundi skrifa ljóðin mín svona illa eins og lögin eru oft skrifuð. Mér finnst það ekki gott. Mér finnst það ekki gott að eiga að heita hluti af löggjafarþingi Íslands og þurfa að horfa upp á það aftur og aftur, ekki bara með þessari ríkisstjórn heldur líka með fyrri ríkisstjórnum, að lögin eru svo illa skrifuð að við þurfum alltaf að vera að laga þau. Gleymum við því að þegar lög eru skrifuð og sett í framkvæmd hafa þau áhrif á alla Íslendinga, í þessu tilfelli þá sem eiga skuldir, og eru það ekki nánast allir? Með því að samþykkja lögin svona gölluð höfum við áhrif á friðhelgi einkalífs allra án þess að hafa gert okkur almennilega grein fyrir afleiðingum þess.

Ég hef fengið að upplifa það sjálf að brotist hafi verið inn í friðhelgi einkalífs míns og því miður er það þannig að það er hægt að gera það við ykkur öll. Það skiptir ekki máli hver þú ert; leiðin, tæknin og pólitíski viljinn er til staðar, ekki bara hjá Bandaríkjamönnum, ekki bara hjá Bretum, heldur mjög víða í heiminum. Með því að samþykkja þetta frumvarp svona gallað auðveldum við yfirvöldum — segjum að hér verði yfirvöld sem er ekki treystandi, sem sjá sig knúin til að afhenda persónugögn Íslendinga. Við auðveldum þeim það með þessu og við auðveldum öðrum það þó að ríkisstjórnin mundi ekki vilja afhenda neitt. Komið hefur fram í fréttum undanfarna viku að NSA getur brotist inn í dulkóðun, en dulkóðun er eina vörnin sem við höfum þannig að þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal segi að hann hafi verið talsmaður þess að þetta verði vel dulkóðað þá skiptir það engu máli. Það skiptir nákvæmlega engu máli. Það sem verður að gerast á þessum vinnustað er að þingmenn yfir höfuð geri sér grein fyrir því að botninum hefur verið kippt undan lýðræði okkar, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar, um allan heim. Í fyrsta lagi getum við ekki verndað þessi gögn. Í öðru lagi er þetta stjórnarskrárbrot og ég trúi því ekki að við leyfum frumvarpinu að fara í gegnum þingið af slíkri léttúð, ég trúi því ekki.

Á síðasta kjörtímabili voru ákveðin lög ákaflega umtöluð sem voru kennd við Árna Pál. Þeim var hnekkt og þau talin lögleysa. Við erum að fara að gera alveg eins. Þetta frumvarp fer í gegnum þingið, það mun líklega gera það, en það er bara svo skrýtið með svona meiri hluta að fólk geti ekki sagt: Heyrðu, við gerðum mistök og við erum tilbúin til að horfast í augu við það og laga það. Það er bara ekki hægt. Það er eins og það sé einhver skömm að því. Eigum við ekki að reyna að kenna börnum okkar að það sé allt í lagi að gera mistök svo framarlega sem maður læri af þeim? Það mun ekki gerast hér. Það þarf bara eitt af fyrirtækjunum að segja nei sem farið verður fram á að afhendi þessi gögn, eins og t.d. Lýsing eða eitt af þessum fyrirtækjum. Þá þarf að bíða og bíða og bíða af því að málið fer fyrir dómstóla. Til hvers? Til hvers að búa til bæði lagalega óvissu og brjóta stjórnarskrána okkar og valta yfir friðhelgi einkalífs almennings?

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson komið með margar góðar lausnir og það er einlægur vilji í nefndinni til að finna lausnir. Til hvers erum við að henda þessu út úr þinginu í einhverri léttúð? Er þetta léttvægt, forseti?

Svo er annað sem truflar mig svo mikið, það eru fjölmiðlar á Íslandi. Það er ástæða fyrir því að almenningur veit ekki af því þegar verið er að fremja stjórnarskrárbrot eða þegar verið er að gera tilraunir til þess. Áður en ég fór inn á þennan vinnustað lá ég hvorki yfir Evrópusambandinu né ræddi á ljóðrænan hátt um það eða las í þaula t.d. stjórnarskrána. Sem betur fer hefur það verið þannig eftir hrun að mjög margir hafa sett sig inn í núverandi stjórnarskrá og sem betur fer á það að vera erfiðara fyrir okkur að brjóta gegn henni.

Núna ætlum við að brjóta stjórnarskrána „light“, en forseti, er stríð? Hafa orðið miklar náttúruhamfarir sem réttlæta það? Þótt margir eigi erfitt með að trúa því er ég frekar íhaldssöm og á mjög erfitt með að horfa upp á grunngildin okkar, sem felast í t.d. friðhelgi einkalífsins og stjórnarskránni, afgreidd á þennan hátt. Til hvers? Það er hægt að finna lausn á þessu. Eins og ég sagði í ræðu minni í fyrradag er engin skömm að því að viðurkenna vanmátt eða mistök. Og það eru mistök að taka þetta svona í gegn. Ég held einfaldlega að fólk skilji ekki hvað það þýðir út af því að enginn sem ég talaði við hér á þingi skildi t.d. það sem ég fór í gegnum þegar bandarísk yfirvöld fóru yfir öll mín persónulegu gögn. Þau fóru heim til mín, þau fóru í gegnum allt, allt sem ég hafði skrifað, alla sem höfðu skrifað mér, þau fóru í gegnum öll símtölin mín, öll skilaboðin mín, þau fóru í gegnum alla mína sögu. En þau fundu þetta ekki heima hjá mér, þau fóru um bakdyrnar. Þau fóru inn á netið þar sem allt um okkur öll er geymt á stafrænu formi. Og ætlum við að aðstoða við svona aðgerðir með því að fara í svona víðtækar heimildir? Ætlum við að aðstoða við að hægt sé að misnota okkar persónulegu gögn á þennan hátt? Þegar við reynum að útskýra svona hluti þá er alltaf viðkvæðið: Já, en ég hef ekkert gert, ég hef ekkert að fela. Þýðir það þá að við eigum að afhenda og gefa frá okkur réttindi okkar úr því að við höfum ekki gert neitt? Er allt í lagi að einhver komi bara og hafi heimildir til að fara heim til okkar hvenær sem er án heimildar? Nei, það er ekki í lagi.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi áðan um að hann vildi eiga samræður um þær upplýsingar sem komu frá Snowden „skúrki eða hetju“, eins og hann orðaði það, sem mér finnst vera furðulegt orðalag. Ég mundi frekar skilgreina gjörðir Snowdens sem frábæra þjónustu við restina af heiminum til að fá skjalfestar upplýsingar um það sem margir hafa verið að reyna að segja í mörg ár um hvert yfirvöld eru komin varðandi aðgengi að persónuupplýsingum okkar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill sem sagt ræða um þessar upplýsingar, hvað það er í raun og veru alvarlegt, hversu djúpt er kafað í friðhelgi okkar á sama tíma og hv. þingmaður styður það að við séum auðvelda yfirvöldum að gramsa í gögnunum okkar.

Ég vil ítreka að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur komið fram með fínar lausnir í ræðum sínum. Ég hef ekki heyrt neinn andmæla því að það séu góðar lausnir þannig að ég skora á þingmennina sem sitja í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að sýna svolítið hugrekki.

Er þetta það sem þingið vill? Var það ekki hugmyndin að við ætluðum að vera það? Í það minnsta var það rætt á síðasta þingi og mér finnst eins og við höfum heyrt það hjá mörgum þingmönnum, m.a. hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, að það sé vilji til að hafa hér sterkt þing sem er með gott eftirlit með framkvæmdarvaldinu og að við ætlum bara ekki að vera einhver stimpilpúði fyrir lög sem eru ekki nægilega góð. Það er hlutverk okkar að tryggja að hér fari ekki í gegn lög sem ekki eru nægilega góð. Við viljum ekki vera þekkt fyrir að vera með einhvern leirburð, er það? Ætlum við ekki að yrkja dýrt? Þetta er óþarfa leirburður. Þetta er gert í flýti eins og svo mörg af þeim frumvörpum sem koma hingað inn. Einhvern tímann þegar ég var í hv. þingskapanefnd var farið yfir tölfræði um hve mörgum klukkutímum væri varið í þinghaldið eftir löndum. Þar kom fram að við vinnum mjög mikið og ég velti fyrir mér af hverju við værum alltaf með svona langan vinnudag og marga þingdaga og nefndadaga miðað við önnur þing. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það væri bæði út af þessum svokallaða þingmálahala, það er bæði klippt á mál og skorið og maður verður alltaf að byrja upp á nýtt — hv. þm. Svandís Svavarsdóttur, hvað heitir það aftur þegar skorið er á þingmálahalann? Það er skorið á hann út af því að nýtt löggjafarþing hefst, ég man ekki rétta orðið yfir það, fyrirgefið mér. Síðan erum við alltaf að taka upp lög aftur og aftur og lagabúta og laga þá af því að lögin eru svo illa skrifuð í upphafi. Mér þætti það alveg frábært ef þetta þing gæti verið það þing þar sem við mundum setja okkur það markmið að senda frá okkur það vel skrifuð lög að við þyrftum ekki alltaf að fá þau aftur í fangið og að við höldum því til haga, sem mér finnst ekki síður mikilvægt og við höfum rætt það hér áður, að í hvert skipti sem við breytum lögum þá hefur það áhrif á svo marga. Það getur hreinlega rústað lífinu hjá einhverjum af því að við gerum einhverja vitleysu við lagasetningu. Ef fram koma efasemdir um að lög séu nægilega vel úr garði gerð og komið hefur verið fram með lausnir um hvernig má laga þau, er það þá ekki okkar að hlusta á það? Er það ekki okkar á þinginu að axla þá ábyrgð að láta ekki ýta okkur út í þá vitleysu að búa til lög sem er nánast öruggt að enda fyrir dómstólum og skapa lagalega óvissu þannig að þau nýtast hvort eð er ekki neitt? Af hverju gerist það?

Síðan kom fram í ræðunni í gær, sem mér finnst mjög fréttnæmt en hefur eiginlega ekkert verið rætt, að það á ekki að nota þessi gögn fyrr en einhvern tímann næsta vor. Þá á að fara í þessar leiðréttingar. Það kom fram í ræðu þingmanns í gær þannig að það liggur ekki á þessu. Hvernig væri að þingmenn allsherjarnefndar- og menntamálanefndar sýni bara smá „balls“? Hvernig væri það? Að þeir sýni framkvæmdarvaldinu að hv. þingmenn þora að búa til góð lög. Það er ekki svo flókið. Ég er alveg sannfærð um það að þessum þingmönnum og okkur í þingheimi verður fyrirgefið. Ég er sannfærð um að ef þingmenn þora að taka þá afstöðu, og mér er alveg sama hvaða lög það eru, hvort það er eitthvað sem kemur frá þarnæstu ríkisstjórn — við þurfum að hafa önnur gildi og setja nýjar vinnureglur og þetta er hluti af því. Það er ekki nóg að segja bara að við ætlum að vinna öðruvísi, við verðum að sýna það í verki. Hérna höfum við kjörið tækifæri. Hér er upphafið að nýju og vandaðra Alþingi. Ég skora á nefndina að þora; að þora að sýna í verki að við meinum það sem við segjum, líka þegar við erum komin í ríkisstjórn.