142. löggjafarþing — 27. fundur,  12. sept. 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[15:27]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég telst ekki til tölvunörda og ég skil eiginlega ekkert svona tæknileg atriði, ég get bara upplýst þingheim um það og alþjóð. Meðalhóf er mikilvæg regla, meðalhófsreglan. Þetta er mikilvæg regla í stjórnsýslulögum. Þetta er mikilvægt og ég get alveg tekið undir að það á aldrei að ganga lengra en nauðsynlegt er. Það er örugglega enginn ágreiningur milli þingmanna yfir höfuð um það hversu mikilvægt það er og hversu mikilvægt það er fyrir okkur og alla sem fara með vald að fara vel með það, gæta okkar. Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að fara með vald og við þurfum að fara varlega og við þurfum að ræða það. Mér sýnist í þessu frumvarpi — frumvarpið hefur breyst mikið til batnaðar og kannski er það orðið þannig að það geti talist viðunandi skerðing á persónufrelsi og persónuvernd þannig að ég geti sofið á nóttunni, sem er nú mjög mikilvægt. En kannski var það ekki þannig í byrjun. Ég hef sjálfur barist árum saman, löngu áður en ég kom inn á þessa samkomu, fyrir persónufrelsi, fyrir friðhelgi einkalífsins og talið þá sem hér hafa verið fyrir ekki hafa passað sig nógu vel á því og látið tilganginn helga meðalið allt of oft. Ég vona að breyting verði á á þessu þingi.